Fara í efni

GUNNLAUGUR STEFÁNSSON UM BLÓÐHEFNDINA

Í byrjun vikunnar birti ég pistil á vísir.is, og einnig hér á síðunni, sem bar yfirskrift í spurnarformi: Hulda eða Stoltenberg?
Þar velti ég vöngum yfir því hvernig það hafi getað gerst að íslensk stjórnvöld legðust eins eindregið og raun ber vitni á sveif með þeim sem vilja láta vopnin tala í ljósi þess að um áratugaskeið var andinn sá í landinu – nánast óháð pólitískum skoðunum manna – að Íslendingar ættu ætíð að koma fram sem herlaus friðelskandi þjóð. Nú eru Íslendingar hins vegar farnir að senda morðtól á vettvang stríðsátaka og er það réttlætt með vísan í veru okkar í NATÓ. Hér kveður við alveg nýjan tón í utanríkisstefnu Íslands þótt færa megi rök fyrir því að stjórnvöld hafi um nokkurt árabil verið að feta sig í þessa átt.

Viðbrögð við þessum vangaveltum hafa verið nokkur en lágstemmd og í samræmi við það sem margir velviljaðir persónum og leikendum í þverpólitískri rikisstjórn hafa tamið sér í næstum tvö heil kjörtimabil.

Í þögninni breytist margt.

Einn er sá maður sem ekki þegir. Sá er Gunnlaugur Stefánsson, lengi sóknarprestur í Heydölum. Hann sendi mér bréf sem ég hef birt hér á heimasíðunni. Bréfið er stutt en magnað. Séra Gunnlaugur talar um blóðhefndina sem siðuð þjóðfélög hafi útrýmt með tilkomu réttarríkisins. Undantekningin sé þar sem Mafían sé við völd. Í samskiptum þjóða sé blóðhefndin aftur á móti viðurkennd og meira að segja upphafin.

Ég vil þakka séra Gunnlaugi Stefánssyni fyrir þessar hugleiðingar. Þær eru vekjandi og í anda þeirrar umræðu sem heimurinn þarf nú mjög á að halda.

Í upphafi bréfs síns víkur séra Gunnlaugur að skrifum mínum um Huldu og Stoltenberg og segir svo:

«Mér hefur verið hugleikið þessa dagana, ekki síst í ljósi þess að nú er fórnarkostnaðurinn í stríðinu í Úkraníu að nálgast milljón mannslíf, heimsins valdamenn keppast við að láta drepa fleiri og telja tilræði við sæmdina að biðja um frið, afhverju í ósköpunum heimurinn sé ekki kominn lengra á þroskabraut sinni en að sjá enga aðra leið til að leysa deilur ríkja í millum en að drepa fólk. Í alþjóðastjórnmálum gildir enn blóðhefnd endurgjaldslögmálsins sem fyrir löngu er búið að afnema innanlands í flestum sæmilega siðuðum ríkjum. Mafían og aðrar glæpaklíkur beita samt blóðhefndinni með miskunnarlausu endurgjaldi í viðskiptum sínum og ættu því að skipa sérstakan heiðursess í Nato. Það er grátlegt að horfa upp íslenska stjórnmálamenn á vettvangi Nato samsinna blóðhefndinni í stað þess að boða lofgjörð Huldu og skapa sér einstaka stöðu í veröldinni sem um leið yrði okkar styrkasta vörn gegn grimmdinni og hatrinu. Líklega hefur enginn lýst þessu betur en Jesús Kristur, en boðaskapur hans var einmitt gegn blóðhefndinni, þar sem fyrirgefningin með iðrun og afturhvarfi er kjölfestan, mótaði helgi lífsins og lagði grunn að lifandi von. Þú skalt elska, ekki hata.... Það er engin hugsjón til í stjórnmálum nútímans, aðeins græðgin fyrir mig og mína.....Svo líða hinir berskjölduðu og saklausu....»

-------------------------------

(Mynd:Árni Svanur Daníelsson)

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.