Fara í efni

Skjalafals í boði stjórnvalda og Evrópusambandsins - Upprunaábyrgðir

Í síðustu grein, um tjáningarfrelsið, var vikið að sannleikshugtakinu og samsvörunarkenningunni um sannleikann. Í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 með síðari breytingum eru m.a. ákvæði um skjalafals. Undir XVII. kafla laganna, 1. mgr. 155. gr., segir svo: „Hver, sem notar falsað skjal til þess að blekkja með því í lögskiptum, skal sæta fangelsi allt að 8 árum. Skal það einkum metið refsingu til þyngingar, ef skjalið er notað sem opinbert skjal, viðskiptabréf eða erfðaskrá.“ Í 2. mgr. 155. gr. segir: „Sömu refsingu varðar að nota fölsuð gögn, sem geymd eru á tölvutæku formi, til að blekkja með þeim í lögskiptum.“[i]

Ef gefin er út ábyrgð fyrir einhverju er almennt gengið út frá því að ábyrgðin svari til einhvers sem hægt er að sannreyna, að ábyrgðin passi við andlagið. Þannig er t.d. hægt að sannreyna framleiðsluár bifreiðar eftir verksmiðjunúmeri hennar. Ef hugmyndin um upprunaábyrgðirnar ætti að gilda um uppruna bifreiða gæti eigandi fimm ára gamallar bifreiðar einfaldlega keypt sér „upprunaábyrgð“ og „yngt“ bifreiðina um t.a.m. fjögur ár. Eigandi nýrrar bifreiðar gæti á sama hátt selt þann „unga aldur“ á markaði til hinna sem kysu að „yngja upp“ gamla bíla [á pappírunum].

Í báðum tilvikum er ljóst að ekkert hefur breyst í raunveruleikanum. Gamlir bílar verða áfram gamlir og nýjir bílar (á sama tímapunkti) enn nýir. En við lifum á tímum sýndarveruleika og sýndarstjórnmála – ekkert er eins og það sýnist. Með óheftu hugmyndaflugi má útfæra þetta nánar. T.d. má vel hugsa sér að unglingar, ungmenni, geti í náinni framtíð selt ungan aldur sinn til hinna sem eldri eru.

Sjötugur maður gæti þannig keypt sér „upprunaábyrgð“ á frjálsum markaði og fengið aldri sínum breytt í þjóðskrá [fellur mjög vel að hugmyndinni um „aldurstengt sjálfræði“]. Eftir endurskráningu væri hann ekki lengur sjötugur heldur tvítugur. Báðir græða, ungmennið fær helling af peningum og eldri borgarinn „endurheimtir“ æsku sína. Markaðurinn ræður og sá sem vill greiða fyrir „yngingu“ á að hafa rétt til þess. Fyrirkomulagið hvetur til „yngingar“ og „eilífrar æsku“.

Hvað eru upprunaábyrgðir?

Upprunaábyrgðir eru verslunarhæf orkuskírteini, skilgreindar í tilskipunum Evrópusambandsins, 2009/28/EB og 2018/2001/ESB.[ii] Í stuttu máli má segja að upprunaábyrgðir (evrópska fyrirkomulagið) séu hugsaðar sem söluvara með vísan til umhverfisávinnings sem tengist endurnýjanlegri orkuframleiðslu. Verslað er rafrænt með ábyrgðirnar á frjálsum markaði, fyrir endurnýjanleg orkuskírteini sem ekki tengjast afhendingu raforkunnar sem slíkrar.

Upprunaábyrgð gefur til kynna framleiðslu á einni megavattstund (MWst) af raforku frá viðurkenndum endurnýjanlegum orkugjafa. Hver upprunaábyrgð svarar til undirliggjandi tegundar orkugjafa, staðsetningar framleiðslunnar og ártals. Evrópski markaðurinn inniheldur nú upprunaábyrgðir vegna vindorku, vatnsorku, sólarorku, jarðvarma og lífmassa.[iii]

Hver upprunaábyrgð er auðkennd og fær ákveðið númer. Þegar upprunaábyrgð „skiptir um hendur“ frá útgefanda til miðlara/veitu og að lokum til „neytanda“ er allt ferlið rakið. Þannig er reynt að fyrirbyggja tvítalningu í raforkuupplýsingum og áreiðanleika „grænna raforkusamninga“. Dæmi um útgáfustofnanir eru: Svenska kraftnet í Svíþjóð, CertiQ í Hollandi, Fingrid í Finnlandi, Statnett í Noregi og UBA í Þýskalandi.[iv]

Kerfi upprunaábyrgða

Sérhver upprunaábyrgð innan evrópska ábyrgðakerfisins (EECS) gildir í 12 mánuði. Það þýðir að frá því augnabliki sem MWst af endurnýjanlegri orku er framleidd, og samsvarandi upprunaábyrgð er gefin út, er aðeins hægt að millifæra og niðurfella ábyrgðina innan 12 mánaða. Að þeim tíma loknum gengur ábyrgðin úr gildi.[v]

Mynd 1[vi]

Mynd 1 sýnir þau ríki Evrópu sem aðild eiga að samtökum útgáfufyrirtækja upprunaábyrgða[vii] (AIB). Í árslok 2021 var 31 þátttakandi í AIB frá 27 Evrópuríkjum.[viii]

Í ársskýrslu AIB frá 2021[ix] eru ýmsar hnýsilegar upplýsingar, ekki hvað síst tölfræði, súlurit og kökurit. Þegar upprunaábyrgð er notuð er hún „niðurfelld“ [cancelled]. Niðurfellingunni er ætlað að vera sönnun þess að raforkan hafi verið framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Sé upprunaábyrgð ekki felld niður innan 12 mánaða frá lokum framleiðslutímabils, fellur hún sjálfkrafa niður.[x]

Í 3. mgr. 15. gr. tilskipunar 2009/28/EB segir: „Sérhver notkun upprunaábyrgðar skal fara fram innan 12 mánaða frá framleiðslu á samsvarandi orkueiningu. Upprunaábyrgð skal fella niður þegar hún hefur verið notuð.“[xi]

Þá segir í 4. mgr. 19. gr. tilskipunar 2018/2001/ESB: „Að því er varðar upplýsingagjöf sem um getur í 8. og 13. mgr. skulu aðildarríki tryggja að orkufyrirtæki felli niður upprunaábyrgðir í síðasta lagi sex mánuðum eftir að gildistími upprunaábyrgðar lýkur.“[xii]

Í nefndri ársskýrslu AIB frá 2021 kemur m.a. fram umfang upprunaábyrgða eftir ríkjum. Útgefnar upprunaábyrgðir gefnar út á Íslandi, sem hlutfall af heildarfjölda, voru 2% árið 2020 og 1% niðurfelldar það sama ár. Til samanburðar voru útgefnar upprunaábyrgðir 17% í Noregi árið 2020 og niðurfelldar 10%. Árið 2021 var hlutfall útgefinna upprunaábyrgða á Íslandi 2% en niðurfelldar 9%. Það sama ár voru hlutföllin í Noregi 19% og 11%.Mynd 2[xiii]

Mynd 2 sýnir fyrirkomulag upprunaábyrgða – útgáfu, viðskipti og niðurfellingu. Eins og sést á myndinni snýst málið um orkugjafann, hvernig orkan er framleidd. Upprunaábyrgðir eru gefnar út vegna framleiðslu með „grænum“ orkugjöfum. Þar vantar hins vegar fjölmargt inn í „jöfnuna“ og þar af leiðandi getur útkoman aldrei orðið rétt. Menn gefa sér að orka framleidd með vindrafstöðvum sé „græn orka“.

Ef hins vegar allt er tekið með í reikninginn, öll þau efni sem þarf til framleiðslu vindrafstöðva [og sum baneitruð, s.s. Epoxy í spöðum] auk steinsteypu í undirstöður [hátt kolefnisspor], vinnslu stáls í turninn [tower] auk mikilla landskemmda, og vegaframkvæmda, dofnar græna ímyndin verulega.

Í raun og veru þarf umtalsverða „kolefnisjöfnun“ eingöngu til þess að jafna út allt sem snýr að framleiðslunni sjálfri (á einni vindrafstöð) og því sem henni fylgir. Auðlindahagfræðingar geta sem best slegið á það máli hversu mörg tré þarf að gróðursetja til þess að kolefnisjafna framleiðslu og uppsetningu á einni vindrafstöð. Við allt þetta bætist síðan fremur skammur endingartími vindrafstöðva eða 20-25 ár að jafnaði.[xiv]

Hvernig tengjast upprunaábyrgðir skjalafalsi?

Í upphafi þessara skrifa er vísað til 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum. Lagagreinin inniheldur ekki skilgreiningu á „fölsuðu skjali“. Hún mælir hins vegar fyrir um refsingu sem liggur við því að nota falsað skjal í lögskiptum. Í 2. mgr. 155. gr. kemur og fram að sama refsing liggur við því að nota „...fölsuð gögn, sem geymd eru á tölvutæku formi, til að blekkja með þeim í lögskiptum.“[xv]

Að þessu sögðu er fyrsta skrefið að skilgreina sjálft hugtakið „fölsun“ [forgery]. Hafa þarf í huga að skilgreiningar lögfræðilegra hugtaka eru oft mismunandi eftir réttarkerfum [Common Law v. Civil Law]. Við það er m.a. fengist í samanburðarlögfræði.

Í huga flestra merkir fölsun eitthvað sem ekki kemur heim og saman við veruleikann en er látið líta út fyrir að svo sé. „Fölsun hefst með hugarástandi [mens rea]. Það er ekki glæpur að teikna upp frægt listaverk. Listaverk er hægt að afrita eða endurtaka án þess að nokkur glæpur sé framinn, fyrr en að einhver reynir að selja það eintak og birtir það sem frumrit.“[xvi] Fölsun tengist öðru hugtaki, „falskri framsetningu“ [false representation] sem er ósönn eða röng framsetning varðandi efnislega staðreynd sem er sett fram með vitneskju eða trú um ónákvæmni hennar.[xvii]

Sé þetta sett í samhengi við upprunaábyrgðir er ljóst að fólk sem kaupir rafmagn vottað sem „grænt rafmagn“ ætti að geta treyst því. Þannig er það þó ekki. Þegar upprunaábyrgðir ganga kaupum og sölum eru neytendur í raun berskjaldaðir og vita í mörgum tilvikum ekkert hvað þeir eru að kaupa. Sá sem framleiðir raforku með kolum og kaupir „græna vottun“ getur þar með selt rafmagnið sem „grænt“ – neytandinn, lokakaupandinn, er blekktur. Blekkingin er með fullri vitund og vitneskju (ásetningur) þess sem blekkir.

Kona sem fer út í búð og les innihaldslýsingu á ákveðinni vöru á að geta treyst því að lýsingin standist. Á það við um „grænt rafmagn“ sem framleitt er t.d. með kolum?

Maður að nafni Ole Marius Løfsnæs er fyrrum aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Samtökum iðnaðarins í Noregi. Árið 2017 birtist grein eftir hann á Euractiv. Í hana verður vitnað hér á eftir.

Því er m.a. haldið fram að þegar upprunaábyrgðir eru keyptar sé samsvarandi magn af endurnýjanlegri raforku framleitt annars staðar í Evrópu og að með því að kaupa upprunaábyrgðir séu menn að tryggja sér „græna“ raforku.

Í hagfræði [og hagfræði skarast víða við lögfræði] merkir fórnarkostnaður [opportunity costs] það sem þarf að fórna eða láta af hendi til þess að eignast eða njóta einhvers annars. Løfsnæs bendir á að upprunaábyrgðir skipti engu máli hvað snertir endurnýjanlega orkuframleiðslu. Slík framleiðsla hafi engan fórnarkostnað. Hún eigi sér stað þegar orkan er til staðar [t.d. sólskin].[xviii]

Samkvæmt skilgreiningu myndu gæði án fórnarkostnaðar“ t.d. vera andrúmsloft, vatn og sólskin, þar sem heildarframboð þeirra er umfram heildareftirspurn.[xix] Við þetta má þó gera athugasemd. Andrúmsloft, sérstaklega hreint andrúmsloft, er víða af skornum skammti. Sama gildir um vatn, sérstaklega hreint drykkjarvatn, og á Íslandi hefur sólskin verið mjög af skornum skammti í vetur! Skilgreiningar fara því ekki ævinlega saman við raunveruleikann, eins og áður hefur verið bent á í fyrri skrifum [sýnd og reynd].

Það eru engin tengsl á milli hins eðlisfræðilega rafmagns sem flæðir um línur, kapla og innanhússlagnir, og upprunaábyrgða. Orkuveita sem býður upp á 100% endurnýjanlega raforku getur einfaldlega keypt upprunaábyrgð á markaði til að sanna það, en raunveruleg raforka sem afhent er mun samt sem áður koma frá virkjunum í landinu þar sem neytandinn býr. Ef þessi orkuver ganga fyrir kolum mun neytandinn enda með kolaorku, með eða án „grænnar vottunar“.[xx]

Þótt Ísland hafi enga raforkunettengingu við meginland Evrópu, er samt hægt að kaupa íslenskar upprunaábyrgðir í Þýskalandi, Hollandi, Austurríki o.s.frv. Vonandi eru engir neytendur á meginlandinu þeirrar skoðunar að þeir noti raunverulega íslenska orku.

Upprunaábyrgðir eru gefnar út til alls kyns endurnýjanlegrar orkuframleiðslu, bæði „gamallar“ og „nýrrar“ og erfitt er fyrir notendur að greina þar á milli. Þar sem flestar upprunaábyrgðir koma frá gömlum endurnýjanlegum orkuverum, greiða notendur megnið af peningunum sínum til orkuvera sem hafa verið starfrækt árum saman.

Ef til vill er þó stærsta vandamálið grænþvottur: Upprunaábyrgðir eru tiltölulega ódýr tæki sem gera kleift að dulbúa orku frá jarðefnaeldsneyti sem „græna“. Aftur á móti er raunveruleg „græn orka“ dulbúin sem jarðefnaeldsneyti. Þetta merkir að notendur (neytendur) sem raunverulega nota endurnýjanlega raforku, virðast, á pappírnum, stuðla að meiri losun en neytendur sem nota rafmagn framleitt með jarðefnaeldsneyti.[xxi] Einhvern tímann hefði það verið kallað fölsun eða skjalafals.

Í stuttu máli eru upprunaábyrgðir flóknir gerningar, ranglega birtir neytendum, og hægja á umskiptum í átt að fullkomlega endurnýjanlegri orku í Evrópu. Það er því vaxandi viðurkenning á því að fyrirkomulag upprunaábyrgða þarfnist endurskoðunar.[xxii]

Að lokum

Gullgerðarlist (alkemía) var iðkuð öldum saman eða frá ca 1300-1600 en hápunkti náði hún á 16. og 17. öld. „Alkemistar“ töldu að til væru 7 grunnmálmar [sbr. Aristóteles] og vildu læra hvernig þeim mætti breyta í gull.[xxiii]

Nú á tímum er „gullgerðarlist“ í hávegum höfð en þó með breyttu sniði eins og hæfir breyttri samfélagsgerð. Áður fyrr voru gjaldmiðlar oft á gullfæti sem tryggði verðgildi viðkomandi gjaldmiðils, þar sem útgefnir seðlar í umferð þurftu að eiga sér samsvörun í gulli. [Árið 1958 kom Bretton Woods-samkomulagið, frá 1944, að fullu til framkvæmda og ákveðið að binda gengi Bandaríkjadollars við 35 dollara á únsu af gulli[xxiv]].

Í dag er allt „fljótandi“. Vísun í raunveruleg verðmæti skiptir oft litlu sem engu máli. „Pappírar“ eru megin viðfangsefnið og „trúin“ á pappírana. Þar má nefna afleiðusamninga, margs konar „vafninga“ og gerninga sem bandaríski lögfræðingurinn og hagfræðingurinn Dr. William K. Black nefnir „eiturúrgang“ [„Toxic waste“].

Upprunaábyrgðir sverja sig í ætt við nefnda gerninga. „Gullgerðarlistin“ þar er sú að forða fólki frá „heimsendi“ með útgáfu „grænna skírteina“ sem aftur ganga kaupum og sölum. Hugmyndin að baki felst í því að heimurinn sé við það að farast en fresta megi endalokunum með „grænni“ orkuframleiðslu. Sá sem kaupir upprunaábyrgð er í þeim skilningi fjær „heimsendi“ en hinn sem ekki kaupir.

Ef það verður útbreidd trú að hægt sé að kaupa sig frá heimsendi, hvetur það að sama skapi til líflegra viðskipta með upprunaábyrgðir. Sumir hafa réttilega líkt upprunaábyrgðum við aflátsbréf kaþólsku kirkjunnar.

Þetta kerfi, til að draga úr synd og refsingu, virkaði vel til að koma starfi kirkjunnar í framkvæmd, en síðan fór það, í augum margra umbótasinna, afskaplega halloka. Fólk sem fór ekki, eða gat ekki farið, í krossferðir tók að velta því fyrir sér hvort einhver önnur aðferð gæti gert þeim kleift að vinna sér inn aflátin [losna við syndina]. Mögulega eitthvað fjárhagslegt?

Síðan var hægt að „kaupa“ aflátin, hvort sem boðið var framlag til góðgerðarmála eða reistar byggingar til að lofa kirkjuna og farnar allar aðrar leiðir þar sem nota mátti peninga. Þetta kerfi hafði að formi til verið við lýði frá því seint á 11. öld. Þegar komið var fram á 14. öld var það orðið svo áhrfiaríkt að bæði stjórnvöld og kirkjan voru farin að taka til eigin nota hluta af þeim fjármunum sem þannig öfluðust. Kvartanir um sölu fyrirgefningar breiddust út. Auðugur maður gæti jafnvel keypt aflát fyrir forfeður sína, ættingja og vini sem þegar voru látnir.[xxv]

Segir þetta ekki sannleikann á bakvið upprunaábyrgðirnar í nútímanum? Eru þær ekki aðferð til þess að „búa til“ peninga úr engu sem aftur byggist á „trú“?

Góðar stundir!

 

[i] Almenn hegningarlög nr. 19/1940 með síðari breytingum. https://www.althingi.is/lagas/nuna/1940019.html

[ii] Sjá: European Commisson. Clean energy for all Europeans package. https://energy.ec.europa.eu/topics/energy-strategy/clean-energy-all-europeans-package_en

[iii] Guarantee of origin system. (2023). Track My Electricity. https://www.trackmyelectricity.com/learn-more/certificate-system/

[iv] Ibid.

[v] Guarantees of Origin. (2022). Nvalue - environmental energy. https://www.nvalue.ch/renewable-energy-consumption/guarantees-of-origin-renewable-electricity/

[vi] AIB Member Countries/Regions. (2023). https://www.aib-net.org/facts/aib-member-countries-regions

[vii] Ibid.

[viii] Ársskýrsla AIB, 2021. https://www.aib-net.org/sites/default/files/assets/news-events/annual-reports/AIB-2022-CPAU-Annual%20Report_2021_Sept_v2.pdf

[ix] Ibid.

[x] FINGRID. https://www.fingrid.fi/en/

[xi] DIRECTIVE 2009/28/EC OF THE EUROPEAN PARLIAMENT AND OF THE COUNCIL of 23 April 2009 on the promotion of the use of energy from renewable sources and amending and subsequently repealing Directives 2001/77/EC and 2003/30/EC [2009] OJ 2 140/16

[xii] Directive (EU) 2018/2001 of the European Parliament and of the Council of 11 December 2018 on the promotion of the use of energy from renewable sources (recast) (Text with EEA relevance) [2018] OJ 2 328/82

[xiii] Switten, L. (2020). Guarantees of origin for the Energy Community: how to move forward. AIB. https://www.energy-community.org

[xiv] Sjá t.d.: How Long do Wind Turbines Last? Can their Lifetime be Extended? TWI. https://www.twi-global.com/technical-knowledge/faqs/how-long-do-wind-turbines-last

[xv] Svartletrun mín.

[xvi] FindLaw. (2023). Forgery. Thomson Reuters. https://www.findlaw.com/criminal/criminal-charges/forgery.html

[xvii] Sjá t.d.: False Representation Law and Legal Definition. USLegal. https://definitions.uslegal.com/f/false-representation/

[xviii] Lofsnaes, O. (2017). Guarantees of origin for renewable power set for (overdue) scrutiny. Euractiv. https://www.euractiv.com/section/energy/opinion/guarantees-of-origin-for-renewable-power-set-for-overdue-scrutiny/

[xix] Sjá t.d.: Measurement of Opportunity Cost. Economicsdiscussion.net. https://www.economicsdiscussion.net/cost/opportunity-cost/measurement-of-opportunity-cost/25125

[xx] Lofsnaes, op. cit

[xxi] Lofsnaes, op. cit

[xxii] Lofsnaes, op. cit

[xxiii] Sjá t.d.: Age of Alchemy. Google Arts & Culture. https://artsandculture.google.com/story/0QIyP7XkB-WZLA

[xxiv] Sjá t.d.: Ghizoni, S. K. (2013). Creation of the Bretton Woods System. Federal Reserve History. https://www.federalreservehistory.org/essays/bretton-woods-created

[xxv] Wilde, R. (2020). Indulgences and their Role in the Reformation. ThoughtCo. https://www.thoughtco.com/indulgences-their-role-in-the-reformation-1221776