Fara í efni

SAMFÉLAGSBANKI Í SÓKN

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ
Birtist í DV 16.02.16.
Um síðastliðna helgi samþykkti flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs ályktun um að ríkið selji ekki hlut sinn í Landsbankanum heldur geri hann að samfélagsbanka. Áður höfðu slíkar raddir heyrst frá Framsóknarflokknum með Frosta Sigurjónsson alþingismann og formann efnahags- og viðskiptanefnar Alþingis fremstan í flokki.

Bankinn í Dakóta og þýskir sparisjóðir

Þá hefur stjórnmálahreyfingin Dögun talað mjög fyrir þessari hugmynd og stóð fyrir fundi í Norræna húsinu með tveimur erlendum sérfræðingum á þessu sviði. Annar var Ellen Brown, þekkt bandarísk baráttukona um ábyrga fjármálastjórn og hinn Wolfram Morales, framámaður í þýska sparisjóðakerfinu en það er rekið á samfélagslegum forsendum.
Í erindi sínu staðnæmdist Ellen Brown við þekktasta samfélagsbanka Bandaríkjanna, ríkisbankann í Norður-Dakota. Hann var stofnaður fyrir tæpri öld, árið 1919, en rótin að stofnun hans var ekki sósíalísk heldur ásetningur um að standa vörð um fullveldi Norður-Dakóta, sem löngum hefur verið vígi hægri manna. Hvað sem sögunni líður þá er bankinn sagður hafa stuðlað að stöðugleika í fjármála- og efnahagslífi fylkisins og fjörutíu milljónum dollara skilar hann árlega til samfélagsins. Þess má geta að þessi banki slapp óskaddaður úr bankakreppunni 2008 enda bannað að taka þátt í hvers kyns braski.

Í þjónustu við samfélagið

Stóra málið er þó að bankanum er ætlað að þjóna samfélaginu, en ekki skapa prívateigendum óverðskuldaðan gróða.  Sparikassarnir þýsku eru ein meginstoðin í þýska fjármálakerfinu, með álika starfsmannafjölda og íslenska þjóðin telur. Viðskiptavinirnir eru um fimmtíu milljónir. Í þessu kerfi tíðkast engir bónusar, sem eru, þegar öllu er á botninn hvolft, fyrst og fremst siðlausir fjárhagshvatar til að ganga hart að viðskiptavinum. Þýsku sparisjóðirnir eru flestir sjáfseignarstofnanir, sprottnir úr stjórnsýslu þýskra bæjar- og sveitarfélaga og eru þeir viðskiptabankar eingöngu en ekki fjárfestingarsjóðir.

Fórnir Íslendinga

Allt þetta minnir okkur á hverju Íslendingar fórnuðu í aðdraganda hrunsins. Í fyrsta lagi voru sparisjóðirnir eyðilagaðir. Þeir höfðu marga eiginleika samfélagsbanka þar til Alþingi lét undan gróðafíklum þar innandyra sem ólmir vildu gera þá að fjáröflunarfyrirtækjum. Fengu þeir því áorkað að prívat eignarhlutir sem þeim hafði áskotnast á félagslegum forsendum yrðu þeim til stórfellds fjárhagslegs ávinnings. Síðan leiddi eitt af öðru þar til hinn félagslegi þráður hafði verið eyðilagður.
Ríkisbankar sem aldrei höfðu verið baggi á þjóðfélaginu heldur þjónað landsmönnum bærilega vel voru einkavæddir og urðu síðan að þeim braskstofnunum sem við þekkjum öll.

Rannsókn á spillingu er ekki nóg!


Síðan hrundi allt með hrikalegum efnahagslegum og félagslegum afleiðingum. Nú hafa fjármálastofnanirnar risið að nýju og við fengið að kynnast því að þar hefur ekkert breyst, allra síst kúltúrinn innandyra.
Samfélagið horfir agndofa á hvert spillingarmálið á fætur öðru. Þau þarf að rannsaka ofan í kjölinn.
En það er ekki nóg. Fyrir þinginu liggur þingmál um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarsjóða. Fyrst flutti ég þetta þingmál árið 2003 og hefur málið síðan nokkrum sinnum verið endurflutt og hafa komið að því þingmenn nokkurra flokka. Í ljósi reynslunnar er mikilvægt að það fái nú brautargengi.

Bjarna á ekki að líðast ....

En meira þarf til. Kröfuna um samfélagsbanka verður að taka alvarlega. Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, á ekki að líðast að afhenda frá okkur bankana og skella skollaeyrum við sjálfsagðri kröfu um að komið verði á fyrirkomulagi í bankaviðskiptum sem þjónar samfélaginu en er ekki á kostnað þess.