Fara í efni

Í GÓÐRA VINA HÓPI OG UTAN HANS

Eitt einkenni fjölmiðla á okkar tímum verður stundum, oft fyrir athugunarleysi fréttamanna, að viðhalda goðsögnum. Skýringin er oft sú að menn vanrækja eða er meinað að kryfja eða greina samtíma sinn. Saklaus aukasetning úr fréttatíma nýju ríkisfréttastofunnar hljóðaði eitthvað á þessa leið: - Þingmenn Sjálfstæðisflokksins gengu hnípnir af fundinum enda ríkisvæðing andstæð stefnu flokksins. Þeir höfðu verið að skrifa sem þingflokkur upp á næturvinnu formanns flokksins og fyrrverandi formanns, sem rýrði ævisparnað stjúpa eiginmanns míns um sjö milljónir króna. Það er þetta með "andstæð stefnu flokksins". Misskilningurinn er sá að það er aldrei neitt til sem er andstætt stefnu Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn stjórnaði hernaðinum gegn öryrkjum eftir frægan hæstaréttardóm og notaði til þess Framsóknarflokkinn. Flokkurinn var í góðærinu andsnúinn öllum umbótum til handa þeim öldruðum sem stóðu illa og notaði Framsóknarflokkinn sem brimgarð í þeim efnum. Flokkurinn sendi Halldór Ásgrímsson í Íraksstríðið svo illa búinn að hann snéri aftur með klofinn skjöld og brotna lensu, særður pólitískt til ólífis. Og svo þegar flokkur hans var rústir einar skipti Sjálfstæðisflokkurinn formlega um leiðtoga, dró forystumenn Samfylkingarinnar að landi og myndaði með henni stjórn sem þau kalla velferðarstjórn. Ekki er óhugsandi að forveri Geirs H. Haarde sé þeirrar skoðunar að með þeim gjörningi hafi formaðurin stuðlað að annarri mestu niðurlægingu Sjálfstæðisflokksins. Sú hin mesta var þegar formanni Sjálfstæðisflokksins var hent út úr stjórnarráðshúsinu fyrir tuttugu árum sléttum. Svo sagði hann að minnsta kosti efnislega í Mannlífsviðtali. Það er aldrei neitt sem heitir að vera andstætt stefnu Sjálfstæðisflokksins. Í orði kveðnu keppast menn við að halda því fram að flokkurinn standi vörð um frelsi manna til orðs og athafna. Í orði skilgreinir hann þá ríku ábyrgð sem hinn frjálsi einstaklingur á að bera. Auðvitað er það ekki svo. Hafa ekki þessi sautján ár sýnt það? Er ekki búið að úthluta hergóssinu á Keflavíkurflugvelli til einstaklinga og fyrirtækja í eigu fótgönguliða sem beint og óbeint eru tengdir inn í Sjálfstæðisflokkinn? Eru ekki endalausar breytingar á skattalögum gerðar til hagsbóta fyrir ákveðna stétt manna? Eru ekki ráðherrar stjórnarflokkanna að hlaða undir Sjálfstæðisflokkinn í borginni með því að fela henni aukin verkefni, verkefni sem hún síðar úthlutar til fótgönguliðanna? Var það ekki málið þegar SÁÁ fékk ekki verkefni sem samtökin voru þó bærust til að sinna? Eða er það kannske þetta sem skýrir Glitnismál hin síðari?

Glitnir heitir salr,
hann er gulli studdr
og silfri þaktr hið sama;
en þar Forseti
byggir flestan dag
og svæfir allar sakar.

Sjálfstæðisflokkurinn er dæmigerður ríkisflokkur í þeim skilningi að hann þarf að vera við völd til að halda hjörð sinni saman. Hann verður að hafa völd til að geta skammtað embætti, fært mönnum ríkiseigur á spottprís, ráðið skoðanamyndun í landinu í gegnum fjölmiðla, og ráðið lögreglu og dómsstólum með mannaráðningum. Sjálfstæðisflokkurinn þarf völd til að geta staðið vörð um hagsmuni fyrirtækjaeigenda fremur en fyrirtækja og flokksmanna fremur en almennings. Sjálfstæðisflokkurinn hugsar um sína. Glitnir og eigendur hans eru ekki í þeim hópi. Sjálfsagt hefur Glitnir verið í vondum málum, en ef til vill betri málum en Landsbankinn sem glímir við að bjarga skipafélagi, ábyrgðum vegna útrásarfyrirtækja og smotteríi hér og þar. Landsbankamennirnir eru menn Sjálfstæðisflokksins. Kjartan Gunnarsson var með forsætisráðherra á fundi áður en gengið var milli bols og höfuðs á Glitnismönnum aðfararnótt mánudags og svo niðurlægja þeir útgerðarmann frá Akureyri með því að fara fram á að hann haldi áfram sem stjórnarformaður. Af hverju gera þeir það? Jú, hann er eiginlega einn af þeim. Hefur kannske bara lent í vondum félagsskap tímabundið. Landsbankamaður hélt til kvöldfundar með forsætisráðherra að sagt er með handverksmenn sína í afturdragi eftir Austurstræti og þótt bankamálaráðherrann viti það ekki þá er verið að ræða bankamálin hér og þar án hans vitneskju. Unga ráðherranum er vorkunn. Hann á bara einn kost, að þykjast, og spila með. En af hverju er hann ekki hafður með? Nú eru sjálfstæðisráðherrarnir dagfarsprúðir og kurteisir menn. Ástæða þess að bankamálaráðherrann kemur hvergi nærri er sáraeinföld. Sjálfstæðismönnum liggur mikið á og þeir líta á að bankamál þessi séu innanfélagsmál svona rétt eins og blaðamannafundur í Valhöll þar sem persónur og leikendur eru allir í sama leikritinu. Af hverju skyldu menn úr öðrum flokkum hafa afskipti af innri málum Sjálfstæðisflokksins þótt þeir fyrir náð og miskunn þess flokks séu bankamálaráðherrar? Það gilda nefnilega önnur lögmál um sjálfstæðismennina þegar þeir eru saman í hópi þá eru menn að gefa, þiggja og veita innan ramma "ríkisafskiptanna". Samylkingarbankamálaráðherra sem boðið væri í stúku Landsbankans á Stamford Brigde með forstöðumanni lánasviðs bankans gæti átt það á hættu að boðsferðin læki í blöðin. Seðlabankastjóri eða hæstaréttardómari sem þægju slíkt boð og færu í "sjálfstæðismannahópi" gætu hins vegar verið nokkuð öruggir með sig, nema einhver næði mynd af þeim þó ekki væri nema á síma. Annars bíðum við hjónin í ofvæni eftir næstu bloggfærslu Össurar Skarphéðinssonar.

Ólína