Fara í efni

Fráleitt að afgreiða fjölmiðlafrumvarp í vor!

Komið hefur á daginn að tillaga VG um úttekt á fjölmiðlaheiminum, eignatengslum og yfirráðum, hefur reynst mjög þarfleg. Umræðan í þjóðfélaginu um völd og áhrif í þjóðlífinu blómstrar – og nú hefur það gerst í ríkari mæli en áður að hægri menn segja hug sinn í þessum efnum. Lýsa þeir miklum áhyggjum yfir því hvernig nokkrir auðmenn hafi náð heljartökum á öllu samfélaginu. Öðru vísi mér áður brá.

Tvö blöð í boði

Þannig er mínum aðstæðum háttað að ég er í flugvél á leið til landsins þegar þessar línur eru slegnar inn á tölvu. Ég hef ekki getað fylgst með umræðu síðustu daga nema úr fjarlægð en les nú af áhuga, nánast áfergju, íslensku blöðin í flugvélinni. Þau eru tvö, Morgunblaðið og Viðskiptablaðið. Hér er því miður ekki Fréttablaðið og ekki DV. Ekki veit ég hvað veldur því að Fréttablaðið er sjaldan á boðstólum í vélum Flugleiða (eða heitir það kannski bara Icelandair, upp á ensku núna?) Umræðan í Morgunblaðinu er mjög góð.

Ágætur leiðari Mogga

Í dag er ágætur leiðari, þar sem inntakið er að eignarhaldið á fjölmiðli sé það sem endanlega skipti sköpum. Ritstjóri New York Times hafi verið rekinn, svolítil umræða hafi orðið, síðan ekki söguna meir. Allir hafi gert sér grein fyrir hver réð. Hvers vegna skyldu vopnaframleiðendur vilja eiga fjölmiðla, spyr leiðarahöfundur, jú vegna þess að þeir vita að fjölmiðill getur haft áhrif á afstöðu stjórnvalda;  almenningsálit skipti valdhafa máli og þar geti fjölmiðill gegnt mikilvægu hlutverki. Ef hergagnaframleiðandi vildi eignast New York Times yrði uppi fótur og fit á Bandaríkjaþingi, segir leiðarahöfundur Morgunblaðsins. Þetta minnir mig á nýlegt viðtal sem ég las við ritstjóra hins vinstri sinnaða breska vikurits, New Statesman. Hann hafði gagnrýnt þarlenda ríkisstjórn og forsætisráðherrann Tony Blair sérstaklega, og sagt að hann ætti að víkja. Ritstjórinn var spurður hvort hann teldi að þessi skrif myndu hafa afleiðingar fyrir hann sjálfan. "Að jafnaði virða  eigendur ritstjórnarlegt sjálfstæði okkar," svaraði hann, "en vissulega er það svo að á endanum er það eigandinn sem ræður." Þannig að þarna var á ferðinni svipað sjónarmið og hjá leiðarahöfundi Morgunblaðsins: Eignarhald skiptir máli. Vissulega eigum við að láta okkur skipta máli hvernig eignarhaldi á fjölmiðlum er háttað. Hvernig á að taka á slíku er hins vegar mjög vandmeðfarið og krefst bæði umræðu og yfirlegu.

RÚV á að vera í senn kjölfesta og mótvægi

Mín skoðun hefur afdráttarlaust verið sú að til að tryggja fjölbreytni og koma í veg fyrir einokun sé heppilegast að horfa fyrst og fremst til Ríkisútvarpsins. Það er fjölmiðill í eigu þjóðarinnar með eins dreifða eignaraðild og hugsast getur. RÚV hefur staðið sig vel sem menningarmiðill og átt góða spretti á ýmsum sviðum. Það þarf hins vegar að efla stofnunina og gera hana að öflugri og gagnrýnni frétta- og upplýsingamiðli. Þar á hún langt í land.  Að mínum dómi er hins vegar í Ríkisútvarpinu að finna kjölfestuna og mótvægi við fjölmiðla í einkaeign. Varðandi eignarhald á öðrum fjölmiðlum tel ég rétt að feta sig varlega áfram. Fyrsta skrefið að mínu mati væri einfaldlega að tryggja, að allt sé uppi á yfirborðinu varðandi eignarhaldið. Í þessu einu felst mikið aðhald.

Fleira en eignarhald skiptir máli

En önnur atriði koma hér einnig til álita og geta skipt miklu máli um sjálfstæði fjölmiðils og vönduð vinnubrögð, jafnvel ekki síður en eignarhaldið. Þannig er það áhrifavaldur í þessu samhengi að fjölmiðlar búi við fjárhagslegt öryggi. Góð og vönduð fjölmiðlun kostar peninga - mikla peninga. Stór og öflugur fjölmiðill sem gerir það gott rekur kröftuga fréttastofu með hæfu fólki og býr þar af leiðandi við innra sjálfstraust, er líklegri til að vera sjálfstæðari í vinnubrögðum en fjölmiðill sem berst í bökkum með fólk í brúnni sem er stöðugt uggandi um framtíð sína.
Í okkar litla samfélagi skiptir því sköpum að skapa fjölmiðlum góðan fjárhagslegan grundvöll.
Þetta þarf að hafa í huga í þessari umræðu.

Hvað ætlar ríkisstjórnin sér með Ríkisútvarpið

Einn rökvísasti málsvari Sjálfstæðisflokksins og frjálshyggjunnar, Þorsteinn Siglaugsson, skrifar grein í Morgunblaðið í dag. Hann varar við fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Hann spyr: "Gæti kannski verið að meginhindrunin fyrir fjölda einkarekinna fjölmiðlafyrirtækja sé staða Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði?" Það er nefnilega það. Gæti verið að einmitt þetta sé í vændum, að svipta Ríkisútvarpið auglýsingatekjum. Skerðing auglýsingatekna, án hækkunar afnotagjalda eða framlaga á fjárlögum, sem hvorugt er fyrirsjáanlegt, myndi veikja stórlega fjárhagslegan grundvöll RÚV. Jónína Bjartmarz, einn helsti talsmaður Framsóknarflokksins, mun hafa sagt í þingræðu, samkvæmt frásögn Morgunblaðsins, að nú stæði til að rýra auglýsingatekjur RÚV. Og hvað þýða yfirlýsingar þeirra félaga Halldórs og Davíðs að afleggja beri afnotagjöld? Á að færa RÚV inn á fjárlög? Hafa sama fyrirkomulag og Landspítali -háskólasjúkrahús býr við?

Ýmsum spurningum ósvarað

Nei, Davíð Oddsson, það á eftir að svara ýmsum spurningum áður en þetta frumvarp þitt verður afgreitt og vísa ég í lok þessara hugleiðinga minna inn á slóð pistils, sem ég skrifaði um þessi mál í byrjun febrúar. Þar lýsti ég þeirri skoðun, að ég liti svo á, að forsenda þess að tryggja fjölbreytni og lýðræði, hið frjálsa orð, í heimi fjölmiðlunar, væri öflugt Ríkisútvarp í eigu og með aðhaldi frá almenningi (sem mætti vera miklu meira). Nú sýnist mér á öllu að til standi að skerða tekjustofna Ríkisútvarpsins stórlega og veikja þá stofnun á alla lund. Eða hvað? Ég vil fá rækilega umræðu um nákvæmlega þetta áður en gengið er til afgreiðslu á fjölmiðlafrumvarpinu.
Og meðal annarra orða; gengur þetta ekki allt út á lýðræðið, að tryggja lýðræðislega umræðu? Væri ekki við hæfi að tryggja frumvarpi, sem sagt er sett fram með þetta að leiðarljósi, lýðræðislega umfjöllun? Þar tek ég undir með fyrrum kollega mínum í fréttamannastétt, Stefáni Jóni Hafstein, í Morgunblaðinu í dag og ályktun Blaðamannafélags Íslands. Félagið tekur ekki endanlega afstöðu til frumvarpsins en leggst gegn hraðsuðuafgreiðslu.

Til marks um misbeitingu valds

Það geri ég líka. Það væri til marks um grófa misbeitingu valds að knýja fram afgreiðslu þessa þingmáls fyrir þinglok í vor. Það er hins vegar ástæða til að hafa af því áhyggjur að sú gæti orðið niðurstaðan. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins láta það óþægilega oft viðgangast að vera settir í aumkunarvert hlutverk, svipað því sem er hlutskipti fulltrúa á málamyndaþingum í einræðisríkjum: Að hlýða foringjanum skilyrðislaust. Við slíkar aðstæður eru menn ekki pólitískir skákmenn, heldur taflmenn. Þeir tefla ekki. Það er teflt með þeim. Og Framsókn, já vesalings Framsókn. Hér á síðunni skrifaði Ólína fyrir fáeinum dögum í lesendabréfi að kletturinn í hafinu, sem Framsókn þættist jafnan vera fyrir kosningar, væri þegar allt kæmi til alls ekkert annað en sandhrúga sem læki niður alltaf þegar á reyndi. Þess vegna gæti það vel gerst að frumvarp sem verðskuldar mikla umræðu verði þröngvað með hraði í gegnum þingið. Að sjálfsögðu verður reynt að afstýra slíkum vinnubrögðum.
Hér er pistill minn frá í febrúar, sem ég vísa til hér að ofan.