Fara í efni

Heimsatburðir að hætti Halldórs eða Sunday Herald?

Í gær var greint frá því að sprengjusérfræðingar hefðu fundið sprengikúlur sem innihéldu sinnepsgas á vígvöllum í Írak. Sem kunnugt er voru meintar gereyðingarvopnabirgðir Íraka sagðar ein af ástæðum þess að innrás var gerð í Írak um mitt síðasta ár. Engin slík vopnabúr hafa hins vegar fundist og þættu það mikil tíðindi ef svo yrði. Sprengikúlurnar sem fundust skammt frá Basra, en þar áttu íslenskir sérfræðingar í hlut, hafa vakið athygli. Hér virðist hins vegar um að ræða gamlar sprengikúlur í lekum umbúðum og telja sérfæðingar að þær séu frá dögum stríðsins á milli Írak og Ían á níunda áratugnum. Þá var vitað að Írakar beittu slíkum vopnum bæði gagnvart Írönum og Kúrdum. Á þessum tíma naut Saddam Hussein eindregins stuðnings Bandaríkjastjórnar en frá Bandaríkjunum munu þessi vopn ættuð. Auðvitað er mikilvægt að finna vopn sem hugsanlega eru virk en Írak er allt sundurgrafið af slíkum tólum. Eftir styrjaldarástand í áratugi eru því miður miklar líkur á því að um langan aldur eigi þessi vopn eftir að verða mörgum að fjörtjóni.

Það var hins vegar ekki í þessu samhengi sem Halldór Ásgrímsson utanríkisráherra Íslands brást við þessum vopnafundi. "Ég tel að hér sé um að ræða heimsatburð", segir hann við Morgunblaðið og bætir við, "Ég er stoltur og þakklátur íslensku sérfæðingunum fyrir þeirra stóra þátt í þessu máli." Í útvarpsfréttum í gærkvöld sagði Halldór að hann hefði alltaf vitað að gereyðingarvopn væru í Írak. Og nú væri sönnunin komin.

Auðvitað kemst maður við yfir barnslegri gleði þeirra manna sem studdu árásina á Írak þegar þeir telja sig komna með sönnun fyrir sínu máli. Ástæðan fyrir innrásinni breyttist að vísu nokkuð í tímans ráð en ein meginástæðan var sem áður segir sú ógn sem sögð var stafa af gereyðingavopnum Íraka. Af fréttum að dæma er þetta hins vegar engin sönnun fyrir slíku.

En annað er komið fram í fréttum sem heimspressan gerir heldur meira úr og lítur á sem raunverulega heimsfrétt. Paul O´Neill fyrrverandi fjármálaráðherra í stjórn Bush hefur lýst því yfir að allt frá fyrstu dögum Bush í embætti hafi legið fyrir ákvörðun um að ráðast á Írak. "Finnið fyrir mig ástæður", á forsetinn að hafa sagt. Einnig kemur fram að þegar hafi verið farið að undirbúa stríðsréttarhöld og það sem meira er, ráðstöfun olíunnar. Þetta var löngu fyrir hryðjuverkaárásirnar 11. speptember sem umsvifalaust var logið upp á Íraka. Í fréttum RÚV frá í gær sagði m.a. " Ríkisstjórn Georges Bush Bandaríkjaforseta hóf að leggja á ráðin um innrás í Írak strax eftir að forsetinn sór embættiseið í janúar 2001, ekki eftir hryðjuverkaárásirnar ellefta september það ár, einsog flestir halda. Þetta staðhæfði Paul O´Neil, fyrrverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, í viðtali í þættinum 60 mínútur sem sýndur var vestan hafs í gærkvöld... Undirbúningur innrásar hefði hafist þegar í stað, og drög voru lögð að skipan friðargæsluliðs, og stríðsglæpadómstóla, og ráðstöfun íraskrar olíu. O´Neill segist hafa furðað sig á því að enginn í Þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna skyldi spyrja forsetann hvers vegna nauðsynlegt væri að hernema Írak. Hann hafi viljað það, og það nægði."

Því var líkt farið innan íslensku ríkisstjórnarinnar og í Þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna. Þar var einskis spurt en líst yfir eindregnum stuðningi við árás á Írak og jafnan breytt um áherslur í málflutningi í samræmi við það sem henta þótti í Hvíta Húsinu. Athyglisvert er að fylgjast með heimspressunni nú, því í fyrsta skipti er af einhverri alvöru byrjað að fara í saumana á áformum stríðsæsingamannanna í stjórn Buash.

Sunday Herald segir að samtökin New American Century (sem allir helstu ráðamenn Bush stjórnarinnar hafa verið félagar í) hafi gert áætlun um stjórnarskipti í Írak árið 2000. Í því sambandi má einnig minna á að þessir aðilar skrifuðu Bill Clinton Bandaríkjaforseta á árinu 1998 og hvöttu til innrásar í Írak vegna bandarískra olíuhagsmuna! og ekki má gleyma því að hér eru á ferðinni sömu menn og nú stýra Bandaríkjunum; sömu menn og gerðu alvöru úr því að ráðast á Írak.
Um þetta hefur allt verið fjallað ítarlega m.a.á þessari heimasíðu.

Hér eru slóðir í umfjöllun tveggja erlendra fjölmiðla um atburðarásina nú en þar er jafnframt skírskotað til liðins tíma.
http://www.sundayherald.com/39221
http://www.cbsnews.com/stories/2004/01/09/60minutes/main592330.shtml

 Hér eru einnig nokkrar slóðir á minni eigin heimasíðu þar sem m.a. er víðasð í New American Centyury samtökin og þá heimsvaldastefnu sem þau hafa boðað um sjö ára skeið eða allar götur frá því þau voru sett á laggirnar.
https://www.ogmundur.is/is/greinar/veit-rikisstjorn-islands-hverja-hun-er-ad-stydja
https://www.ogmundur.is/is/greinar/spurningar-til-davids-og-halldors
https://www.ogmundur.is/is/greinar/bandarisk-mannrettindasamtok-lata-ad-ser-kveda
https://www.ogmundur.is/is/greinar/morgunbladsmenn-og-adrir-frettaskyrendur
https://www.ogmundur.is/is/greinar/kennisetning-carters