AAA í stað PPP
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 24/25.26.
Fyrir fáeinum dögum birtist viðtal í Morgunblaðinu við fjármálaráðherra landsins undir fyrirsögninni, PPP-leiðin möguleg með innviðafélagi. Við hliðina á þessu viðtali var svo viðtal við fulltrúa Samtaka iðnaðarins. Þar var fyrirsögnin, Bíða eftir útfærslu innviðafélagsins.
Allt í rétta átt, yfirbragðið framfarasinnað. PPP hljómar vel, P er fallegur stafur og innviðafélag og innviðasjóður sem fjármálaráðherrann vék að í viðtalinu virðast traustvekjandi – við fyrstu sýn.
Hjá Reykjavíkurborg virðist félagslegur framfaraandi einnig svífa yfir vötnum. Þarna er módelið líka PPP. Verið er að undirbúa samstarf við lífeyrissjóði um uppbyggingu innviða í nýjum hverfum og ríkulegur stuðningur er veittur húsnæðisfélögum verkalýðshreyfingarinnar sem sögð eru óhagnaðardrifin til framtíðar líkt og sagt var um lífeyrissjóði fyrr á tíð. Sjóðirnir hafa vissulega alltaf þurft að fara vel með fé til að standa undir lífeyrisgreiðslum en brask var eitur í þeirra beinum. Það voru þeir sem lánuðu hinu opinbera fé til uppbyggingar án þess að gera kröfu um að geta setið þar við mjaltir.
En hvað þýðir þetta PPP, hvað býr að baki þessum stöfum? Þetta er skammstöfun komin úr ensku og þýðir Public Private Partnership, samstarf hins opinbera og einkaframtaks. Skammstöfunin á sér reyndar forvera, PFI, Private Finance Initiative, sem þýðir einfaldlega fjárfesting að frumkvæði einkaframtaksins. Í stjórnartíð Blairs í Bretlandi taldi Verkamannaflokkurinn PFI vera allra meina bót. Fjárfestar fengu að reisa og stundum reka skóla, sjúkrahús og húsakost fyrir hið opinbera sem síðan greiddi fjárfestunum fyrir rekstur, leigu og arð sem þeir vildu hafa af fjárfestingunni. Þetta hafði þann kost að bókhaldið bólgnaði ekki út hjá ríki og sveitarfélögum í einu vetfangi. Allt virtist þar með felldu. Það var ekki fyrr en búið var að greiða fyrir leigu og rekstur í nokkur ár að í ljós kom hve óhagstætt þetta fyrirkomulag reyndist skattgreiðendum og notendum. Einnig kom í ljós að þegar fjárfestingakostnaður hafði verið vanreiknaður féll áhættan sem einkaaðilarnir áttu að bera jafnan á almenning, annað hvort við það að endursamið var við einkaaðilana eða að notendur voru einfaldlega rukkaðir stífar því að þessu fylgdu iðulega notendagjöld.
Þegar óvinsældir PFI meðal almennings voru orðnar stjórnvöldum óbærilegar var brugðið á það ráð að finna nýtt nafn á fyrirbærið. Í stað PFI með áherslu á fjárfestingu einkaaðila skyldi hinu opinbera hampað í nafngiftinni. Þannig varð PPP til, Public Private Partnership. Breytt nafn en innihaldið óbreytt.
En nú spyr ég hvort ekki væri ráð að íslensk stjórnvöld gerðu grein fyrir innihaldi áforma sinna? Það mætti byrja á því að svara því hvers vegna ríkissjóður taki ekki lán til framkvæmda og losi okkur við óþarfa milliliði sem jafnan er endursamið við nái þeir ekki að innheimta ávöxtunarkröfu sína af framkvæmdum.
Í framangreindu viðtali við Daða Má fjármálaráðherra er á honum að skilja að hann fagni því að erlendir stórfjárfestar vilji ólmir komast að innviðum Íslands. Myndi hann vinsamlegast segja okkur hvers vegna hann telji þá vilja koma? Og hvað með lífeyrissjóðina, þeir séu prýðilegur kostur segir hann, bara einn vandi, nefnilega áhersla þeirra á að eignirnar séu seljanlegar, að þeir geti með öðrum orðum braskað með þær. Þar með minna lífeyrissjóðirnir á það að þeir eru ekki traustari fjárfestar en aðrir að þessu leyti.
Þetta eru sömu lífeyrissjóðirnir og Reykjavíkurborg vill að sjái um innviði nýrra hverfa. Og með fullri virðingu fyrir húsnæðisfélögum sem verkalýðsfélög hafa komið sér upp þá spyr ég hvers vegna forsvarsmenn borgarinnar afhendi þeim stofnframlög okkar útsvarsgreiðenda svo og stofnframlög frá ríkinu til uppbyggingar en ekki Félagsbústöðum sem eru í eigu borgarinnar? Hvers vegna ekki stuðla að eignamyndun þar í stað þess að færa öðrum hana á silfurfati?
Eru virkilega engir í íslenskum stjórnmálum sem standa í ístaðinu fyrir hönd almennings, skattgreiðenda og notenda, okkar sem borgum milliliðunum í bílastæðunum, fjölgandi milliliðum í raforku og eigendum elliheimilanna sem Inga Sæland grefur fyrir í gríð og erg án þess að nokkur spyrji um kostnaðinn af einkavæddu eignarhaldi.
Og hvaða stefnu skyldu vorboðar stjórnmálanna kynna okkur í komandi sveitarstjórnarkosningum? Þjónkun við fjárfestingafjármagnið eða að milliliðirnir verði látnir víkja?
Slíkt fyrirkomulag mætti kalla AAA, vilji menn á annað borð halda sig við skammstafanir: Almannaþjónstan Alfarið á forræði Almennings.
-----------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/
(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.
To be taken note of: Sometimes people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Usually this is because the reply has been directed to the trash bin. Be aware of this.)