Fara í efni

ÁFANGASIGUR Í FORVARNABARÁTTU

Breiðfylking forvarnarsamtaka í landinu fagnar því að fram sé komin ákæra á hendur aðila sem um nokkurt skeið hefur hagnast á ólöglegri áfengissölu. Ólöglegu söluaðilarnir eru fleiri og hlýtur einnig að verða gripið til aðgerða á hendur þeim.

Hér er um að ræða stórfelld auðgunarbrot og sætir furðu hve lengi stjórnvöld hafa látið þetta viðgangast. Allt er svindlið á kostnað almennings því fram hefur komið að salan hjá ÁTVR hefur dregist saman í samræmi við aukin umsvif þessara ólöglegu aðila.

Haganaður af ÁTVR gengur til ríkisins sem orðið hefur af umtalsverðum upphæðum, sem hinu opinbera veitir ekki af, meðal annars til að takast á við afleiðingar áfengisneyslu. Þetta skýrir hvers vegna forvarnarsamtök og ALLAR heilbrigðisstéttir landsins ítrekað varað við þessari ólöglegu og mjög svo ágengu sölumennsku.

Eftir að kæra kom fram í vikunni hafa fjölmiðlar fyrst og fremst snúið sér til lögbrjótanna sem hafa fundið landslögum og ákæruvaldi allt til foráttu með vægast sagt hrokafullu tali. Þarna er öllu snúið á hvolf.

Ég ætla hins vegar að leyfa mér að birta ágæta fréttatilkynningu framangreindra forvarnarsamtaka:

„Breiðfylking forvarnarsamtaka fagnar því að ólögleg áfengissala verður loks stöðvuð

Eftir bið í meira en hálfan áratug er loks komin niðurstaða um að íslenska svindlaðferðin við netsölu áfengis af lager innanlands er ólögleg. Breiðfylking forvarnarsamtaka fagnar því að kæra ÁTVR á hendur netsöluaðila áfengis hafi leitt til ákæru lögreglu. Skorað er á stjórnvöld að standa vörð um lýðheilsu og almannaheill.

Niðurstaða þessi kemur ekki á óvart því lagabókstafurinn er ótvíræður eins og samtökin hafa ítrekað bent á og fært rök fyrir. Samtökin telja því að netsöluaðilar
eigi ekki rétt á skaðabótum. Ef svo ólíklega vill til að skaðabótaréttur er til staðar, ættu stjórnvöld að greiða slíkar bætur. Ódýrara er að greiða þær en allan þann samfélagsskaða sem verður ef aðgengi að áfengi verður aukið með afnámi einkasölu ríkisins á áfengi.

Það er í hæsta máta gagnrýnivert að stjórnvöld og stjórnsýsla skuli hafa sett málið aftast í forgangsröðina í fjölmörg ár og gefið þannig áfengisiðnaðinum færi á að
leika lausum hala til að grafa undan einkasölu ríkisins á áfengi. Ólögleg netsala hefur hvatt til aukningar á neyslu áfengis með tilboðum og afsláttum á áfengi þvert á markmið lýðheilsustefnu stjórnvalda. Þá hefur slík netsala einnig þverbrotið reglur um sölutíma á áfengi. Sala þessi er meðal annars talin hafa
stuðlað að aukinni unglingadrykkju og hafa samtökin miklar áhyggjur af þeirri þróun. Einkasala ríkis á áfengi er það sölufyrirkomulag sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með og rannsóknir og vísindi sýna að reynist best til að vernda lýðheilsu og almannaheill.

Samtökin skora á stjórnvöld að sýna samfélagslega ábyrgð og láti af því að þjóna aðilum sem vilja gera verslun með áfengi að gróðalind. Seinagangur stjórnvalda
hefur stóraukið hættu á að samstaðan um að viðhalda einkasölu ríkis á áfengi brotni niður. Ætla má að ólöglegir söluaðilar muni nú krefjast lagabreytinga til að
geta selt og grætt sem mest fyrir sjálfan sig, þótt slíkt auki samfélagskostnað um á annað hundrað milljarða króna árlega. Netsöluaðilar greiða ekki
samfélagsskaðann það gera skattborgararnir.

Samtökin krefjast þess að stjórnvöld geri nú það sem allir stjórnmálaflokkar segjast sammála um, sem er að auka fræðslu og þekkingu í áfengis- og nikótínforvörnum. Slíkt er gert með því að halda á lofti sannreyndri þekkingu og vísindum. Í samþykktri stefnu Alþingis um lýðheilsustefnu til ársins 2030 segir að Íslendingar verði meðal fremstu þjóða í lýðheilsustarfi sem byggist á bestu vísindaþekkingu og reynslu og að stjórnvöld skuli hafa lýðheilsu að leiðarljósi við alla áætlanagerð og stefnumótun.

Í lögum um verslun með áfengi og tóbak segir að starfrækja skuli ÁTVR og að markmið laganna sé að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu
tóbaks sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð, að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis-
og tóbaksneyslu, og að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og tóbaks og takmarka framboð á óæskilegum vörum.

Samtökin skora á stjórnvöld að hlaupa ekki eftir þeim sem hafa hundsað landslög til að geta hagnast sem mest á sölu áfengis í eigin þágu á kostnað samfélagsins. Nær væri að hlusta á breiðfylkingu heilbrigðisstétta, forvarnarsamtaka og fleiri sem hafa ítrekað skorað á stjórnvöld að fylgja stefnu sem sannreynt er að þjóni samfélaginu og sé til almannaheilla.

Fréttatilkynning þessi er send út í nafni Forvarnarsamtakanna, Fræðslu og
forvarna – félags áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Foreldrasamtaka gegn
áfengisauglýsingum, IOGT á Íslandi og SAFF-Samstarf félagasamtaka í forvörnum.“

------------------------------------------------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course:
https://www.ogmundur.is/

(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti.
Fólk gæti að þessu.

To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)