Fara í efni

Fjölmiðlar verða að vera stöndugir

Um helgina var tilkynnt um umtalsverðan samruna á fjölmiðlamarkaði. Undir regnhlíf Norðurljósa sameinast Frétt, útgáfufélag Fréttablaðsins og DV og Íslenska útvarpsfélagið, sem rekur Stöð 2, Bylgjuna, Sýn og fl. sjónvarps- og útvarpsstöðvar. Í þessu púkki er einnig Skífan. Fram hefur komið í fréttum að áætluð velta Norðurljósa mun nema 10 milljörðum, þannig að hér um að ræða stórt fyrirtæki, með mikla veltu og mikinn fjölda starfsmanna.
Þarna eru mikilvægir fjölmiðlar að sameinast og að því leyti sem þetta kemur til með að styrkja rekstur þeirra er þessi breyting jákvæð og til góðs. Það er óhemju dýrt að reka góða vandaða fjölmiðla og það er mikilvægt að fjölmiðlar hafi mjög styrkar fjárhagslegar stoðir svo þeir geti framleitt gæðaefni. Nú er okkur sagt að rekstri þessara fyrirtækja verði haldið aðgreindum þannig að óljóst er að hvaða marki samruninn kemur til með að styrkja fjölmiðlana, að öðru leyti en því að "eigandinn" og þar með bakhjarlinn kann að styrkja sína stöðu. Vafalítið styrkir þetta þó fjölmiðlana óbeint.
Varðandi eignarhaldið þá eru um 60% í hinu nýja eignarhaldsfélagi tengd Baugi og Feng, aðilum sem eru orðnir firnasterkir og áhrifamiklir í íslensku atvinnulífi.Og það er ekkert séð fyrir endann á samþjöppunarferlinu þar. Það er ekki hægt að gefa sér að Morgunblaðið sé eilíft og ef nú svo færi að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi og markaðsvætt þá er sá möguleiki raunverulegur að eignarhald yfir öllum fjölmiðlum í landinu yrði á sömu höndum. Það væri mjög varhugaverð þróun og lýðræðinu beinlínis hættuleg. Í ljósi þessa hefur verið lagt til á Alþingi, að frumkvæði VG, að fjölmiðlar og eignarhald verði skoðað af hálfu löggjafans. Mikilvægt er að sú athugun fari fram.
Ég hef trú á því að afstaða margra komi til með að ráðast af örlögum Ríkisútvarpsins. Ég er þeirrar skoðunar að besta leiðin til að tryggja eðlilega þróun fjölmiðlunar í landinu sé að treysta í sessi öflugt og kraftmikið Ríkisútvarp í eigu þjóðarinnar, sem kjölfestu á þessu sviði og fagna síðan þegar öðrum fjölmiðlum auðnast að bæta fjárhagsgrundvöll sinn.
Með  því að vísa algerlega á bug öllum hugmyndum um  markaðsvæðingu Ríkisútvarpsins og með því styrkja og efla þá stofnun muni okkur takast að móta farveg fyrir framtíðarþróun sem sátt gæti skapast um.