Fara í efni

ELÍAS OG ARFLEIFÐ ÞORPANNA

Elías Pétursson, fyrrverandi bæjarstjóri Fjallabyggðar, skrifar magnaða hugvekju um kvótakerfið og auglýsingar stórútgerðarinnar sjálfri sér ti dýrðar. Ég ætla ekki að vitna í pistil Elíasar, sem ber heitið Arfleifð þorpanna, heldur hvetja fólk til þess að lesa hann í heild sinni. Ég leyfði mér að taka hann af feisbókarsíðu Elíasar og birta hann hér að neðan eins og hann leggur sig. Pistillinn hefur farið víða, birst í fjölmiðlum og verið dreift á feisbók. Það segir okkur hversu miknn hljómgrunn málflutningur hans hefur:

Arfleifð þorpanna.

Með breytingum á stjórn fiskveiða voru verðmæti færð frá þorpum og þorpsbúum til handhafa fiskveiðiheimilda. Meðan kvótahafar fengu notið verðmætanna þurftu aðrir að borga. Í tilviki þorpanna féll víxillinn á íbúana. Á sama tíma og virði fasteigna þorpsins lækkaði jókst virði hins framseljanlega kvóta. Það er nefnilega þannig að tilfærsla verðmæta frá einum aðila til annars, af mannavöldum, hefur mikil áhrif á öll samfélög – langt umfram það sem nokkurn getur órað fyrir.

Vegna umræðu dagsins, svo ekki sé talað um hinar athyglisverðu auglýsingar SFS, er rétt að rifja upp að þorpin voru til fyrir tíma breyttrar fiskveiðistjórnunar. Mörgum vegnaði vel, jafnvel mjög vel. Umræðan í þorpunum var áhrifamikil; fólk leyfði sér að hafa sína skoðun; fæstir áttu á hættu að missa starf sitt og/eða viðurværi vegna skoðana sinna; enginn var svo stór að hann gæti þaggað niður umræðuna í þorpinu enda var það var sjaldnast þannig að einn aðili ætti þorpið.

Lífið í þorpunum var skapandi; þar ríkti heilbrigð samkeppni; tækifærin voru óteljandi vegna nálægðar við fiskimiðin; hvert þorp var heilbrigt og skapaði jöfn tækifæri þrátt fyrir að vera ekki fullkomið samfélag. Upp úr því umhverfi spruttu nánast allir þeir sem hafa markað einhver spor í íslenskan sjávarútveg. Kvótahafar dagsins eru fyrst og fremst aðilar sem fá notið afraksturs þeirra sem á undan hafa gengið. Þetta eru aðeins staðreyndir úr sögu þorpanna og áhrifa þeirra. Ekki fullkomið fyrirbæri en sjaldnast kóngar og/eða drottningar sem drottnuðu yfir samfélaginu.

Tíminn er breyttur. Þorpin töpuðu. Þorpin urðu undir. Tækifærin hurfu. Verðmæti eigna þorpanna urðu lítil sem engin. Sem betur fer er þetta að breytast. Ferðaþjónusta og tækniframfarir hafa skapað ný tækifæri í þorpunum. Þorpin, sem töpuðu, eru mörg hver að taka við sér eftir hrylling kvótakerfisins.

Það er af þessum ástæðum sem auglýsingar SFS hreinlega misbjóða mér. Auglýsingarnar bera vitni um ævintýralegan hroka þeirra sem tóku lífsbjörgina frá þorpunum en kalla nú eftir ásjá þeirra og aðstoð þegar sanngjörn krafa er gerð um eðlilegt afgjald kvótahafanna til samfélagsins. Sorglegt.

Það sem nær sérstaklega til mín varðandi umræddar auglýsingar SFS er sú staðreynd að í þær hefur verið vélað ungt fólk sem mun ekki geta útskýrt aðkomu sína að þeim eftir nokkur ár. Þetta má kalla misnotkun á ungu fólki. Það er rangt að ekkert líf hafi verið til staðar áður en kvótaverðmætin voru færð til útvalinna eins og haldið er fram í auglýsingunum. Það er ákaflega slæmt að vera á þeim stað í lífinu að telja sig þurfa að selja sálu sína stórfyrirtæki þorpsins til að komast af; að telja að allt líf í þorpinu sé afleiða starfsemi stórfyrirtækisins sem auðveldlega getur ákveðið að flytja öll verðmætin burt á einni nóttu. Það er afleitt að staða þorpsins sé sú að verkstjórinn í fyrirtækinu sé miðja samfélagsins. Þá er rétt að flytja. Við þessar aðstæður er ágætt að rifja upp að íþróttahús þorpsins var gefið af dönum, en ekki kvótahöfum. Annað er sögufölsun.

Ég vil taka fram að ég hef verið Sjálfstæðismaður allt mitt líf. Nú líður senn að því að þing komi saman að nýju eftir gott páskafrí og ræði hið sanngjarna afgjald kvótahafa til þjóðarinnar. Mig grunar að þingmenn Sjálfstæðisflokks séu nú að hlaða í málþóf í þágu kvótahafanna og aðra viðlíka vanvirðu við lýðræðið. Mér þætti miður ef grunur minn reynist réttur, en óttast það. Ef svo reynist þá sannast enn að lífið er endalaus uppspretta reynslu sem kallar reglulega á endurskoðun eldri sjónarmiða.

Hvað sem öðru líður bið ég um vinsamlegast um að mér verði hlíft við þessum makalausa áróðri SFS því hann er fullkominn vanvirða við þorpin, fullkominn vanvirða við heilbrigða skynsemi, fullkomin vanvirða við samfélagið sem við byggjum og fullkomin vanvirða við söguna - en segir afar mikið um þá sem bera áróðurinn fram og fjármagna.

-------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge: https://www.ogmundur.is/