Fara í efni

EINFALDUR ER HEIMURINN FYRIR NATÓ-ÍSLAND

MBL
MBL

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 15/16.09.
Þær eru margar mótsagnirnar í lífinu og þar af er ófáar að finna í alþjóðasamskiptum. Íslendingar eru hins vegar nokkuð sjálfum sér samkvæmir þrátt fyrir allar slíkar mótsagnir. Þeir fylgja einfaldlega NATÓ-línunni og í seinni tíð línu Evrópusambandsins sem er yfirleitt hin sama.
Þannig birtist frásögn í Morgunblaðinu í vikunni um „breiða samstöðu" á Alþingi um þvingunaraðgerðir gegn Rússum, að þessu sinni vegna innlimunar Krímskagans. Almenna viðhorfið var að Íslendingum bæri að standa með „vinaþjóðum".

Í apríl síðastliðnum lýsti NATÓ og þar með Ísland yfir samstöðu með herjum Bandaríkjanna, Frakklands og Bretlands þegar þeir gerðu árás á Sýrland til að refsa þarlendum stjórnvöldum fyrir eiturefnaárás á eigin þegna. Í fjölmiðlum var slegið upp í mynd og máli afleiðingum „eiturefnaárásar Sýrlandsstjórnar".

Áður höfðum við lesið um „eiturefnaárásina í enska bænum Salisbury", árás sem væri fordæmlaus „í álfunni frá lokum síðari heimsstyrjaldar" og „ógnun við öryggi og frið í Evrópu", svo vitnað sé í yfirlýsingu Stjórnarráðs Íslands eftir að rússneskur gagnnjósnari, nú á snærum Breta, og dóttir hans höfðu verið lögð inn á sjúkrahús í  kjölfar þessarar heimssögulegu árásar.

Sem betur fer náðu þau feðgin sér fljótt. Sannað þótti að eiturefnum hefði verið beint að þeim og þau hugsanlega komist í lífshættu. Hins vegar hafa rannsóknir ekki enn leitt í ljós hver hafi verið valdur að ódæðinu þrátt fyrir afdráttarlausar staðhæfingar breskra stjórnvalda þar að lútandi áður en nokkur rannsókn hafði farið fram! Fyrir íslenska ráðherra skipti rannsókn málsins reyndar ekki máli. Til að þóknast breskum stjórnvöldum og sanna hve góðir vinir þeir væru afpöntuðu þeir fyrirhugaðar ferðir sínar til Rússlands til að fylgjast með íslenska landsliðinu í knattspyrnu á HM. Samstaðan með þeim Trump, May og Macron er ekki alltaf tekin út með sældinni!

Og nú erum við komin í mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Og utanríkisráðherrann segir Íslendinga „óhrædda að gagnrýna" mannréttindabrjóta heimsins og nefnir sérstaklega „þrjú  nærtæk dæmi": Venesúela, Filippseyjar og Sádí-Arabíu vegna hernaðar þess ríkis í Jemen. En skyldu þetta virkilega vera nærtækustu dæmin fyrir Íslendinga? Hvernig væri að hafa allavega með í spyrðunni,  Bandaríkin, sem eru hinir raunverulegu bakhjarlar árásarstríðsins í Jemen, eða þá Tyrki sem fram á þennan dag hafa framið einhverja  hræðilegustu stríðsglæpi síðari tíma innan eigin landamæra og hafa nú auk þess hernumið Afrin, Kúrdabyggð í norðvesturhluta Sýrlands og bera ábyrgð á þjóðernishreinsunum þar. Eru Bandaríkjamenn ekki nokkuð nærtækir til að gagnrýna og svo Tyrkir, báðar þjóðir í góðu kallfæri á fundum í góðravinafélaginu NATÓ? Þetta yrði hins vegar illa séð og því ekki eins gaman að koma á fundina með vinunum eftir alvöru gagnrýni í þeirra garð.

Svo er náttúrlega hitt, að þegar gengið er ögn út fyrir þægindarammann gerast framangreindar mótsagnir ágengar. Þá þarf að horfa á veruleikann og leggja á hann sjálfstætt mat. Horfast til dæmis í augu við að í júlí komst rannsóknarnefnd á vegum alþjóðaeftirlitstofnunarinnar með eiturvopnum, OPCW, að þeirri niðurstöðu að enginn fótur væri fyrir framangreindri „eiturefnaárás Sýrlandsstjórnar" fyrr á árinu. Einhverra hluta vegna fór lítið fyrir þessum fréttum í vestrænum fjölmiðlum, þar á meðal okkar. Með öðrum orðum, allt uppdiktað í máli og myndum!  

Oft hef ég líka furðað mig á því hve lítinn áhuga fjölmiðlar hafa sýnt sögu Krímskagans, á ítrekuðum atkvæðagreiðslum löngu fyrir innlimun Rússa, sem gefið hafa vísbendingu um að meirihlutavilji íbúa Krím hafi löngum staðið gegn innlimun í Úkraínu. Mér fannst líka skrítin viðbrögðin við tillögu sem ég setti fram við umræðu um ályktunardrög um Krím hjá Evrópuráðinu á sínum tíma þar sem sagði að virða bæri alþjóðalög um landamæri Úkraínu. Ég hafði lagt til að auk landamæra og fullveldis Úkraínu bæri að horfa til lýðræðislegs vilja íbúa Krímskagans. Mér fannst skrítið þegar fulltrúar „vinaþjóðanna" felldu þá viðbótartillögu.
Það var kannski skrítið en að sjálfsögðu skiljanlegt á sama hátt og það er skiljanlegt hvers vegna NATÓ og Evrópusambandið telja að eitt skuli gilda um afskipti stórvelda innan landamæra Úkraínu, annað innan landamæra Sýrlands.
En átakaminnst er náttúrlega að halda sig í hinum einfalda heimi. Þá þarf maður heldur ekki að hafa áhyggjur af því hvað það þýðir að vera fullvalda þjóð.