Fara í efni

KALDASTRÍÐSTÓNAR Í EVRÓPURÁÐNU

Evrópuráðið c w
Evrópuráðið c w

Á nýafstöðnu  þingi  Evrópuráðsins í Strasbourg var samþykkt að svipta Rússa tímabundið öllum réttindum í Evrópuráðinu vegna aðkomu þeirra að Krímskaganum og þar með innri málefnum Úkraínu. Fyrir lágu tillögur um að reka Rússa úr ráðinu en þetta varð niðurstaðan. Hún var þó harðari en margir höfðu ætlað því í stað þess að svipta Rússa tímabundið atkvæðisrétti  einvörðungu, voru þeir sviptir rétti til að sækja allar samkomur og fundi. Ég greiddi atkvæði  gegn þessu. Í þessari grein freista ég þess að gera grein fyrir því hvers vegna í tók þá ákvörðun.

Tvær ályktunartillögur

Tvær ályktunartillögur voru lagðar fram sem tengjast málinu. Annars vegar „Um þróun mála í Úkraínu og ógnir við lýðræðislegar stofnanir" og hins vegar um „Endurmat á réttindum  Rússa  í Evrópuráðinu."
Fyrri ályktunartilagan var unnin af tveimur þingmönnum, öðrum frá  Svíþjóð, þingmanni  hægri flokksins, Moderatarna og hinum frá Miðflokknum í Eistlandi.

Ekki óhlutdræg umfjöllun

Skýrslan stóðst að mínu mati ekki gæðakröfur,  var einhliða og huglæg og gaf ekki heildstæða mynd. Allflestum breytingartillögum sem fram voru settar til að reyna  að rétta hlutdrægnina af var hafnað.
Ég skal taka dæmi: Þegar hryðjuverk voru fordæmd var sérstaklega vikið að ofbeldi fyrrum stjórnvalda, sem var ótvírætt , en tillaga um skírskotun til ofbeldis af hálfu hópa andófsmanna, sem einnig var ótvírætt, var felld.

Vildu ekki fordæma fasista

Felld var tillaga um að fordæma ofbeldi á vegum hins fasíska Svobodaflokks, þótt sterk rök væru fyrir því að umfjöllun um það ætti heima í skýrslu um ógnanir gagnvart lýðræðinu. Tillaga um að herða á gagnrýni á takmörkun á fjölmiðlafrelsi hjá núverandi stjórnvöldun var felld en moðsuða samþykkt.
Tillaga um að tekin yrði út úr ályktuninni sú afstaða til stjórnskipunar Úkraínu til framtíðar, að ekki kæmi til mála að landið yrði sambandsríki heldur ætti ríkið að vera sterkt og heildstætti („strong unitary state"). Hér skal þó haft í huga að Rússar hafa þrýst á að Úkraína verði sambandsríki, telja sennilega að viðráðanlegra verði þá að deila og drottna. Afstaða gegn þessari hugmynd er því án efa hugsuð sem mótvægi við slíkan óeðlilegan utanaðakomandi þrýsting. 

Sama hversu hjálpleg

En jafnvel hörðustu andstæðingar Rússa í Úkraínu hafa þó staldrað þarna við. Julía Tímósjenkó fyrrum forsætisráðherra , sú hin sama og hinn fallni forseti Viktor Janúkóvits fangelsaði, segir í grein sem birtist í Morgunblaðinu 8. apríl: „Það er einungis úkraínskra ríkisborgara að ákveða hvaða form stjórnarskrá Úkraínu hefur. Rússland getur ekki haft neitt að segja um það - né heldur önnur ríki, alveg sama hversu hjálpleg þau vilja vera."   
Í samræmi við þetta er óeðlilegt að Evrópuráðið hafi á því skoðun hvort  Úkraína skuli vera sambandsríki  eða miðstýrð eining. Varla fyndist nokkrum rétt að Evrópuráðið amaðist við því að Þýskaland, Rússland og að nokkru marki Bretland, séu sambandsríki að ógleymdum ýmsum ríkjum í öðrum álfum, Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó, sem öll eru sambandsríki. Afstaða af þessu tagi á ekki heima á borði Evrópuráðsins þótt umræðan eigi sér vissulega  pólitíska undirtóna í valdataflinu sem nú er háð. En þá þarf að tala hreint út og fordæma beint þrýsting Rússa í þessu efni og var ég samþykkur öllum tillögum sem fram komu um yfirgang Rússa. Á endanum fór svo að tillaga um að fella brott afstöðu til stjórnskipunar úkraínska ríkisins var felld svo og nær allar málamiðlunartillögur um orðalag.

Sögulaust fólk?

Og það gekk ekki hljóðalaust fyrir sig. Tilfinningaþrunginn málflutningur  er skiljanlegur hjá þeim sem heitast á brennur. En það var langt í frá að Úkraínumönnum og grönnum þeirra væri einum  heitt í hamsi. Þeir sem mest höfðu sig í frammi í umræðunni  og hvergi vildu hnika til i orðalagi, völdu iðulega orðfæri  Kalda stríðsins og tóntegundina efir því. Upp í hugann kom hvort þetta gæti verið sögulaust fólk sem aldrei hefði heyrt minnst á Írak, Afganistan og Lííbíu eða Kosovo sem slitið var út úr Serbíu og gert að sjálfstæðu ríki undir verndarvæng Nató. Ekki er ég að gagnrýna það heldur minna á fordæmin þegar rætt er um  vilja íbúa á svæðum innan landamæra ríkja.    
Eftir að breytingartillögum var hafnað ákvað ég að greiða atkvæði gegn tillögunni í heild sinni. Sú afstaða endurspeglar óánægju með vinnubrögð og afstöðu meirihluta Evrópuráðsins. Þing Evrópuráðsins, sem allir aðrir, verður að ástunda vandaðan málflutning; gera allt sem í þess valdi stendur til að styrkja lýðræðisleg gildi og mannréttindi og gagnrýna harðlega að sama skapi þegar hið gagnstæða er uppi á teningnum hver sem í hlut á. Mikið liggur við að vel takist til í Úkraínu, að þar verði raunveruleg  lýðræðisþróun sem bæti hag landsmanna, auki frelsi og dragi úr spillingu. Við slíka þróun bindur almeninngur miklar vonir.

Á að úthýsa Rússum?

Hin tillagan sneri síðan að rétti Rússa til aðkomu að Evrópuráðinu. Ástæðurnar fyrir því að ég greiddi atkvæði gegn þeirri tillögu eru eftirfarandi:
Í fyrsta lagi leyfi ég mér að  vera  gagnrýninn á þau sem véfengja rétt Krímverja til sjálfsákvöðrunar. Sífellt er vísað í alþjóðalög án þess þó  að gera grein fyrir því á sannfærandi hátt að þau séu afdráttarlaus í þessu efni.  Um hitt er ekki deilt að það sem gerst hefur á Krím stríðir gegn stjórnarskrá  Úkraínu og landslögum þar. Ég tel þó að hinn lýðræðislegi réttur verði  varla véfengdur. Að hlusta á menn réttlæta eignarhald Úkraínu á Krímskaga á grundvelli þess að Krústjoff hafi gefið Úkraínu Krím árið 1954 er hámark þankagangs forræðishyggjunnar. Þetta þýðir þó ekki að þjóðaratkvæðgreiðsla eigi að fara fram undir herhæl Rússa og afskipti og íhlutun þeirra er ofbeldisfull og ber að fordæma harðlega.  Hitt er jafnframt ljóst að Úkraína hefði að öllum líkindum aldrei leyft þjóðaratkvæðagreiðslu á Krímskaga, og var þeirri afstöðu endurómað og hún studd í skýrslum Evrópuráðsins.  

Hvers vegna ég sagði nei

Meginástæðurnar fyrir afstöðu minni eru tvær.
Í fyrsta lagi er Evrópuráðið  vettvangur þingmanna ekki ríkisstjórna. Evrópuráðið á ekki að reyna að taka sér vald til refsiaðgerða . Það gera ríki og ríkjasamkundur. Með því að meina Rússum aðgang að Evrópuráðinu og hugsanlega  Mannréttindadómstólnum, sem mun væntanlega sjálfkrafa gerast ef Rússland hverfur úr Evrópuráðinu í kjölfar þessara atburða, sem hæglega getur gerst, þá yrðu 143 milljónir íbúa Rússlands sviptir aðkomu að þessum stofnunum og þeim réttindum sem þeir veita.  Hér þarf að hafa í huga að einstaklingar sem leita til Mannréttindadómstólsins eru oftar en ekki að sækja á sín eigin stjórnvöld.
Í öðru lagi þá er það svo að þegar syrtir í álinn í heimspólitíkinni þarf að vera farvegur til samræðu. Evrópuráðið er og á að vera slíkur farvegur.