HALLDÓR BLÖNDAL KVADDUR
Mikið fjölmenni var við útför Halldórs Blöndal frá Hallgrímskirkju í dag.
Ef kenna ætti Halldór Blöndal við embætti eða starf væri úr mörgu að velja, kennari, hvalskurðarmaður, alþingismaður, ráðherra, forseti Alþingis, formaður í samtökum eldri sjálfstæðismanna og forseti Hins íslenzka fornritafélags. Eflaust sitthvað fleira.
Ef hann ætti sjálfur valið hef ég grun um að hann veldi tvennt, hvalskurðarmaður og forseti Hins íslenzka fornritafélags. Hið fyrra veldi hann í ögrunarskyni og til að sýna tilteknum málstað stuðning í mótbyr, hið síðara endurspeglaði hins vegar ævilangan áhuga á íslenskri menningu, ekki síst fornbókmenntunum en þar stóðu honum fáir á sporði hvað þekkingu varðar.
Þetta er sú mynd sem ég hef af Halldóri Blöndal.
Reyndar hefur myndin af honum í mínum huga tekið miklum breytingum frá því við vissum fyrst hvor af öðrum. Lengi vel var mjög stirt okkar á milli og er þá ekki tekið djúpt í árinni. Þróunin varð síðan sú eftir að kynni tókust með okkur að síðar – alllöngu síðar – tókst með okkur ágætur vinskapur.
Það áttum við sameiginlegt úr foreldrahúsum að kynnast ólíkum pólitískum straumum við eldhúsborðið og læra þar að í mannheimum er iðulega fleira en sést við fyrstu sýn. Faðir Halldórs var einn af stofnendum Kommúnistaflokks Íslands en móðir hans úr innsta hring Íhaldsins með stórum staf þótt ekki séu mér kunnar skoðanir hennar sjálfrar. En inn í mismunandi hugmyndaheima hefur hann sem ungur sveinn fengið góða innsýn.
Þegar til kastanna kom fór ekki á milli mála hvert Halldór Blöndal vildi stefna. Því fengu menn að kynnast í þúsund ræðum og ritum. Halldór varð íhaldsmaður eins og þeir gerast hvað eindregnastir. Slíkir eru ekki sömu tegundar og peningafrjálshyggjumenn samtímans. Hann var maður menningarinnar, hann var maður landsbyggðar, hann var maður íslensks landbúnaðar, hann var maður Íslands fram í fingurgóma.
Hér að neðan birti ég brot úr samskiptasögu okkar Halldórs Blöndal úr bók minni Rauða þræðinum sem kom út fyrir ekki svo ýkja löngu:
„Með horn í síðu formanns BSRB
Talandi um litríka einstaklinga á þingi á þessum tíma þá verður varla litið fram hjá Halldóri Blöndal þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Halldór hafði frá gamalli tíð mikinn vara á sér gagnvart mér, hafði iðulega vísað til formanns BSRB í ræðum á þingi þegar hann vildi leggja áherslu á hve varasöm vinstrimennska væri. Þetta varð þess valdandi að engir fagnaðarfundir voru með okkur Halldóri þegar ég bættist í þingliðið.
Við urðum síðan mjög ósammála um framtíð Símans þegar Halldór sem samgönguráðherra hugðist einkavæða hann á mínu fyrsta kjörtímabili. Urðu af þessu mjög harðvítugar deilur. Síðar varð Halldór forseti Alþingis og batnaði þá ekki ástandið. Deilur voru tíðar okkar í milli enda stýrði hann þá fundum þingflokksformanna þar sem reynt var að fá fram hvar menn yrðu ósammála og hvar sammála svo betur mætti kortleggja framvinduna á þingi. Ég var nánast alltaf ósammála þáverandi stjórn, sem gerði starf forseta þingsins ekki auðveldara.
Þegar Halldór Blöndal vildi nálgast mig á vinsamlegri nótum mælti hann á eins konar dulmáli og spurði þá gjarnan formálalaust hvernig Ingibjörg hefði það. Svo var mál með vexti að Þorsteinn Ö. Stephensen móðurbróðir minn og Lárus Blöndal faðir Halldórs höfðu verið miklir vinir og þekkti Halldór vel Ingibjörgu dóttur Þorsteins og var greinilega hlýtt til hennar. Með því að spyrja hvernig Ingibjörg hefði það þótti Halldóri hann hafa fundið leið til að slá á vingjarnlega strengi gagnvart mér, frænda Ingibjargar Þ. Stephensen. Og slíka strengi á Halldór svo sannarlega til og væri hægt að hafa um það nokkurt mál.
Vítur þingforseta
Það sem hins vegar varð til þess að ljúka köldu stríði okkar var þegar Halldór vítti mig fyrir ummæli í þinginu sem reyndar voru harla saklaus en hann hins vegar nokkuð fljótur að fuðra upp þegar ég var annars vegar. Tilefnið var deilur okkar á milli um hvar tiltekið þingmál VG skyldi sett í dagskrá en ég vildi að það yrði spyrt við stjórnarfrumvarp sem átti að útvarpa umræðu um og fjallaði um sama efni. Halldór var nú aldeilis ekki á því og varð úr þessu ósætti á milli okkar í þing sal sem endaði með umræddum vítum, hinum fyrstu sinnar tegundar í áratugi. Urðu af þessu mikil skrif í blöðum og heitingar eftir því.
Þannig vildi til að einhvern þessara daga hitti ég að máli Styrmi Gunnarsson ritstjóra Morgunblaðsins, en við áttum þá í samstarfi um klúbbinn Geysi sem er sjálfshjálparklúbbur þeirra sem eiga við geðræn vandamál að stríða. Ég vissi um vináttu þeirra Halldórs og Styrmis og þótti mér ekki ólíklegt að það sem ég segði Styrmi um hamaganginn í þinginu og deilur okkar Halldórs myndi ná eyrum Halldórs.
Þar með lauk því stríði
Ég sagði nú Styrmi að ég vildi gjarnan fá birta grein í Morgunblaðinu með gagnrýni á gjörð Halldórs en síðan myndi ég bíða átekta – láta málinu lokið nema Halldór vildi halda því lifandi.
Þegar að næsta þingdegi kom hafði grein mín birst í Morgunblaðinu og gat ég mér til um það að þingforsetinn hefði fengið skilaboðin.
Í upphafi dags náði ég mér í dagskrá fyrirhugaðs þingfundar, vissi að þá átti að halda áfram umræðu um málin tvö sem við höfðum deilt um hvernig skyldi ræða. Ég sá þá að þingforseti sat enn fast við sinn keip. Ríkisstjórnarmálið var númer eitt, mitt mál neðst, númer 30.
Ég fór við svo búið á skrifstofu þingforseta, ákvað að gera þetta mál upp einn en ekki á fundi þingflokksformanna. Settist ég andspænis forseta. Ofan úr loftinu héngu klakabönd, allt ískalt. Ég sagðist hafa verið að lesa dagskrána og sæi ekki betur en mitt mál væri neðst. Ég myndi sætta mig við að það yrði númer þrjú. Að þessu sögðu stóð ég upp og gekk út. Fátt varð um kveðjur.
Síðan hófst þingfundur. Dreift hafði verið nýrri dagskrá. Mitt mál var númer þrjú. Þar með lauk stríði okkar Halldórs og þegar ég kvaddi hann sem forseta Alþingis úr ræðustól fyrir hönd annarra þingmanna hafði ég á orði að hann hefði almennt haldið vel á málum og bætti því við að um eitt hlytum við að vera sammála ég og forsetinn „að vítin væru til að varast þau“.
Var nú friður kominn á milli okkar Halldórs Blöndal og hefði því seint verið trúað að vinsemd ætti eftir að einkenna okkar samskipti.»
- - - -
Lýkur þar með þessari upprifjun. Það sem helst kemur upp í hugann og verður minnisstætt þegar Halldór Blöndal er kvaddur er hve góðum hjartaþráðum hann bjó yfir. Þegar kona hans veiktist af Alsheimer nokkrum árum áður en hún féll frá og hætti að geta haft stjórn á hugsun sinni, sýndi hann henni ekki bara óendanlega þolinmæði og væntumþykju heldur einnig virðingu.
Þar með gaf hann sjálfum sér ágætiseinkunn.
------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/
(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.
To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)