Fara í efni

HIROSHIMA, LÍBANON, SÝRLAND, VENESÚELA, LÍBÍA: VIÐBRÖGÐ OG VIÐBRAGÐALEYSI

Þessa dagana minnast menn árásar Bandaríkjahers á Hiroshima og þremur dögum síðar Nagasaki í Japan fyrir 75 árum, sjötta og níunda ágúst árið 1945. Á annað hundrað þúsund manns létu lífið á fyrsta degi árásanna. Á næstu mánuðum tvöfaldaðist sú tala og í framhaldinu áttu hundruð þúsunda eftir að deyja eða hljóta örkuml af völdum þessara árása.

Menn minnast fórnarlambanna og atburðarins en gerandinn hefur gengið laus; hefur aldrei gengist við því að hafa framið glæp. Bandaríkin viðurkenna ekki þennan stríðaglæp fremur en aðra stríðsglæpi sína; alþjóðlegir stríðsglæpastólar eigi ekki að taka til þeirra. Þetta eru leiðtogar Íslands í NATÓ, heimslögreglu kapítalismans.

Í vikunni varð mannskæð sprenging í Beirút í Líbanon. Talið er að um slys hafi verið að ræða. Menn leita þeirra sem taldir eru bera ábyrgðina á þessu slysi; þeir verði látnir svara til saka.

Íslendingar hafa lýst samhug og boðið fram fjárhagsaðstoð í þremur eða fjórum útgáfum ráðherra og borgarstjóra sem hvert um sig ákváðu að koma fram fyrir okkar hönd. Íslendingar eru ekki einir um að vilja sýna heiminum mannúð sína vegna þessa slyss. Macron Frakklandsforseti sprangaði til dæmis um á stuttermaskyrtu til að sýna Líbönum samhug og kannski ekki síður sjálfan sig í leiðinni. Sumt af þessu er prýðilegt – en aðeins svo langt sem það nær.

Á svipuðum slóðum á landakortinu eru ríki sem orðið hafa fyrir miklu meiri búsifjum á liðnum mánuðum og misserum en þessi hræðilega slysasprenging í Líbanon hefur valdið. Þar hefur ekki verið um slysasprengingar að ræða. Ég nefni Sýrland og Líbíu þar sem NATÓ stýrði helsprengjum. Ég man ekki betur en þessi sami Macron hafi lýst einni árásinni á Sýrland sem nauðsynlegri “hefndarárás” og við svipaðan tón kvað hjá hinum bandaríska Obama.

Sýrland sætir nú efnhagsþvingunum NATÓ-ríkja með stuðningi Evrópusambandsins eins og fyrri daginn. Sama á við um önnur ríki sem ekki eru tilbúin að lúta heimsauðvaldinu. Þeim er gert eins erfitt fyrir og kostur er í þeirri viðleitni að opna leið að hráefnum og auðlindum. Ósköp einföld formúla en viðbjóðsleg. Ég nefni Venesúela. Engin samúðarrödd frá Íslandi þar heldur þögul undirgefni og fylgispekt. Líbía er helsærð eftir árásarstríð NATÓ. Þar blómstra þrælamarkaðir og ofbledið er hömlulaust. Engin afsökunarbeiðni engin samstöðuyfirlýsing með fórnarlömbum.

Þegar viðbrögð og viðbragðaleysi er skoðað í sögulegu ljósi verður til sýnilegt mynstur. Það sem þá kemur í ljós ætla ég að valdi fleirum en mér velgju.

(Myndin að ofan er eftir eina af árásum NATÓ á Tripoli, höfuðborg Líbíu, 2011. Haft var á orði að NATÓ hefði sprengt Líbíu “aftur til Steinaldar”.)