Fara í efni

BANKARNIR EIGA EKKI ERINDI UNDIR PILSFALDINN

Ég þakka fyrir pistla þína Ögmundur og einnig fyrir lesendabréfin sem þú birtir á síðunni og eru mörg afbragðsgóð. Ólína þykir mér þannig frábær í skilgreiningu sinni á vinnulagi Sjálfstæðisflokksins, sbr. https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/i-godra-vina-hopi-og-utan-hans . Þá vil ég taka undir með Hreini Kárasyni að með hliðsjón af aðstæðum, er það eina sem nú er vit í, að láta bankana rúlla með öllum þeim hörmungum sem því þó fylgja ef þeir geta ekki bjargað sér sjálfir. Hitt er nefnilega miklu verra að við rúllum öll á hliðina, Þjóðfélagið verði gjaldþrota ef við ætlum að standa við allar þær frjárglæfraskuldbindingar sem bankarnir hafa skrifað upp á í útlöndum á undanförnum árum. Á þessu er nú raunveruleg hætta. Bankarnir eiga ekkert erindi undir pilsfald ríkisins, sem forsvarsmenn þeirra níða reyndar án afláts um leið og þeir leita þar ásjár!
Hinu er ég ekki sammála Hreini Kárasyni um, að nú eigi að mynda ríkisstjórn VG og Sjálfstæðisflokks. Nú á að mynda Þjóðstjórn með aðild allra.  Þetta er eina vitlega í stöðunni. Núverandi ríkisstjórnin sýnir það aftur og ítrekað að hún er ekki fær um að standa að raunverulegum úrræðum sem sátt gæti orðið um. Þú bendir t.d. réttilega á að hún er enn að hugsa um að gera aðför að Íbúðlánasjóði! Þarf að segja meira?
Grímur