Fara í efni

EVRÓPURÁÐINU VAR EKKI ÆTLAÐ AÐ VERÐA NATÓ

Evrópuráðið - 47 aðildarríki
Evrópuráðið - 47 aðildarríki

Í dag lauk vikulöngu þingi Evrópuráðsins í Strasbourg. Þar kenndi að venju margra grasa og voru mörg áhugaverð efni til umræðu. Líkt og á Alþingi fer hin eiginlega og efnislega vinna fram í nefndum og á ég sæti í fjórum þeirra, Heilbrigðis- og félagsmálanefnd, Flóttamannanefnd, Eftirlitsnefnd og nefnd sem fjallar um starfsreglur þingsins. Iðulega rekast fundartímar þessara nefnda á þá viku sem þingið situr en nefndirnar koma saman til funda á morgnana áður en þinghaldið hefst og síðan eftir hádegið áður en þingið sest að nýju. Fyrir bragðið þarf að sýna fyrirhyggju við val á því hvar sest er á nefndafund hverju sinni. Segja má að hver mínúta sé nýtt og er það vel.

Rússar úti

Mál málanna er ástandið í Úkraínu og brýst það fram í ýmsum myndum. Sem kunnugt er brást Evrópuráðið við innlimun Krímskagans í Rússland og afskiptum Rússa af stríðinu í austurhluta Úkraínu  með því að svipta Rússa tímabundið atkvæðisrétti og var þeim þannig í reynd vísað á dyr. Enda fór það svo að Rússar lýstu því yfir fyrir sitt leyti að þeir myndu ekki hafa samskipti við þing Evrópuráðsins það sem eftir lifir þessa árs. Yfirlýsingu þessa efnis sendu þeir frá sér í mars.

Einsleitari umræða, tilfinningaofsi og þöggun

Þetta hefur gert alla umræðu einsleitari. Fulltrúar ríkja sem nýlega eru komin undan  Sovéthælnum eru reiðir og jafnvel, í sumum tilvikum, hatursfullir og eru það vissulega skiljanleg mannleg viðbrögð þótt menn geti ekki leyft sér annað en að taka yfirvegaðar ákvarðanir þegar stigið er inn fyrir dyr Evrópuráðsins. Það hefur ekki öllum auðnast að gera og væri illt ef þetta leiddi til þess að gagnrýnis raddir á þeirra eigin gjörðir (þessir aðilar eru nú margir komnir með stjórnartauma í hendur)  verði kæfðar  með þöggun  í einhvers konar allsherjar tilfinningaofsa.

Vanhugsuð afstaða

Ég flutti ræðu um Úkraínu og gerði grein fyrir þessum sjónarmiðum og varaði við því að Evrópuráðið sem væri hugsað sem mannréttindastofnun almennings - oft í átökum við ríkisvald - yrði þróað yfir í einhvers konar mini-NATÓ eða Evrópusamband. Málshefjandi um Úkraínu hafði bent á að Minsk samkomulagið gerði ráð fyrir valddreifingu í Úkraínu - desentraliseringu - og væri mikilvægt að horfa til þess. Ég minnti þá á að þing Evrópuráðsins hefði á síðasta ári, illu heilli og mjög vanhugsað,  ályktað í þá veru að Úkraína mætti aldrei undir nokkrum kringumstæðum verða sambandsríki og jafnframt felldi þingið með yfirgnæfandi meirihluta tillögu okkar nokkurra vinstri manna um að fella út tilvísun til stjórnskipunar ríkisins. Ekki trúi ég öðru en einhver hafi fengið eftirþanka eftir umrædda atkvæðagreiðslu í fyrra eða hvenær hefðum við talið eðlilegt að fordæma að Þýskaland væri sambandsríki eða Bretland og mörg önnur eða yfirleitt hafa á því skoðun?

Ályktað á forsendum ríkishagsmuna

Vandinn er sá að Evrópuráðið hefur í Úkraínumálinu ályktað á forsendum hagsmuna Úkraínustjórnar gegn meintum hagsmunum aðskilnaðarsinna og Rússa. Og það sem meira er, þar sem Úkraínustjórn skilgreinir aðskilnaðarsinna sem hryðjuverkamenn þá hafa ýmsar nefndir þings Evrópuráðsins gert það líka! Ekki er þetta líkleg leið til að ná friðarsamkomulagi á milli stríðandi fylkinga.

Réttarhöld til að banna kommúnisma

Ég gagnrýndi réttarhöldin sem nú fara fram yfir Kommúnistaflokknum. Mér var sagt að það væri mikill misskilningur að slík réttarhöld færu fram, það væri aðeins verið að banna hugmyndafræði og tákn hennar. En hvað með þá stjórnmálaflokka sem halda fram hugmyndafræðinni gagnvart kjósendum, væri ekki þarmeð jafnframt verið  að banna þá? „ Já, en það er ekki þingið, ekki stjórnmálamennirnir, sem banna, heldur dómstólarnir!"
Bretarnir mættu illa, enda kosningar á næst leiti í Bretlandi. Það létti andrúmsloftið því þeir hafa margir verið sérlega harðdrægir og stóryrtir í Úkraínu umræðunni. Mér hefur fundist það sérkennilegt því ekki verður séð að þeirra ágæta heimaríki sé hreinn engill hvað varðar innrásir í ríki og undirokun þjóða. Ögn meiri hógværð færi hinni gömlu nýlenduþjóð sem réðst inn í Írak fyrir aðeins örfáum árum, mun betur.
Sjá: https://www.ogmundur.is/is/greinar/evropuradsthing-og-hlutskipti-kommunistaflokks-ukrainu 
og https://www.ogmundur.is/is/greinar/kaldastridstonar-i-evropuradnu 

Eftirlits- og njósnaþjóðfélagið til umræðu

Ég tók einnig þátt í umæðu um njósnir og eftirlit í símkerfum og á netinu, „Mass-Surveillance", einsog það hét á ensku. Fram hafði verið lögð sérdeilis góð skýrsla um efnið og var það hollenskur hægri maður, Pieter Omtzigt, sem það gerði. Breskir íhaldsmenn gerðu sitt til að reyna að vatna skýrsluna út með tillögum um innihalds- og orðalagsbreytingar en höfðu ekki árangur sem erfiði. Ég tók vel undir með skýrsluhöfundi fyrir hönd vinsri flokkanna hér á þinginu í Strasbourg. Í skýrslunni eru yfirvöld í Bandaríkjunum og Bretlandi harðlega gagnrýnd fyrir að vilja ekki taka umræðu við Evrópuráðið um þessi mál en þingmaðurinn hollenski  hafði staðið fyrir fundum um gervihnött með Edward Snowden inn á opna fundi í Evrópuráðinu og hafði hann ítrekað reynt að bjóða bandarískum og breskum yfirvöldum upp á hið sama. Þegar því var ekki svarað var boðið upp á lokaða fundi en allt kom fyrir ekki. Vildi þingið herða á aðhaldi í þessum efnum.

Aðgerðir gegn hryðjuverkum

Þá tók ég einnig þátt í umræðu fyrir hönd vinstri flokkanna um breytingar á samþykt Evrópuráðsins um aðgerðir gegn hryðjuverkum (Convention on the Prevention of Terrorism). Almennt var ég gagnrýninn á þessar breytingar sem gera samþykktina loðnaðri þvert á það sem Mannrréttindaskrifstofan  (Commissioner for Human Rights)  hér við Evrópuráðið hafði kallað eftir. Tók ég nokkur dæmi um loðið orðalag en staldraði þó lengst við skilgreiningar á hryðjuverkum.

Tók ég þrjú dæmi:

1) Sönnur hafa verið færðar á að fjöldi saklauss fólks hefði verið myrtur með svokölluðum drónum, mannlausum sprengjuförum. Þau samfélög sem ættu um sárt að binda vegna þessa, skilgreina án vafa árásarmennina sem hryðjuverkamenn og viðkomandi árásarríki sem hryðjuverkaríki þótt ég þykist vita að Evrópuráðið væri ekki tilbúið að skilgreina Bandaríkin sem hryðjuverkaríki.

2) Í skjölum Evrópuráðsins væri talað um aðskilnaðarsinna í Úkraínu sem hryðjuverkamenn og þá væntanlega alla sem hefðu einhver samskipti við þá sem menn af slíku sauðahúsi.

3) Þegar Ísland hefðið lent í bankahruni árið 2008 ákváðu bresk stjórnvöld að fella stærsta íslenska bankann starfandi í Bretlandi. En góð ráð voru dýr, það vantaði lagalega syllu að standa á. Þá hefðu menn dottið niður á pottþétta lausn, að skilgreina Ísland sem hryðjuverkaríki! Þá var allt hægt. Og þarna var Ísland komið á lista bresku stjórnarinnar með Norður  Kóreu og Al-Queda. Frasögumaður málsins, breskur lávarður, Tomlinson að nafni kvaðst vera mér sammála um flest en ekki þetta síðasta. 

Förum varlega við að glæpavæða

Ég sagðist nefna þessi dæmi til varnaðar þegar við færðum út landamæri mannréttindasáttmála okkar til að glæpavæða enn frekar meinta tengingu við hryðjuverk. Síðar á þinginu mætti Nils Muiznieks fyrir þingið að svara spurnigum og notaði ég þá tækifærið að spyrja hann hvort honum þætti þingið standast væntingar hans í þessu umrædda máli. Sló hann nokkuð úr og í, gagnrýndi ekki breytingarnar en lagði áherslu á fara yrði varlega í að glæpavæða.

Þrýstingur á Norður-Evrópu vegna flóttamanna

Fjöldi annarra mála var á dagskrá þings Evrópuráðsins að þessu sinni. Málefni flóttamanna  voru mikið til umræðu og eru þau greinilega farin að valda miklum áhyggjum. Flóttafólkið er að flýja miklar hremmingar og lendir síðan iðulega í öðru eins á flóttanum. Miðjarðarhasfsríkin eru að bugast undan fólksstraumnum og krafan um að Norður- Evrópa hjálpi meira verður stöðugt háværari. Í hverri ræðunni á fætur annarri voru Svíar og Þjóðverjar teknir út fyrir sviga. því þeir hafa staðið sig vel flestum öðrum fremur að opna landamæri sín fyrir stríðshrjáðu fólki frá Sýrlandi sérstaklega.  En þrýstingurinn á Norðrið vex og finnst mér ég merkja áherslubreytingu hvað það varðar þótt þetta tal hafi vissulega  lengi verið uppi.

Drónar, spilling í íþróttum og mannréttindadómstóllinn


Drónaárásirnar voru til umræðu og kröfur settar fram um meira eftirlit. Í ljós hefur komið samkvæmt upplýsingum Spiegels að slíkum árásum sé að einhverju leyti stýrt frá Ramstein í Þýskalandi, rétt vestan við Strasbourg. Þá var fjallað um Mannréttindadómstól Evrópu og vinnu sem fer fram til að bæta vinnuferli þar á bæ og voru aðildarríkin hvött til að laga dómapraxís og framkvæmd alla betur að niðurstöðum dómsins. Mannréttindi Trans-fóllks voru einnig til umræðu á jákvæðum nótum einsog vera ber.  Ekki má gleyma knatspyrnunni. Menn vilja að FIFA endurskoði ákvörðun um að halda með heimsleikana til Quatar  árið 1922 í ljósi fyrirsjáanlegra mannréttindabrota þar í tengslum við framkvæmdir og þjónustu við leikana. Þá kom fram mikil gagnrýni á spillingu innan íþróttaheimsins og væri FIFA þar sýnu verst.

Málum stöðugt mjakað áfram

Vinnuskýrslur voru lagðar fram á þinginu og í nefndum og eru þær vitnisburður um að á vegum Evrópuráðsins er stöðugt unnið að því að bæta stöðu mannréttindamála í ýmsum geirum mannlifsins.
Það er vel.
En víða er langt í land.