Fara í efni

ENGINN Í FÝLU EN ÞÖRF ER Á FÍLU

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 06/07.12.25.

Áður en ég vogaði mér að setjast við tölvu og slá inn nokkra þanka um gervigreindina, sem gerist sífellt fyrirferðarmeiri í lífi okkar mannanna, sendi ég beiðni til nokkurra vina um að senda mér eins og fimm setningar um hvað þeir hugsuðu um þessa tegund greindar og hver áhrif hún ætti eftir að hafa á siglingu mannkynsins í ólgusjó sögunnar.

Álitsgjafar voru jákvæðir. Engin fýla þar. Menn ættu ekki að loka sig af og víkja sér undan ábyrgð, sögðu þeir, þvert á móti ætti að axla hana enda gæti siglingin á vit framtíðar með gervigreind til aðstoðar orðið til farsældar og það meira en lítið ef rétt væri að málum staðið. Hér ætti þó við gamall og góður málsháttur, veldur hver á heldur, það skipti máli hver hafi ráðin í sínum höndum.

Ég hafði sagt að til stæði að skrifa um þetta pistil fyrir sunnudagsblað Morgunblaðsins og hafði einn álitsgjafa minna af því tilefni beðið gervigreindina um að taka af mér ómakið og skrifa fyrir mig pistilinn. Það kvaðst gervigreindin gera með ánægju og þegar til kastanna kom gerði hún það meira að segja af nokkru lítillæti því hún sagði að vissulega ætti að taka sér fagnandi en “þó ekki á hnjánum!” Eitthvað kannast ég við þetta orðlag enda hafði gervigreindinni verið sagt að greinin yrði í mínu nafni.

Álitsgjöfum bar saman um að gervigreind væri ofnotað hugtak um tæknibreytingar sem þegar hefðu birst okkur í margvíslegu formi en væru í stöðugri og mjög hraðri þróun, reyndar svo hraðri að við værum nánast að tala um nýja vídd sem við værum enn að átta okkur á. Tæknina mætti nýta í margvíslegum tilgangi, hún væri aldrei hlutlaus því að alltaf væri hún tekin í þjónustu tiltekinna hagsmuna. Verkefnið ætti að vera að nýta hana í þágu almannaheilla, jafnréttis, lýðræðis og lífsgæða. Til þess þyrfti frjóa hugsun en hún dygði þó skammt ef hún byggði ekki á djúpum skilningi á þeim raunverulegu hættum sem fylgdu þessari tækni. Og þar væri fyrsta spurningin, hver fóðrar dýrið? Hverra hagsmuna er verið að gæta?

En ræður gervigreindin við hinar siðferðilegu víddir og það sem yfirleitt gerir okkur mannleg? Sjálf hugsar gervigreindin ekki, finnur ekki til og tekur enga siðferðilega ábyrgð. En rétt fóðruð getur hún greint hvar siðferðiskennd skortir samkvæmt hugmyndum sem mannkynið hefur búið sér hvað bestar til að styðjast við, bent á hvaða vinnubrögð séu ekki sem skyldi, hvar ekki séu nýttar lausnir sem gefið hafi góða raun og hvar skilningsvana hjarðhegðun sé við lýði.
Gleymum því ekki í þessu samhengi að ekki eru allir menn heldur siðlegir nema síður sé. Reyndar er ekki betur að sjá en að siðferði við stjórnun heimsins fari ört hrakandi; að siðleysingjar, fantar og bjánar ráði víða för og að rétt mötuð gervigreind gæti verið illskárri sem áttaviti en brenglað hugarfar þeirra.

Það liggur nánast í augum uppi að varnir gegn illri notkun á gervigreind hljóti að eiga að vera þær sömu og gegn illri notkun á allri greind.

Álitsgjafar mínir lögðu áherslu á að leggja bæri ofurkapp á að innræta nemendum á öllum skólastigum gagnrýna hugsun í öllu námi. Þar skipti máli allt sem losaði um viðjar hugans og örvaði hann. Þetta tekst mörgum góðum listamönnum að gera og verður framlag þeirra seint ofmetið.

Og þótt það sé örlítill útúrdúr þá get ég ekki stillt mig um að nefna hve skammsýnt það er að sjá ofsjónum yfir listamannalaunum sem eru þó aðeins agnarsmár dropi í útgjöldum þjóðar. Það er helst að megi taka undir það hve fráleitt það sé að draga fólk í dilka, annars vegar þá sem njóta skuli heiðurslauna og hins vegar þá sem ekki þykja verðugir að hljóta slíka náð. En til eflingar andanum og til mótvægis við tæknifrekjuna, þarf stuðning við listir í stóru og í smáu á öllum sviðum. Kirkjukórinn lyftir samfélagi sínu.
Þá þarf að hefja sagnfræði til vegs í menntakerfinu. Hún er varnarmúr gegn loddurum í pólitík og hún getur vísað veginn fram á við hafi menn vit á að draga af henni rétta lærdóma. Svo er það siðfræðin. Það á ekki að hleypa neinum nemanda í gegnum menntakerfið án þess að hann sé rækilega baðaður í siðfræði og öllu því göfugasta sem heimspeki og trúarbrögð hafa haft fram að færa.

Sú var tíðin að öllum nemendum við Háskóla Íslands var gert að sækja fyrirlestra í heimspeki. Þetta var „fílan“ og var sú nafngift stytting úr hugtakinu fílósófíu, en filos á grísku merkir ást og sofia merkir visku. Að kenna um ástina á viskunni getur varla verið til ills.

Niðurstaða mín er sú að mótvægið við ágenga tæknihyggju sé að öðlast á henni skilning svo að nýta megi hana í þágu réttlætis og framfara mannlífi til heilla. Í stað þess að einblína á ókosti tækninnar skal tekist á við þá sem stýra henni í krafti auðs og valda inn á mannfjandsamlegar og ósiðlegar brautir.
Heimspekin - spekin um manninn og heiminn – er um margt sígild. En vilji menn skilja heim sinn í samtímanum þarf að öðlast skilning á þeirri tækni sem stendur til boða svo ígrunda megi af viti og yfirvegun á hvaða siðferðisgrunni hún skuli nýtt. Þetta hlýtur að vera heimspeki nýrra tíma.

Sú speki þarf að verða viðfangsefni skólanna, frá barnaskóla og upp úr til háskólanna.
Þannig að þegar allt kemur til alls kann fílan að vera svarið. 

--------------------

(Í prentaðri útgáfu helgarblaðs Morgunblaðsins misritaðist fyrirsögnin en hér er hún rétt.)

 

------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/

(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.

To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)