Fara í efni

Verkfærakista Geirs H. Haarde

Birtist í Morgunblaðinu 18.05.04.
Fjármálaráðherra landsins, Geir H. Haarde, leggur nú mikið kapp á að ná fram því áhugamáli ríkisstjórnarinnar að forstöðumenn ríkisstofnana geti rekið fólk úr starfi fyrirhafnarlaust. Hugmyndafræðin að baki þessu áhugamáli sem birtist í fyrirhugaðri lagabreytingu um afnám á grundvallaratriðum varðandi starfsöryggi starfsmanna ríkisins er ekki beinlínis í anda nútímalegra viðhorfa og vinnubragða. Þvert á móti er verið að hverfa aftur til fortíðar –  til þeirra tíma þegar fólk var ekki látið velkjast í vafa um hverjir væru húsbændur og hverjir hjú. Samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar, sem fjármálaráðherra lagði fram í óþökk og undir hörðum mótmælum allra heildarsamtaka launafólks í landinu, verður nú hægt að reka starfsmenn ríkisins án þess að veita þeim áminningu. Þeim verður ekki gefið tækifæri til að bæta ráð sitt, ef um slíkt er að ræða. Þeim verður meinað að leiðrétta misskilning sem hugsanlega hefur verið kveikjan að ákvörðun um uppsögn. Þá er ekki síður alvarlegt að með fyrirhugaðri lagabreytingu skapast hætta á misbeitingu pólitísks valds en eðli málsins samkvæmt eru starfsmenn ríkisins háðir því. Í þessu sambandi vil ég til dæmis vísa til viðkvæmra starfa í réttarkerfinu, starfa á sviðum þar sem deilur hafa verið miklar, svo sem á vettvangi umhverfismála, í fjölmiðlum, menntakerfinu og þannig mætti áfram telja.
Í þessum fáu línum ætla ég að staldra við einn þátt þessa máls og hann lýtur að viðhorfi til starfsmanna. Í stefnuyfirlýsingu sem fjármálaráðuneytið gaf út árið 1996 í tengslum við breytingar á lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna birtist greinileg viðhorfsbreyting frá þeirri hugsun sem áður hafði verið við lýði. Í stað þess að örva starfsfólkið til dáða, stuðla að jákvæðri og uppbyggilegri þátttöku hvers og eins, var nú farið að líta á starfsmanninn sem tæki. Kveðið var sérstaklega á um að gera þyrfti "ríkisstarfsmönnum betri grein fyrir því til hvers væri ætlast af þeim". Gagnstætt mun geðfelldari nálgun sem byggði á frumkvæði einstaklinganna voru þeir nú skilgreindir sem hver önnur tæki í höndum stjórnenda. Og það frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu er ógeðfellt framhald af þankaganginum gagnvart launafólki frá 1996. Í minnisblaði fjármálaráðuneytisins sem fulltrúar í Efnahags- og viðskiptanefnd þingsins hafa fengið í hendur segir m.a.: "Með frumvarpinu er ennfremur stefnt að sveigjanleika í opinberum rekstri. Þannig að ríkið hafi möguleika og tækifæri á að hafa í þjónustu sinni þá starfsmenn sem henta hverju sinni." Þetta er orðalag sem menn kannast við frá 1996.
Það eru hins vegar tvær leiðir til þess að takast á við breytt starfsumhverfi og tækniþróun. Í fyrsta lagi að stuðla að símenntun og endurmenntun starfsfólks þannig að það geti viðhaldið færni sinni og helst haft frumkvæði til framfara. Og til þess að Geir H. Haarde verði látinn njóta sannmælis er vert að taka fram að hann hefur hingað til viljað fara þessa leið og stutt uppbyggingu endurmenntunarsjóða. Þess vegna kemur það verulega á óvart að hann vendi nú sínu kvæði í kross og vilji fara hina leiðina sem vissulega er fær til að ná settu marki. Það er einfaldlega að reka fólk sem ekki er sagt duga - líta á það eins og hvert annað dautt verkfæri sem maður einfaldlega fleygir úr verkfærakistunni þegar það þykir ekki henta lengur. Nútímalegt verklag mundu vafalaust sumir vilja kalla þessa leið en hún er þvert á móti ekkert annað en ómanneskjulegur draugur úr fortíðinni. Og hann vilja nú stjórnvöld vekja til lífs á ný.
Það er dapurlegt hlutskipti ríkisstjórnarinnar og fjármálaráðherra að gerast með þessum hætti boðberar afturhaldssamra og forneskjulegra stjórnarhátta.