Fara í efni

DAGBJÖRT

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 25/26.10.25.
Þegar fyrirsögnin var komin á hvítan skjáinn fannst mér í rauninni ekki þurfa neitt meira. Engin frekari orð þyrfti að hafa um heimildarmyndina Fyrir allra augum sem nýlega var sýnd í Sjónvarpinu og fjallaði um baráttusögu Dagbjartar Andrésdóttur, stúlku sem hafði búið við skerta sjón, eins konar rörsýn sem hlotist hafði af heilaskemmdum frá fæðingu og orðið þess valdandi að sjónsvið hennar varð mjög skert, jaðraði við fulla blindu.

Sjálf sagði Dagbjört allt sem segja þurfti um hlutskipti sitt en greinilegt var hve umhugað henni var um að bakhjarlar hennar gleymdust ekki. Í þættinum mátti sjá þá suma, tónlistarvini og þarna var hún Elín, augljóslega traustur vinur, og síðast en ekki síst var það mamma. Þar var fyrirmyndin, ljónynjan sem aldrei hætti að berjast.

En fyrst örfá orð um myndina því ég gef mér að ekki hafi allir sem lesa þessi orð séð umrædda heimildarmynd eða viðtölin sem birtust við Dagbjörtu Andrésdóttur, meðal annars í þessu blaði, helgarblaði Morgunblaðsins, þegar gerð myndarinnar var lokið fyrir ári. Hún fræddi um sjaldgæfan augnsjúkdóm sem kallast CVI, Cerebral visual impairment á ensku, heilatengd sjónskerðing á íslensku.

Þar sem enginn kunni að greina þennan sjúkdóm lengi vel voru einkenni hans óskiljanleg. Hegðun litla barnsins þótti undarleg, skringileg, var hún treg, var þetta leti, þvergirðingsháttur? Dagbjört litla sætti einelti. Og þeir sem vildu hjálpa fóru oft villir vegar: Menntakerfi sem kunni ekki að bregðast við á annan hátt en að hvetja hana til dáða, að leggja enn harðar að sér, ef hún bara reyndi, myndi hún hafa sigur. En sá sigur gat aldrei orðið að öðru óbreyttu.

Með ótrúlegri þrautseigju, stuðningi fjölskyldu og sérfræðings sem hún hafði upp á og kemur fram í þættinum sem frelsandi engill, tekst að snúa stofnanaveldinu og koma því í skilning um að það sé kerfið en ekki bara hún sem þurfi að leggja hart að sér og ekki nóg með það – kerfið þurfi að breyta sér.

Eineltið, sárindin og ósigrarnir tóku greinilega sinn toll en aldrei gafst Dagbjört upp. Það hafði stundum verið grátið og það var gert á skjánum og eflaust víða fyrir framan skjáinn einnig.

En svo tók að birta til. „Ég veit að ég get ekki breytt heiminum,“ segir Dagbjört í þættinum, „en ég vil breyta einhverju, nota reynslu mína til að hjálpa öðrum“. Heimildarmyndin, Fyrir allra augum, er vitnisburður um að það hafi henni tekist.

Myndin, í leikstjórn Bjarneyjar Lúðvíksdóttur, er gerð af fagmennsku, næmni og djúpu innsæi. Stuttar athugasemdir margra þeirra sem komu fram í myndinni sögðu það sem segja þurfti og skildu eftir boðskap sem allir skilja: „Það er enginn að gera rangt með því að elta drauma sína“. Og Dagbjört spyr kennara sinn þegar hún tekur við viðurkenningu um söngnám sitt: „En hvað er orðið breytt?“ Og henni er svarað á þessa leið: Við. Þú hefur breytt okkur!

Að þessi stórgáfaða og hæfileikaríka stúlka skuli hafa verið skilin eftir utanveltu í skólanámi og á skólalóð, með skert sjálfstraust, sýnir hverju vísindin um okkur sjálf geta skilað. Þegar það rann upp fyrir Dagbjörtu, og í kjölfarið söngskólakerfinu þar sem hún sótti menntun sína, hvað það var sem skýrði vangetu hennar, breyttist allt.
Þetta minnir á eina merkustu og mikilvægustu uppgötvun tuttugustu aldarinnar á mannlegri hömlun, lesblindu. Fólk með lesblindu var iðulega sett til hliðar sem vanhæft og ónothæft til allra vitrænna verka. Þar til að mönnum skildist hvers eðlis var.

Heimildarmyndin um Dagbjörtu Andrésdóttur vekur til umhugsunar um hve oft við erum fjarri því að skilja margt það sem er fyrir allra augum, skringilegheit, vanmátt og vangetu, en einnig um þann lærdóm sem draga má af því hverju úthaldsþrek og barátta getur fengið áorkað; hve mikilvægt það er að við séum vakandi yfir okkur sjálfum og dæmum ekki hegðun sem við skiljum ekki til fulls án þess að hafa í huga að skilningsleysi og fordómar eru systkini.

Það var eitthvað svo bjart yfir þessari heimildarmynd. Þakkir til leikstjórans, þakkir til söngskólafólks, lögfræðinga og forsvarsfólks Blindrafélagsins, þökk sé menntakerfi sem auðnaðist að breyta sjálfu sér.

Og síðast en ekki síst á aðalpersónan þakkir skildar:
Dagbjört.

---------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/

(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.

To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Usually this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)