Fara í efni

LYGARINN SEM RÍKISSTJÓRNIN VILL AÐ VERJI ÍSLAND

Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, leitar nú ákaft ásjár, hjá Bandaríkjastjórn um framhald á "varnarsamningnum" sem svo er nefndur. Það virðist engin áhrif hafa, hvorki á hann né aðra ráðherra í ríkisstjórninni, að við völdin í Washington sitja nú stórhættulegir stríðsmangarar, menn sem ekki einu sinni útiloka að beita kjarnorkuvopnum gegn öðrum ríkjum!
Bandaríski rannsóknarblaðamaðurinn Seymour Hersh, skrifaði grein í New Yorker, hinn 17. apríl síðastliðinn, þar sem hann staðhæfir að í hernaðaráformum Bandaríkjastjórnar gegn Íran sé þeim möguleika haldið opnum að varpa kjarnorkusprengjum á Íran.( Sjá nánar HÉR).
Ekki ætla ég mér að sinni að fella neina dóma um núverandi valdhafa í Íran.

 Hvers vegna kjanorkuvopn?

Ef við hins vegar settum okkur í spor Írana almennt, má spyrja hvort ekki mætti ætla að við yrðum móttækilegri fyrir rökum þeirra sem vildu koma upp kjarnorkusprengjum í landi okkar ef við byggjum við stöðugar hótanir frá hendi þeirra sem búa yfir slíkum sprengjum – og við skulum ekki gleyma því að hótanirnar koma frá eina ríkinu í heiminum sem beitt hefur kjarnorkusprengjunni.
Þegar allt kemur til alls réttlætir Bandaríkjastjórn eigið kjarnorkuvopnabúr með þeim rökum að kjarnorkuvopnin styrki í senn varnir Bandaríkjanna, og séu jafnframt ógnun, hafi fælingarmátt eins og það stundum er kallað. Kjarnorkuvopnin styrki með öðrum orðum Bandaríkin til sóknar og varnar. Sömu rökum tefla önnur kjarnorkuveldi fram: Bretland, Frakkland, Rússland, Kína og á nákvæmlega sama veg hugsa önnur ríki sem sum hver viðurkenna ekki tilvist kjarnorkuvopna sinna en hafa þau samt: Indland, Pakistan, Suður-Afríka og Ísrael. Fleiri ríki kunna að búa yfir kjarnorkuvopnum svo sem Ástralía og Norður-Kórea.

Hvað er frábrugðið með Írönum og nýtilkomnum kjarnorkuveldum?

Það sem er frábrugðið er að Írönum og öðrum ríkjum sem vilja hafa kjarnorkuvopn undir höndum er að Íanar eru ekki leiðitamir Bandaríkjastjórn. Bandaríkjamenn réttlæta ógnanir sínar  gagnvart Írönum með því að Íranar hafi undirritað sáttmálann um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna, NPT, frá árinu 1970. Það hafa hin kjarnorkuveldin ekki gert. En vel að merkja, sáttmálinn byggir á því að aðrar þjóðir skuldbindi sig til þess að beita ekki kjarnorkuvopnum gegn  aðildarríkjum sáttmálans, nokkuð sem Bandaríkjastjórn hótar hins vegar nú að gera! Allar götur frá því Bush yngri komst til valda hefur verið til umræðu að sú staða gæti komið upp að beita þyrfti kjarnorkusprengjum í staðbundnum hernaði við "nýjar aðstæður", sem nú eru uppi í heiminum. Þessar kenningar sem þó eru harla óljósar hafa grafið undan NPT samningnum.
Þótt þessar kenningar séu um sumt óljósar er hitt mjög skýrt og ljóst að núverandi valdahafi í Bandaríkjunum hefur áform um að hervæðast sem aldrei fyrr og reka grimma heimsvaldastefnu í skjóli vopna sinna. Allt þetta er á blússandi ferð. Bush var varla sestur á valdastól fyrr en hann sagði ABM samningunum upp. (Limitation of  Anti-Ballistic Missile Systems – ABM.  Þetta er  samningur gegn smíði varnaflauga gegn langdrægum kjarnorksprengjum, því sem kallað voru stjörnustríðsáformin í tíð Ronalds Reagans á níunda áratugnum.) Aldrei heyrðist múkk frá íslenskum stjórnvöldum af þessu tilefni! (Sbr. HÉR)

Hundurinn og rófan

Ríkisstjórn Íslands hefur fylgt Bandaríkjastjórn eins staðfastlega og rófa fylgir hundi. Í samræmi við það er sú staðreynd að það virðist engin áhrif hafa á þann ásetning ríkisstjórnarinnar að leita ásjár hjá Bandaríkjastjórn þótt hún hafi ítrekað orðið uppvís af stríðsglæpum, pyntingum á föngum, stórfelldum mannréttindabrotum, lygum og fölsunum.
Sem betur fer er heiðvirt fólk í Bandaríkjunum að rísa upp gegn þessum óþjóðalýð. Þar má nefna Ray McGovern, sem í 27 ár starfaði með bandarísku leyniþjónustunni CIA. Hann hefur í ræðu og riti sakað núverandi valdhafa Bandaríkjanna um að hafa beitt stórfelldum lygum í aðdraganda innrásarinnar í Írak. Á fundi í Atlanta í Bandaríkjunum nýverið, spurði hann Donald Rumsfeld "varnarmálaráðherra" Bandaríkjanna, hvers vegna hann hefði logið því að hann hefði vitneskju  um tilvist gerðeyðingarvopna í Írak. Rumsfeld svaraði því til, að hann hefði engu logið, stjórnina hefði hins vegar grunað að Írakar hefðu gereyðingarvopn undir höndum. McGovern sagði ráðherrann hafa staðhæft árið 2003 að ríkisstjórnin hefði vissu um tilvist vopnanna og hvar þau væru, þ. e. nærri Tigrit og Bagdad og las McCovern beina tilvitnun í  Rumsfeld frá þessum tíma. ( "We know where -- where the WMD are. They're near Tikrit and Baghdad, and north, south, east, and west of there." That's a direct quote.")
Nokkuð kom á Rumsfeld við þessa upprifjun og mun hann sennilega iðka það í vaxandi mæli að hafa sama hátt á og Bush forseti gerir, að láta fjarlægja með snarhasti alla þá sem líklegir eru til þess að spyrja óþægilegra spurninga. Það var reyndar gert á Atlanta fundinum eins og sjá má í sjónvarpsfrétt CNN fréttastofunnar sem komast má inn á á  ÞESSARI slóð.
Sjá HÉR tengt efni.