Fara í efni

HERNAÐARHYGGJA LEIDD TIL ÖNDVEGIS - OG ÞÓRDÍS BÆTIR Í

Ég minnist nokkurra ferða á fundi erlendis sem ráðherra. Tilstandið í kringum slíkar ferðir þótti mér oft keyra úr hófi fram. Verst held ég að þetta hafi verið í Ungverjalandi en þar voru menn farnir að föndra við fasisma á ráðherraárum mínum fyrir rúmum áratug. Þá var ég orðinn innanríkisráðherra og þar með ráðherra lögreglu- og dómsmála, landhelgisgæslu og ýmissa annara þátta sem sköruðust við „varnarmál“ hjá herþjóðum. Þetta þótti kalla á sérstakar öryggisráðstafanir, vælandi sírenur, vopnaða menn með hönd á gikk við hvert fótmál þessa mikilvæga gests og sólarhringsvakt við hótelherbergið. Með þessum yfirdrifna bjánagangi átti að sýna gestinum hve mikils hann væri metinn, í alvöru kominn inn í innsta hring!

Metið held ég nú samt að hafi verið slegið í Reykjavík undir forystu ríkisstjórnar Íslands á ráðherrafundi í maí á síðasta ári. Fluttir voru inn lögregluþjónar erlendis frá til að styðja íslensku lögreglumennina sem aftur voru látnir gista á hóteli í Reykjavík nærri fundarstað – einnig þeir sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu - þegar „leiðtogar“ Evrópuráðsins kæmu saman til að ræða mannréttindamál í Reykjavík. Í engu skyldi sparað svo viðbragðsflýtir gæti orðið á sekúndubrotum. Gasgrímur munu hafa verið við höndina ef skyndiárás yrði gerð með eiturefnum.
Allt varð þetta þó skiljanlegra þegar í ljós kom að á þessum fundi stóð til að stíga stærsta skrefið hingað til svo gera mætti þennan samstarfsvettvang Evrópuþjóða um mannréttindamál að valdastofnun í þjónustu ríkisstjórna; að því sem á ensku kallast geopólitískri stofnun. Þetta var illa ráðið og gæti þá þýtt að samviskan hafi ekki verið upp á sitt besta hjá skipuleggjendum og þess vegna allur varinn góður. Um þetta birtist örpistill á sínum tíma: https://www.ogmundur.is/is/greinar/fra-versolum-til-reykjavikur sjá einnig um viðhorfsbreytingu íslenskra ráðamanna til „öryggismála“,
https://www.ogmundur.is/is/greinar/banvaen-ord-og-ekki-saklaus

Þá fer trúverðugleikinn og með réttu!

Eitt það dapurlegasta sem gerst hefur á Íslandi er sú kúvending sem orðið hefur í afstöðu til hernaðarhyggju. Stjórnmálamenn sem gáfu sig út fyrir að vera talsmenn friðar sneru algerlega við blaðinu í upphafi núverandi stjórnarsamstarfs, opnuðu Ísland fyrir stórfelldri hervæðingu, fóru að kaupa og selja vopn og gera sig gildandi á meðal stríðshauka enda hlotið lof fyrir fylgispekt sína. Allir bjuggust við öllu af hálfu Sjálfstæðisflokks, ýmsu af hálfu Framsóknar en aldrei þessu af hálfu VG. Þess vegna er sá flokkur í sárum. Ef eitt er sagt og annað síðan gert í hverju grundvallarmálinu á fætur öðru tapast trúverðugleikinn. Hann ávinnst ekki á ný nema til komi gerbreytt stefna: https://www.ogmundur.is/is/greinar/tillaga-til-ketils-skraeks

Varðberg á framfæri skattgreiðenda að fræða um stríð og frið!


Nýlega vakti ég athygli á því að ríkisstjórnin hefði gert samning við Varðberg, helsta aðdáendaklúbb NATÓ í landinu um að kynna málstað hernaðarbandalagsins. Nánast engin umræða hefur orðið um þessa fáránlega hlutdrægu ráðstöfun. Hvernig stendur á því? Ekki vil ég að mínir peningar gangi til þessa verkefnis og pólitíkin sem í þessu er fólgin finnst mér forkastanleg: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/03/27/raduneytid_gerdi_samning_vid_vardberg/

Ísland búið að fá varnarmálaráðherra

Og síðan fáum við að heyra nú að utanríkisráðherra Íslands sé farin að láta titla sig sem varnarmálaráðherra landsins þegar það þykir eiga við. Bjarni Benediktsson mun hafa byrjað á þessum nýja sið en allt er þetta táknrænt um hvert stefni með land okkar – illu heilli.
Sjálfum finnst mér þetta vera dapurlegra en orð fá lýst.
https://www.nato.int/cps/en/natohq/who_is_who_51267.htm?fbclid=IwZXh0bgNhZW0CMTAAAR3XjDPEHat6SZx-k2YjRRfQmtzaxx4FUNNv-snZ8We7x1iJ8klpOSgDAKQ_aem_Add_zaKNpy9YaH4vmClOJ2J_mX6R9Akr5kIIwLjvjBUf_WNTvvUquXZgDegIL-gTxx8jh7UWC9VHDbHAUOxVUaow

Ekki veit ég hvort það er Þórdís Kolbrún Reykfjörð utanríkisráðherra eða varnarmálaráðherra, sennilega hvort tveggja í senn, sem komin er til Georgíu til að hafa afskipti af innanlandsmálum þar í landi. Því nákvæmlega það er hún að gera og erindið á vegum BNA og handlangaranna í NATÓ, allt samkvæmt löngu ákveðinni forskrift Pentagon og hugveitanna sem starfa á vegum þeirrar stofnunar. Allt saman skjalfest og löngu komið fram eins og þau vita sem hirt hafa um að kynna sér.

Íslenskur ráðherra mótmælir – þó ekki í Tel Aviv

(Utanríkis- og varnarmálaráðherra Íslands með ráðherrum frá Eystrasaltsríkjunum að lýsa yfir andstöðu við ríkisstjórn Georgíu á fundi með mótmælendum)
Í Georgíu snýst málið um umdeilt lagafrumvarp sem lýðræðislega kjörið þing landsins hefur haft til umfjöllunar. Utanríkis/varnarmálaráðherrar Eystrasaltsríkjanna og Íslands segja að um sé að ræða lagasetningu sem sé  þeim óásættanleg og básúna þá afstöðu sína á útifundum og í fjölmiðlum.
Í grunninn snýst þessi lagasetning um það hvort stofnanir og samtök sem fjármögnuð eru erlendis frá meira en að fimmtungi til, þurfi að gera grein fyrir sér sem slíkum. Sem dæmi mætti spyrja hvort Radio Free Europe sem alfarið er kostað af bandaríska varnarmálaráðuneytinu, Pentagon, sé georgísk útvarpsstöð eða erlend.
Á þessu máli er svo sú hlið, sem gagnrýnendur hald á loft, að stjórnvöld í Georgíu séu að leita að átyllu til að hefta starfsemi félagasamtaka.
Hitt er þó staðreynd að í því stríði sem háð er um völd og yfirráð í heiminum, tilraunum til að bola ríkisstjórnum frá og setja aðrar til valda, „regime change“ er „frjálsum“ félagsamtökum óspart beitt sem Trojuhestum samtímans. Fram hjá þessu verður varla horft.

(Þessi mynd er af forsíðu bæklimgs frá Rand Corporation sem lýsir  ákveðinni heimssýn sem verður ljós þegar bæklingrinn er lesin. Þar segir hvernig knésetja megi Rússland og er  bæklingurinn gerður löngu fyrir innrás Rússa í Úkraínu) 

Og svo er það ný staða í Washington – tengiliður við Pentagon!

Og svo ég bæti einum mola í konfektkassa hernaðarhyggjunnar sem leidd hefur verið til öndvegis í íslenskum stjórnmálum, þá ætlaði ég varla að trúa því þegar mér var sagt að í kyrrþey hefði í janúar síðastliðnum verið búin til föst staða í sendiráði Íslands í Washington, sérstaks „varnarmálafulltrúa“.

Ég ákvað að beina formlegri fyrirspurn til utanríkisráðuneytisins um þetta nýja embætti og fékk að vita að lengi vel hafi staðgengill sendiherra eða „sérfræðingur“ verið eins konar „ígildi“ varnarmálafulltrúa en í ágúst árið 2018 hafi orðið „sú breyting að staðgengill sendiherra var formlega viðkenndur sem varnarmálafulltrúi gagnvart Bandaríkjunum …“ en „í janúar síðastliðnum tók starfsmaður utanríkisþjónustunnar síðan við þessu hlutverki sem aðalstarfi í sendiráðinu. Varnarmálafulltrúi sinnir samskiptum við bandaríska varnarmálaráðuneytið. Hann ræktar tengsl við bandarísku strandgæsluna, almenn tengsl og erindrekstur í strandgæsluskólanum. Þá á hann í samstarfi við aðra varnarmálafulltrúa í Washington, einkum norræna, og við hugveitur á sviði öryggis- og varnarmála.“

Ákveðið í ríkisstjórn en var þetta rætt á þingi?

Sannast sagna stóð ég í þerri trú að samstarf Íslands við erlend ríki um hernaðarmál ættu að vera á vegum utanríkismálanefndar Alþingis og undir smásjá hennar. Hún tæki um það ákvörðun eftir opna umræðu á Alþingi um hvaða tengsl  bæri að rækta við bandarísku hervélina ef þá einhver. Rétt væri að byrja á því að ræða það.
Þá þyrfti að upplýsa um það hvort Alþingi fái reglulega í hendur skýrslur varnarmálafulltrúans um samskipti hans við varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, Pentagon, og þær hugveitur sem sú stofnun hefur með í ráðum um stefnumótin. Þar er efst á blaði Rand Corporation sem stundum hefur verið fjallað um á þessum vettvangi, en skýrslur þeirrar stofnunar ættu að vera skyldulesefni allra þeirra sem vilja skilja það sem er að gerast í heiminum að undirlagi þeirra afla sem ríkisstjórn Íslands hefur á undanförnum árum verið að bindast sífellt fastari böndum. Sú lesning er hrollvekja.
(Sjá þessa skýrslu frá 2019 um hvernig farið skuli að því að knésetja Rússland, skrollið niður og skoðið þó ekki sé nema millifyrirsagnir, https://www.rand.org/content/dam/rand/pubs/research_reports/RR3000/RR3063/RAND_RR3063.pdf )

Eins og málum er komið vakti þessi nýja staða enga sérstaka undrun mína en umræðuleysið og andvaraleysið gerir það aftur á móti. Dapurlegast er þó að hugsa til þess að þau sem sögðust myndu standa vaktina gegn ásælnum hernaðarhagsmunum gerðu það ekki. Þvert á móti skipuðu þau sér undir gunnfána hernaðarhyggjunnar.
Því fer fjarri að Íslendingar séu einir á báti í að kúvenda frá því að tala máli friðar og sækja þess í stað í þann farveg að verða í málsvari vígvæðingar og stríðs. Hér fljóta íslensk stjórnvöld í meginstraumnum því ráðamenn á Norðurlöndunum öllum eru einnig þarna komnir. Alls staðar sama ístöðuleysið og vesaldómurinn og alls staðar er reynt er að setja þá til hliðar sem reyna að standa í lappirnar gegn yfirgangi heimsauðvaldsins. En sú staða mun ekki vara að eilífu. Sanni menn til!

Það sem er þó verst

Reyndar hef ég aldrei gert mér vonir um að Sjálfstæðisflokkurinn gerði annað en hann hefur alltaf gert, stutt hermangarana vini sína. Verra er það með Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Hún segist vera á móti NATÓ og að verið sé að framfylgja öryggisstefnu Íslands.
Hvort tveggja er ósatt.
Það er verið að ganga miklu lengra en nokkur slík stefnumótun kveður á um, og það hefur ríkisstjórnin gert ótilneydd. Hvetjandi að hætti Ketils skræks og viljug eins og einhvern tímann var sagt um þau ríki sem studdu innrás Bandaríkjanna í írak í byrjun aldarinnar, hefur minn gamli flokkur, Vinstrihreyfingin grænt framboð reynst vera undanfarin tvö kjörtímabil, ekki á móti NATÓ, nei, þar í stöðugum faðmlögum, hvetjandi um stækkun og styrkingu bandalagsins, meir hörku, minni undanlátssemi, meiri vopn, meira stríð.
Það er þetta sem mér finnst jafnvel verra en gamalgróna NATÓ þjónkunin hjá Varðbergsmönnum; þegar eitt er sagt en annað gert.
Verstur er nefnilega tvískinnungurinn. 
Með honum hverfur trúverðugleikinn.

Sjá meðal annars um kúvendingu Norðurlandanna,
https://www.ogmundur.is/is/greinar/norraen-rettlaetiskennd-tekur-breytingum

-------------------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.