Fara í efni

GRÁGLETTNIN Í SPÉSPEGLI KÁRA

Spéspegill er kallaður spéspegill vegna þess að hann afskræmir fyrirmyndina. En getur hið ótrúlega gerst að spémyndin sé veruleikinn en fyrirmyndin ekki?

Þannig er það þegar Kári speglar viðskipti með losunarvottorð sem ganga kaupum og sölum eftir að Evrópusambandið ákvað að leysa mengunarvandann með aðferðum gróðahyggjunnar; egna fyrir fjárfesta að græða á grænu. En þá sé líka í góðu lagi að þykjast enda stjórni ríkið og heilt samband ríkja þykjustuleiknum.

Braskarar hafa tekið því fagnandi að geta keypt sig frá öllum sóðaskp með því að kaupa vottorð um að kolaknúin framleiðsla þeirra sé öll búin til með hreinni orku frá Sigöldu á Íslandi. Þar sé ekkert mengað og ekkert eyðlagt nema þá helst náttúran, það er ef fer fram sem horfir með þúsund vindmyllum – að ógleymdu náttúrlega siðferðinu. Þessi sölumennska er að sjálfsögðu afskræming á öllu siðferði auk þess að vera brot á lögum. Á þetta bendir Kári, einn af frjálsum pennum heimasíðunnar, í gráglettnum pisti sem birtist fyrir skömmu.

Hve yfirgengilega fáranlegt málið er rann endanlega upp fyrir mér þegar Kári tók til samanburðar aldursvottorð manns og bíls og klykkti út með að spyrja hvers vegna ríkið ætti að komast upp með skjalafals sem væri efalaust talið refsivert ef aðrir ættu í hlut.

Afskræmt siðferðið verður augljóst þegar spéspegli er brugðið á veruleikann. Það er ekki spegillinn sem afmyndar, hann sýnir hina raunsönnu mynd.
Þetta er einmitt gráglettnin í spéspegli Kára.

Pistill Kára:
https://www.ogmundur.is/is/frjalsir-pennar/skjalafals-i-bodi-stjornvalda-og-evropusambandsins-upprunaabyrgdir