Fara í efni

ÚTI Á ÞEKJU Í BOÐI RÚV OG PÍRATA

Píratar _ RUV
Píratar _ RUV

Eitt er víst að úti á þekju eru fréttastofa Ríkisútvarpsins og fulltrúi Pírata hjá Evrópuráðinu þegar kemur að málefnum Rússlands og Evrópuráðsins.

Allt frá árinu 2014 hefur Rússum verið meinað að sækja þing Evrópuráðsins. Þaðan voru þeir reknir, fyrst til hálfs árs og síðan með framlengingum vegna íhlutunar Rússa í Úkraínu og innlimunar Krímskagans sérstaklega. Við svo búið hótuðu Rússar að hætta að borga til þingsins og kom að því að þeir gerðu alvöru úr þeirri hótun. Eftir sem áður áttu þeir þó aðild að stofnanakerfi ráðsins en áhöld um hve lengi þeir vilji búa við þann skarða hlut í Strassborg að vera meinaður aðgangur að sjálfu þingi Evrópuráðsins.

Fréttastofa Rikisútvarpsins slær nú eftirfarandi upp sem glænýju neti:

"Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata og varaformaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins vakti athygli á því við upphaf þingfundar í gær að starfsemi Evrópuráðsins væri í uppnámi vegna fjarveru Rússa sem þar að auki hafi neitað að borga gjald sitt til Evrópuráðsins í meira en ár. Þórhildur Sunna beindi máli sínu til utanríkisráðherra og spurði hvort Ísland ætlaði að bregðast við þessu ástandi og hvort Ísland myndi beita sér ef Rússar ákveði að ganga úr Evrópuráðinu. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagðist þekkja til málsins eftir samtöl við Thorbjörn Jagland og sennilega yrði samstarf á vettvangi Norðurlandanna. Staðan væri flókin og erfið sagði Guðlaugur Þór en ríkisstjórnin hefði ekki tekið neina formlega ákvörðun til að bregðast við þessu." (http://www.ruv.is/frett/segir-starfsemi-evropuradsins-i-uppnami)

Ha?

Er verið að búast við því að utanríkisráðherra sem styður allar refsiaðgerðir gegn Rússum, kúvendi og tali um fyrir NATÓ vinum sínum að þeir friðmælist við Pútin? ( Við munum væntanlega eftir Skripal og fótboltanum að ekki sé nú minnst á árás Nató á Sýrland fyrir ekki svo ýkja löngu á forsendum sem flestir vestrænir fjölmiðlar vilja nú helst gleyma).

Eru hinar Norðurlandaþjóðirnar líklegar til þess að standa í fararbroddi með Guðlaugi Þór? Og hvað eru Píratar yfirhöfuð að leggja til? Eiga þeir ekki eftir að botna eitthvað hér? Og varla er það hlutverk fréttastofu að kveða hálfkveðnar vísur eins og hér er gert?

Vonandi halda fréttastofa RÚV og Píratar umræðunni áfram. En til að svo geti orðið þarf náttúrlega fyrst að koma sér ofan af þekjunni.

Nokkrar slóðir af handahófi um þetta "glænýja" mál:
http://www.ruv.is/frett/vildi-ekki-refsa-russum-i-evropuradinu
http://www.visir.is/g/2014704119985
http://www.ogmundur.is/umheimur/eldra/2015/2/
https://www.ogmundur.is/is/greinar/evropuradinu-var-ekki-aetlad-ad-verda-nato
https://www.ogmundur.is/is/greinar/einfaldur-er-heimurinn-fyrir-nato-island