ERU HÍ OG ÍSÍ sátt við að vera í ruslflokki?
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 08/09.11.25.
Það er dapurlegt til þess að hugsa að æðsta menntastofnun þjóðarinnar, sjálfur Háskóli Íslands, skuli hafa staðsett sig í ruslflokki og að þangað stefni nú einnig íþróttahreyfingin í landinu. Og svo haldið sé áfram að ganga fram af fólki, vil ég bæta því við að fyrir í ruslflokki eru Rauði kross Íslands og Slysavarnafélagið Landsbjörg, félögin sem segjast eiga sér það markmið að bjarga fólki úr lífsháska.
En hvað annað er hægt að segja um stofnanir og samtök sem nærast á ógæfu fólks? Nú sameinast þau um að útiloka erlendar fjárhættuspilasíður á netinu, en vel að merkja til þess eins að fá sjálf þann feita bita sem netspilun er orðin, uggandi um að spilakassarnir sem þau reka í sjoppum og spilavítum muni fara hallloka í samkeppni við netið.
Það eru engar smá upphæðir sem barist er um þótt stóru summurnar komi frá fámennum hópi. Fjölmiðlar eiga þakkir skilið fyrir að birta viðtöl við aðstandendur einstaklinga sem hafa svipt sig lífi, sumir hverjir eftir að hafa tapað afrakstrinum af lífsstarfi sinu í fjárhættuspilum sem Háskóli Íslands, Rauði kross Íslands og Slysavarnafélagið Landsbjörg reka. Til skamms tíma var SÁÁ einnig í þessum hópi en sagði sig góðu heilli frá rekstrinum fyrir fáeinum misserum. Fékk þó áfram styrk frá rekstraraðilum spilakassanna sem ætlaður var til þess að hlynna að fórnarlömbum þeirra. Til þessa stuðnings sem kominn er upp úr vösum þeirra sem níðst er á hefur verið vísað til sem „sjálfsaflafjár“ SÁÁ. Vissulega er veitt aðstoð góðra gjalda verð en hún þarf þá að vera annað og meira en til þess eins að sýnast.
Þegar ég fylgdist með viðtali við foreldra og systur sem nýlega sáu á eftir syni og bróður sem tapað hafði tugum milljóna í fjárhættuspilum kom upp í hugann maður sem bankaði upp á hjá mér fyrir allmörgum árum. Þessi maður hafði stundað atvinnurekstur, átti vörubíla, skurðgröfur og krana. Bjó í einbýlishúsi og hafði allt til alls eftir langa vinnusama ævi.
Einn daginn vaknar hann upp við þann vonda draum að allt er horfið. Eiginkonan hafði séð um bókhaldið en það sem hann ekki vissi var að hún hafði ánetjast spilafíkn. Í hennar tilviki hafði það verið Rauði kross Íslands sem át upp ævistarf þeirra hjóna. Aldrei heyrði ég þennan mann hallmæla konu sinni, vissi sem var að hún var ekki sjálfráð gerða sinna. En þungorður var hann í garð Rauða krossins og spurði og staðhæfði í senn: Einhvers staðar liggur réttur minn!
Sá réttur hefur enn ekki fundist. Og stjórnvöldin sem eru ábyrg fyrir landslögunum aðhafast það eitt að ræða hvað megi til bragðs taka til að veita hinum særðu náðarhjálp. Ekki orð um að taka fyrir þessa meinsemd frekar en að stöðva linnulausan auglýsingaáróður ólöglegra sprúttsala á netinu sem auk þess eru farnir að opna ólöglegar verslanir með áfengið. Markhópurinn er æskan. Ráðherrar lyfta ekki litla fingri henni til varnar en er ofboðið ef grunur læðist að þeim um að samkeppnislög séu brotin í landbúnaði eða póstdreifingu.
En hvað skal segja um íþróttahreyfingu sem vill opna á fjárhættuspil á netinu til að græða á, vel vitandi um skaðsemina. Fréttir um hana berast hvaðanæva að. Nú síðast var grein í New York Times sem fjallaði um það hvernig spiladjöfullinn væri búinn að hertaka íþróttafélög í þeim stóra bæ. Og nú er hann sem sagt búinn að banka upp á hjá okkur. En ekki er sagan þar með öll sögð því nú er íþróttahreyfingin okkar íslenska einnig komin með glýju í augum yfir þeim hagnaði sem hægt sé að hafa af áfengissölu á íþróttaviðburðum.
Í vikunni hlustaði ég á fræðimenn við Háskóla Íslands lýsa áhyggjum sínum yfir því hvert stefndi í áfengisneyslu ungmenna og var hvort tveggja nefnt í því sambandi, auglýsingaágengni ólöglegra vínsala og að áfengisneysla væri talin eðlileg og sjálfsögð meðal annars af hálfu íþróttahreyfingarinnar.
Og þá aftur að ruslflokkun. Þær stofnanir og samtök sem ég nefndi að væru i ruslflokki eiga að sjálfsögðu alls ekki heima þar, enda allt stofnanir og samtök sem við viljum geta borið virðingu fyrir og langar til að styðja til gæðaverka.
Hvernig væri að öll tækjum við höndum saman og hjálpuðum þeim að komast í þá úrvalsdeild sem þau að sjálfsögðu ættu að eiga heima í?
---------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/
(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.
To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)