GEFUM ORÐUM FORSETA ÍSLANDS GAUM
(Myndina tók Golli fyrir Heimildina)
Óhugnanlegar fréttir hafa borist af ofbeldisárásum á kennara í skólum. Augljóslega þarf að grípa í taumana starfsfólki og börnum sem fyrir ofbeldinu verða til varnar og ofbeldisfullum unglingum til hjálpar. Þar má ekkert spara til. Unglingar sem ráðast á samnemendur eða kennara sína með vopni eða hnúum munu ekki láta staðar numið að lokinni skólagöngu án inngrips af einhverju tagi.
Svo er að skilja á fréttum að forsvarsmenn kennara vilji aukna gæslu og jafnvel vopnaleit við skóla. Í mínum huga yrði það hin fullkomna uppgjöf auk þess sem þarna yrði fetuð slóð sem ofbeldissamfélög hafa víðast hvar farið. Tekið er á afleiðingum vandans, ekki orsökum hans.
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, lét til sín taka í umræðu um alvarlegt ofbeldi í kjölfar þess að ung skólastúlka var myrt á menningarnótt í Reykjavík. Hún segir frá þessu í nýlegu viðtali við Heimildina. Grípum niður í frásögn forsetans:
„Ég var búin að vera forseti í þrjár vikur þegar það átti sér stað hræðilegur atburður á menningarnótt í Reykjavík, þar sem barn beitti hnífi og barn varð fyrir hnífnum. Árásin leiddi til dauða stúlkunnar,“ Bryndísar Klöru Birgisdóttur. „Þegar þetta gerðist hugsaði ég með mér hvað foreldrar hennar væru hugrakkir, því faðir hennar sagði strax að þetta skelfilega atvik mætti ekki verða til þess að ofbeldi aukist í okkar samfélagi, heldur verði það að verða til þess að eitthvað breytist. Ég velti fyrir mér hvað forseti gerir þegar svona gerist og hvað forseti getur gert.“
Halla setti sig í samband við foreldra Bryndísar Klöru. Hún reyndi einnig að afla upplýsinga um aðstæður drengsins sem hélt á hnífnum þetta örlagaríka kvöld og varð valdur að dauða hennar. „Ég komst að því að það var mikil áfallasaga þar að baki, mikil sorgarsaga. Í framhaldinu ákvað ég að bjóða um þrjátíu manns í borðstofuna á Bessastöðum, annars vegar fólki sem vinnur með málefni og stöðu ungs fólks og hins vegar ungu fólki, meðal annars vinum Bryndísar Klöru og öðru ungu fólki sem var mjög slegið yfir fráfalli hennar.“ ...
Á þessum tíma var verið að tala fyrir málmleitartækjum í grunnskólum vegna vopnaburðar ungmenna og uppi voru hugmyndir um hörð viðbrögð. Við sem þarna vorum vildum hins vegar mæta þessari hörku með meiri mýkt og mildi, kærleika og umhyggju og reyna að skilja af hverju svona atburðir gerast. Af hverju hefur orðið fjölgun á meðal ungs fólks sem gengur um með hnífa, af hverju líður því eins og það þurfi að vera tilbúið til að verjast og hvað er eiginlega að gerast í samfélaginu?“
Í kjölfarið fóru fram kærleikshringir í nokkrum framhaldsskólum, meðal annars í Fjölbrautaskólanum í Ármúla. „Þar voru strákar sem voru viðstaddir þessa afdrifaríku nótt,“ segir Halla. „Vinir drengsins komu í kærleikshring og þurftu á faðmlagi að halda. Þeir áttu mjög erfitt.“
Annar kærleikshringur fór fram í Verslunarskóla Íslands með vinum Bryndísar Klöru. „Foreldrar hennar, kennarar og ungt fólk sat saman að ræða hvernig hægt er að mæta breyttum aðstæðum í samfélaginu með kærleika. Hvernig tökum við utan um, ekki bara alla sem syrgja Bryndísi Klöru, heldur einnig alla sem standa þessum unga dreng nærri? Það var flókið samtal og það var mikið grátið.“
Halla Tómasdóttir forseti Íslands er hér að láta gott af sér leiða. Fyrir það á hún þakkir skilið. Bara það eitt að opna á þessa nálgun er þakkarvert.
Eftirmáli
Ég heimsótti skrifstofur Alþingis nýlega. Inn í húsið komst ég ekki fyrr en leitað hafði verið á mér til þess að ganga úr skugga um að ég bæri ekki vopn til að vinna starfsfólki Alþingis eða þingmönnum mein. Ég mótmælti þessu en var sagt að svona væri þjóðfélagið orðið og þetta væru „allir að gera“ og var þar verið að vísa til erlendra þjóðþinga. Mikið rétt, ég kannst við það erlends frá að þjóðþingum og almennum skrifstofum hafi verið breytt í eins konar varnarvirki.
Þegar ég varð dómsmálaráðherra haustið 2010 heimsótti ég stofnanir sem undir ráðuneytið heyrðu. Ég kom í Útlendingastofnun. Leiðsögumaður sagði mér að í dyraumbúnaðinum á milli móttöku og skrifstofugangs væri aðeins venjulegt gler og hurðin öll ósköp venjuleg hurð en ekki rammger eins og eðlilegt væri. Þetta yrði að laga. „Hversu oft hefur á þetta reynt, spurði ég þá. Eftir nokkra þögn kom svarið: „Aldrei.“
Það á ekki að breyta samfélaginu í fangelsi. Stofnanir eiga að taka vel á móti fólki ekki sem gestum sem hljóti að hafa illt í huga.
Þegar „leiðtogafundur“ Evrópuráðsins var haldinn hér á landi vorið 2023 keyrði um þverbak að þessu leyti. Íslenskir lögreglumenn sváfu á hótelum í miðborginni vopnaðir og með gasgrímur til að vera við öllu búnir. Ekki þótti þó nóg að gert því fluttir voru inn lögreglumenn frá Norðurlöndunum til að taka þátt í vörninni gegn ógninni sem enginn vissi hver var, enda hugarburður í bland við mikilmennskubrjálæði sem gripið hafði mannskapinn. Einhverjir norrænu ráðherranna munu hafa viljað brynvarða bíla. Undan flestum kröfum var látið: „Allir aðrir væru að gera það.“
Allt var þetta einn allsherjar farsi. En verra er að þessi nálgun byggir á þeim skilningi að ofbeldi í þjóðfélaginu skuli mætt að hætti broddgaltarins.
Þar erum við aftur komin að vaxandi ofbeldi í skólum. Það er grafalvarlegt mál sem krefst aðgerða. Það er deginum ljósara. Finna þarf unglingana hið snarasta og taka utan um þá og aðstæður þeirra af skilningi en mikilli festu. Ekki ætla ég að draga úr því. En nálgunin þarf að byggja á mannskilningi og vinsemd. Hefnigirni og valdbeiting læknar ekkert nema síður sé. Þar leiðir eitt af öðru í stigmögnun vandans sem á endanum verður óviðráðnlegur.
Aðferð Höllu Tómasdóttur er vænlegri til árangurs auk þess sem hún býr til eftirsóknarverðara samfélag að búa í.
------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/
(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.
To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)