Fara í efni

LÆRLINGAR THATCHERS SELJA BANKA

Furðulega hljótt er um sölu á eigendahlut almennings - fólksins - í Íslandsbanka. Innan veggja Alþingis er svarið náttúrlega augljóst. Þar er einfaldlega annað tveggja, ekki að finna þá fulltrúa fólksins sem þykir þetta umdeilanlegt eða að raddböndin virka ekki í þessu máli.

Úti í þjóðfélaginu hvílir líka merkilega mikil friðsæld yfir þessu máli. Gæti það verið vegna þess að farið er að ráðum þess stjórnmálamanns sem mestu áorkaði í einkavæðingarátt um sína daga, nefnilega járnfrúarinnar sem svo var nefnd, Margaretar Thatcher?



Thatcher sagði að stjórnmálamenn skyldu ekki aðeins hafa það í huga að einkavæðing væri eftirsóknarverð í því skyni að styrkja hagkerfið. Hún væri einnig eftirsóknarverð með það fyrir augum að gera sem flesta landsins þegna varðstöðumenn kapítalismans. Hún orðaði þetta ekki nákvæmlega svona. En þetta var inntakið: Ef nógu margir einstaklingar ættu hlutdeild í gróðabraski þá myndu þeir sjá hag sinn í því að byggja upp og verja slíkt kerfi.

Vandinn er svo að sjálfsögðu sá að hvorki eiga allir pening til að kaupa hlutabréf né vilja taka þátt í braski. Sem betur fer eru enn margir sem telja að hagnað í fjármálakerfi eigi að nota til að minnka álögur á viðskiptavini innan kerfisins eftir því sem kostur er og það sem umfram sé eigi að renna til fólksins – þess sama fólks sem til er bæði fyrir og eftir kosningar.

Hér á þessari heimasíðu hefur stundum verið fjallað um kosti samfélagsbanka sem góð reynsla er af bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu, þá einkum í Þýskalandi. Hér eru nokkrar slóðir en þær eru miklu fleiri.

https://www.ogmundur.is/is/greinar/hver-er-glaepur-bjarna-og-er-hann-einn-um-thann-glaep

https://www.ogmundur.is/is/greinar/mismunandi-syn-a-samfelagslegan-banka

https://www.ogmundur.is/is/greinar/verdum-ad-fa-fram-afstodu-hvers-einasta-thingmanns

https://www.ogmundur.is/is/greinar/samfelagsbanki-i-sokn

https://www.ogmundur.is/is/greinar/sjalfstaedisflokkurinn-slaer-fyrri-met

https://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20151110T180807&horfa=1

Fram að þessari sölu hefur íslenskur almenningur átt 45,2% í Íslandsbanka. Á heimasíðu bankans má sjá nýjustu hagnaðartölur en þær eru fyrir þrjá mánuði á árinu 2024:

  • Hagnaður af rekstri nam 5,3 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi 2024 (2F23: 6,1 milljarðar króna). Arðsemi eigin fjár var 9,7% á ársgrundvelli (2F23: 11,5%).
  • Hreinar vaxtatekjur voru hærri en spár greinenda gerðu ráð fyrir og námu 12,5 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi 2024. Það er samdráttur um 1,0% frá 12,6 milljörðum króna á 2F23.
  • Vaxtamunur var 3,1% á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 3,2% á sama ársfjórðungi 2023.

Sjá nánar hér: https://www.islandsbanki.is/is/frett/afkoma-islandsbanka-a-odrum-arsfjordungi-2024

“ Það er mikilvægt að ríkissjóður fái sem mest fyrir sinn hlut”, skrifaði Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra á heimasíðu sína.

Auðvitað er þetta rétt svo langt sem það nær. En lengra nær þetta þó varla en þegar pissað er í skóinn sinn til að halda á sér hita. Minnir svolítið á Isavia sem síðasta ríkisstjórn lét búta niður í rekstrareiningar til að búa í haginn fyrir útvistun og einkavæðingu. Svo kom að því að Isavia vildi fá eins mikið í sinn hlut og hægt væri þegar kom að því að bjóða reksturinn út, tók fyrir bragðið hæsta tilboði en verður svo svarafátt þegar nýr rekstraraðili keyrir upp kvaðir á sína undirsáta, sem aftur eru knúnir til að hækka verð til mín og þín, fólksins sem er elskað svo heitt fyrir kosningar en með öllu gleymt eftir kosningar.

Harold Macmillan fyrrum forsætisráðherra Bretlands (1957-63) gerðist aldrei lærisveinn samflokkskonu sinnar - Margaretar Thatcher - og hefði farið betur ef hún hefði orðið lærlingurinn en Harold lærifaðirinn.

Macmillan beindi varnaðarorðum til járnfrúarinnar þegar hann sagði orðrétt á fundi innan Íhaldsflokksins árið 1985: „The sale of assets is common with individuals and the State when they run into financial difficulties. First the Georgian silver goes, and then all the nice furniture that used to be in the saloon. Then the Canalettos go.” Og snarað á íslensku, Einstaklingar og ríkið eiga það sameiginlegt frammi fyrir fjárhagslegum erfiðleikum að grípa til þess úrræðis að selja eignir. Fyrst fer silfurborðbúnaðurinn, síðan fallegu húsgögnin og svo fara málverkin eftir Canaletto.“
Hér talar greinilega yfirstéttarmaður um mikilsmetin djásn í hans huga, síðari tíma menn hefðu talað um að selja mjólkurkýrnar og gert minna úr gömlum málverkum.
En Macmillan var einnig vel meðvitaður um sölu á mjólkurkúm. Hann bætti nefnilega við fyrri orð sín að þótt mikið kynni að fást með sölu eigna væri ekki þar með öll sagan sögð og kvað hann varasamt að skilgreina himinhátt söluandvirði sem tekjur … while it was possible to get high prices for valuable assets he questioned “the using of these huge sums as if they were income”.

Einhverjir hafa viðrað þau sjónarmið að heppilegra hefði verið að stórir fjárfestar hefðu fengið meira í sinn hlut. Þeir sem eru þessarar skoðunar og harma að stóru gammarnir komist ekki að borði geta verið alveg rólegir því eins og Kári segir í lesendabréfi sé það bara tímaspursmál hvenær gammarnir sitji einir að bráðinni:

ÞJÓÐIN SELDI SJÁLFRI SÉR

Þessa sögu sjáum hér,
sama veginn þrammar.
Þjóðin banka seldi sér,
síðan hirða gammar.

 

…. Og Pétri Hraunfjörð er ekki skemmt eins og fram kemur einnig í bréfi til síðunnar:

EINU SINNI VAR

Íslandsbanka og Íslandsmið
Íslendingar það áttum við
út hugsað rán
og þvílík smán
Alþingi situr nú gjörspillt lið

-------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge: https://www.ogmundur.is/