Fara í efni

Áminningarfrumvarpið dautt – alla vega í bili!

Undir lok þinghaldsins náðist samkomulag um að taka áminningarfrumvarp Geirs H. Haardes, fjármálaráðherra af dagskrá þingsins og er því ekki lengur hætta á, að þetta umdeilda frumvarp verði að lögum – alla vega ekki á þessu þingi. Þetta hlýtur að teljast mjög mikilvægur árangur. Ekki leikur nokkur vafi á því, að hefði frumvarpið orðið að lögum nú, hefði það sett alla samningavinnu í haust, þegar kjarsamningar losna hjá fjölmennum stéttarfélögum, í fullkomið uppnám. Þessu hafa heildarsamtök starfsmanna í almannaþjónustu - BHM, BSRB og KÍ - komið rækilega á framfæri auk þess sem þau sýndu fram á hve misráðið það hefði verið að lögfesta frumvarpið. ( Umfjöllum um frumvarpið er að finna hér og einnig hér.) Þess má geta til gamans að áminningarfrumvarp er öfugmælaheiti því frumvarpið gengur einmitt út á að afnema áminningarskyldu. Þetta minnir á þann mann sem stolið var frá og hlaut viðurnefnið þjófur fyrir vikið.
Ekki leikur nokkur vafi á því, að málafylgja bandalaganna þriggja, fundahöld, greinarskrif, auglýsingar og ályktanir hafa haft sitt að segja. Eina ferðina enn erum við minnt á, að samstaða og skipulögð vinna skilar árangri. Þá ber að þakka þennan árangur, góðri samstöðu innan stjórnarandstöðu á Alþingi gegn frumvarpinu en auk þess áttum við hauka í horni í stjórnarliðinu.
Geir H. Haarde, fjármálaráherra var ekki um það gefið að draga frumvarpið til baka en komst á endanum á þá skoðun að það væri hyggilegt. Í því efni var ekkert gefið og á fjármálaráðherra þakkir skilið fyrir að koma til móts við kröfur heildarsamtaka starfsmanna ríkisins í þessu efni. Hann er maður að meiri fyrir vikið.