hágé HORFINN Á BRAUT
Hinn tuttugasta og fjórða apríl árið 2004 birtist eftirfarandi hér á síðunni:
Hver man ekki eftir undirskriftinni hágé á Þjóðviljanum forðum? Þetta var að sjálfsögðu undirskrift Helga Guðmundssonar, rithöfundar, stjórnmálamanns og verkalýðsforkólfs til langs tíma, en Helgi stóð um árabil í framvarðarsveit verkalýðsbaráttunnar – og lætur reyndar enn til sín taka á því sviði. Í gær birtist pistill eftir Helga Guðmundsson hér á síðunni í dálkinum frjálsir pennar. Helgi mun skrifa pistla hér annað veifið og er ég viss um að margir munu hafa áhuga á að fylgjast með þeim skrifum. Þetta þykir mér vera mikið ánægjuefni og þykir mér heiður að því að birta hér skrif hans.»
Ég sló upp í leitarvél síðunnar nafni Helga og kom þá á daginn að greinar hans hér á síðunni skiptu tugum.
Flestar fjölluðu þær um pólitík eða efni henni tengd. Helgi var skoðanafastur en alltaf tilbúinn að endurskoða afstöðu sína. Eitt breyttist þó aldrei og það var áhersla hans á félagshyggju og félagslegar lausnir.
Eftir að VG kom til sögunnar áttum við samleið þar um árabil, ekki alltaf sammála um allt, en um flest. Ég minnist þess að um eitt hafi hann verið okkur þingmönnum VG mjög ósammála og það var í afstöðu okkar til fjölmiðlafrumvarpsins svokallaða. Þar taldi hann okkur hafa blindast af andúð okkar á Sjálfstæðisflokknum sem stóð að frumvarpinu og vildi með því setja lög sem heftu hringamyndun í eignarhaldi fjölmiðla. Þar var Baugsveldið í sigti. Taldi hágé okkur hugsa of skammt.
Helga Guðmundsson þekkti ég frá gamalli tíð, báðir á ferli á svipuðum slóðum í pólitík og verkalýðsbaráttu en vel kynntist ég honum ekki fyrr en árið 1989. Samstarfi okkar Helga á því ári hef ég oft gert grein fyrir, rakst til dæmis á eftirfarandi í vegferð minni um heimasíðuna í leit að skrifum sem tengdust honum: «Annars sátum við Helgi Guðmundsson saman í útvarpslaganefnd á árinu 1989, sem þáverandi menntamálaráðherra Svavar Gestsson skipaði, ásamt nokkrum valinkunnum einstaklingum. Að öllum ólöstuðum reyndist Helgi okkur snjallastur í þessu starfi ...»
Mig hafði Svavar skipað formann nefndarinnar en vel minnist ég þess hve mjög ég reiddi mig á færni Helga og lipurð við að leysa erfiða hnúta í nefndarstarfinu. Síðar átti ég eftir að leita til hans um að sinna aðskiljanlegum verkefnum fyrir BSRB vitandi hve vel hann leysti allt sem honum var falið í hendur, fagmannlega og af alúð. Ég hef oft haldið því fram að útvarpslagafrumvarpið sem Svavar Gestsson lagði fram á grundvelli þessa nefndarstarfs hafi verið afbragðsgott og miklum mun betra en það frumvarp sem síðar varð ofan á.
Helgi vildi „leysa málin“. Þegar deilur risu í VG fannst Helga það ekki endilega vera illt að menn deildu - þótt hann hefði stundum á orði að það tæki á að heyra félaga sína deila hart - en hann vildi að menn kæmust á endanum að niðurstöðu sem menn síðan sættust á.
Þessu beindi hann ekki að öðum deiluaðila hinum fremur. Þetta ætti við um alla þá sem deildu en væru í reynd sammála í grundvallaratriðum – sammála um mikilvægi félagslegra lausna.
Þótt Helgi Guðmundsson sé horfinn á braut úr lifanda lífi lifir minningin um velviljaðan og góðan vin - félagshyggjumann fram í fingurgóma.
Fjölskyldu Helga Guðmundssonar færi ég samúðarkveðjur.
----------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/
(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.
To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)