EPLI OG APPELSÍNUR, TÚNFISKUR OG ÞORSKUR
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 16/17.08.25.
Við þessa upptalningu í titlinum má bæta alþjóðasamvinnu. Alþjóðasamvinna á einu sviði er ekki endilega sambærileg við alla samvinnu þjóða í milli frekar en að epli sé samanburðarhæft við appelsínu að öðru leyti en því að bæði appelsínan og eplið eru ávextir.
Sú hætta er alltaf fyrir hendi að menn gerist alhæfingagjarnari en innistæða er fyrir. Þannig er til dæmis varla hægt að alhæfa um EES samninginn og tala um hann sem fasta stærð. Hann hefur þróast og er ekki á allan hátt lengur samanburðarhæfur við þann samning sem gengið var frá árið 1993 að innihaldi og allri félagslegri umgjörð.
Um margt má greina sambærilega þróun í regluverki Evrópusambandsins annars vegar og hins vegar í alþjóðakerfinu sem skóp Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann eftir lok seinna stríðs og setti af stað ferli sem miðaði að greiðari viðskiptum yfir landamæri. Það fyrirkomulag átti samsvörun í Evrópubandalaginu eins og það hét á fyrri stigum og í Fríverslunarsamtökunum EFTA.
Með tilkomu Mastricht sáttmálans árið 1992 breyttist grunnur Evrópusamstarfsins eins og átti eftir að koma í ljós á komandi árum og áratugum. Sama má segja um alþjóðakerfið, en um sama leyti var Alþjóðaviðskiptastofnunin, WTO, sett á laggirnar, en þeirri stofnun var ætlað að starfa við hlið Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á heimsvísu. Í stað þess að horfa fyrst og fremst til þess að gera viðskipti yfir landamæri greiðari með lækkun eða afnámi tolla var nú farið að reisa kröfur á samfélögin inn á við. Nú skyldi þeim gert að markaðsvæða sig inn að beini.
Þetta þekki ég vel af eigin raun úr starfi innan evrópsku verkalýðshreyfingarinnar sem beitti sér mjög gegn markaðsvæðingu velferðarinnviða svo og vatnsins og raforkunnar. Einhverjum árangri náði verkalýðshreyfingin en markaðsöflin höfðu engu að síður betur. Á heimsvísu spratt upp hreyfing gegn sambærilegum áformum sem til stóð að innleiða á vegum WTO undir heitinu GATS, General Agreement on Trade in Services, það er frjáls viðskipti með þjónustu, en markmiðið var að setja opinbera þjónustu þar undir.
Þegar upp úr sauð á milli norðurs og suðurs og GATS steytti á skeri var farið í leynilega samninga undir skammstöfunum sem fæstir kunna skil á, TiSA, TTIP, CETA og svo framvegis. Vinstri menn mótmæltu vitaskuld þessari þróun, en viti menn, andmæli tóku einnig að berast frá hægri; frá þeim sem vildu sem mesta samkeppni á markaði en sáu sem var að óheft markaðsvæðing heimsins væri í síauknum mæli á forsendum og í þágu einokunarrisa. Nákvæmlega þetta er að renna upp fyrir Íslendingum sem sjá drykkjarvatnið færast í hendur fjárgróðamanna, ferðaþjónustuna í hendur alþjóðlegra fjárfesta sem einnig eru farnir að rækta hér tré í ábataskyni í samræmi við grænan kapítalisma sem er einhver lævísasta uppfinning samtímans.
En hver á að ráða, handhafar fjármagnsins eða almenningur? Slagurinn stendur um lýðræðið. Í því samhengi ber að skilja kröfur um fullveldi, þær snúast um það að samfélagið afsali sér ekki rétti til að taka ákvarðanir þvert á það sem markaðurinn mælir fyrir um. Það sem sumir kalla þjóðernisrök og gefa ekki háa einkunn kalla ég lýðræðisrök.
Heimurinn er nú allur á hreyfingu og mikilvægt er að halda vöku sinni. Þróun á forsendum fjármagns má ekki verða endastöð og mikilvægt er að almenningur láti ekki glepjast og fari að trúa á einhvers konar nauðhyggju þar sem mannlegur máttur og vilji fái engu um þokað.
Þessa dagana syngur ríkisstjórn Íslands þjóðinni vögguljóð á meðan hún tekur upp þráðinn um Evrópusamrunann. Fyrr í sumar skuldbatt hún Íslendinga til þess að samsama sig utanríkisstefnu ESB, sem nú er stýrt af lítilli visku, síðan kom næsti biti, að færa okkur feti nær því að gangast undir vald Brussel um stjórnun fiskveiða.
Og nú aftur að fyrirsögninni. Því hefur verið haldið fram að í viðræðum Íslendinga við Evrópusambandið megi fá alls kyns undanþágur, „sjáið til dæmis“, heyrist sagt, „hverju Malta fékk áorkað varðandi túnfiskveiðar sínar!“
Staðreyndin er hins vegar sú að Malta fékk engar undanþágur, geirnegldi sig þvert á móti við vald Evrópusambandsins. Tímabundið ákvað ESB hins vegar í samráði við önnur Miðjarðarhafsríki að ívilna tilteknum veiðum, þar á meðal túnfiskveiðum Maltverja. En allt er það tímabundið og undir forræði Evrópusambandsins.
Svo væri ekki úr vegi að haft sé í huga í samanburði á fiskveiðum á Möltu og Íslandi að varla er saman að jafna veiðum okkar Íslendinga á þorski og öðrum nytjafiski og túnfiskiríi þeirra á Möltu. Afli á Íslandsmiðum árið 2023 reyndist vera ein milljón, þrjú hundruð sjötíu og fimm þúsund tonn en allur afli landaður á Möltu það árið var eitt þúsund tonn þar af leyfilegur túnfiskafli 433 tonn.
Eplið og appelsínan koma upp í hugann.
----------------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/
(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.
To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)