BEÐIÐ UM FRIÐ Í GRIMMUM HEIMI
Hatur og níðingsverk
bíður heimurinn fús!
Og herrar illskunnar
eru hylltir af þjóðum.
Bænir um grið
gráthljóð
óp.
Geymir þögult tómið.
Svo yrkir ljóðskáldið og heimspekingurinn Valdimar Tómasson í ljóðbók sinni Blástjörnu efans. Þessi napra hugsun sem sett er svo meirstaralega fram í ljóðinu Heimur er mér ofarlega í sinni í lok ársins 2025.
Enginn lifir í tómarúmi. Hugur minn er suður við Miðjarðarhaf. Ég er kominn á lokasíðurnar í bók Atefs Abu Saifs, Dagbók frá Gaza. Bókina gaf bókaútgáfan Angústúra út á íslensku á árinu 2024. Hún fjallar um fjöldamorðin á Gaza - ofbeldið, þjáninguna, hörmungarnar - dag fyrir dag haustið 2023. Og enn eru morðingjarnir að frammi fyrir aðgerðalausum heimi.
Ég þóttist vita hvað stæði í þessari bók en samt gerði ég það ekki og mun aldrei skilja þessa atburði til fulls því eins og segir í bókinni «það er ekki hægt að ræða um sársauka.Það er ekki hægt að tjá hann eða skrifa um hann. Maður upplifir hann bara.»
Svo kemur ljóðskáldið og nálgast þessa tilfinningu á sinn hátt, ópið sem þögult tómið geymir.
Valdimar Tómasson hefur fyrr og einnig síðar sagt svo ágætlega það sem ég hefði gjarnan viljað sagt hafa um hvert stefnir í heiminum:
Ferðast um verlöld
friðlaus græðgi
leggur hrími
hjartalindir manna.
Blindur í ljóma
litglaður hégómi.
Glymur bergmál
gjaldfallinna orða.
Hljómlaust fánýti
fyllir hvert rúm.
Eilíf djúp
dauflitaðs tóms.
Morgunleiftrin marka
engin skil.
...
Þetta er úr ljóðabókinni Söngvar til sársaukans.
Þar minnir Valdimar á fallvaltleika lífsins, sorgina og einnig hamingjuna, hve viðkvæm hún er:
....
Hamingjan er hemuð vök
brestur við minnstu báru.
....
En skáldið á sér hljóðláta bæn sem ég vil gera að minni fyrir komandi ár:
Langþráði friður
læðstu hljóður
hin léttu vonarskref.
-----------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/
(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.
To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)