Fara í efni

Spurningar til Davíðs og Halldórs

Birtist í DV 27.03.2003
Í viðtali um árásirnar á Írak við DV síðastliðinn föstudag segir Davíð Oddsson forsætisráðherra að spurningin snúist um það hvort menn ætli "að standa með okkar helstu bandalagsþjóðum eða í raun með Saddam Hussein..." Þetta þýðir á mannamáli að þeir sem andæfa árásunum á Írak séu stuðningsmenn einræðisherrans Saddams Husseins. Allt sanngjarnt fólk sér að þetta er ósvífin framsetning en hún er líka einfeldningsleg. Yfirgnæfandi meirihluti mannkynsins er mjög andvígur árásunum á Írak. Til marks um það eru skoðanakannanir sem gerðar hafa verið að undanförnu, fjöldamótmæli um heim allan, afstaða meirihluta aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna, samþykktir fjölþjóðlegrar verkalýðshreyfingar, mannréttindasamtaka og alþjóðasamtaka lögfræðinga. Jafnvel nánustu samstarfsríki Bandaríkjanna treysta sér ekki til að fylgja þeim í þessu máli. Er það mat Davíðs Oddssonar að allir þessir aðilar styðji "í raun" Saddam Hussein? 

Hvar eru mörkin dregin? 

Í Kastljósþætti Ríkissjónvarpsins var fyrir nokkru viðtal við Magnús Hallgrímsson sem hefur reynslu af hjálparstarfi í Írak á síðustu árum. Lýsingar hans á afleiðingum stríðsins 1991 voru mjög áhrifaríkar. Hann skýrði meðal annars frá því hvernig sjúkrahús, skólar, vegakerfi, rafmagnskerfi, skólp og vatnsveitur hefðu verið eyðilagðar þannig að fram á þennan dag hefði allt innra stoðkerfi samfélagsins verið í lamasessi. Rekja mætti dauða hundruða þúsunda til þessa. Bandaríkjamenn segjast vera að frelsa írösku þjóðina og þannig réttlæta þeir þá eyðileggingu sem verður af þeirra völdum og er sennilega ennþá stórfelldari en 1991.

Þegar sjónvarpsmyndir frá Bagdad sýndu borgina í logum kom upp í hugann fréttafrásögn frá dögum Víetnamstríðsins. Bandarískar hersveitir höfðu ráðist á þorp með napalmsprengjum, gereytt því og drepið íbúana eða valdið örkuml fyrir lísfstíð. Réttlætingin var sú að frelsa hefði þurft fólkið undan kommúnisma. Gera þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson sér grein fyrir því að Bandaríkjastjórn ver enn þann dag í dag kjarnorkuárásir sínar á Hiroshima og Nagasaki? Hvar draga þeir Davíð og Halldór mörkin í stuðningi sínum við Bandaríkjastjórn? Hafa þessar frásagnir og þetta sögulega samhengi engin áhrif á þá? 

Hver er munur á Írak og Ísrael? 

Ein ástæðan sem talin er réttlæta árás á Íraka er sú að þeir hafi virt að vettugi 17 samþykktir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Það hafa því miður margar aðrar þjóðir gert, svo sem Tyrkland, Indónesía, Marokkó, Króatína, Armenía en engin hefur virt eins margar samþykktir ráðsins að vettugi og Íslrael. Það væri vissulega ástæða til þess að Sameinuðu þjóðirnar kæmu fram af miklu meiri einurð gagnvart Íslrael til að stöðva morð og ofsóknir á hendur óbreyttum borgurum, stórfelldum mannréttindabrotum og ofbeldi. Æskilegt væri að gæslulið Sameinuðu þjóðanna færi á vettvang en ekki gerist ég talsmaður loftárása á Tel Aviv! En hvers vegna ætti ekki að ráðast á Tel Aviv? Hvað er frábrugðið í Írak og Ísrael? Svari forsætis- og utanríkisráðherra því.

Bandaríkjastjórn og breska stjórnin hafa teflt fram ýmsum ástæðum fyrir árásinni á Írak. Fyrst voru það meint tengsl við Al Qaida, síðan að Saddam Hussein  ráði yfir gereyðingarvopnum (þ.e. kjarnorkuvopnum). Hvorugt reyndist rétt. Þegar allt um þraut var einfaldlega sagt að skipta yrði um stjórn; Saddam Hussein væri harðstjóri sem þyrfti að losa þjóðina við. Með öðrum orðum Bandaríkjaher væri að vinna mannúðarverk. Eru þeir Davíð og Halldór sanfærðir um að þetta sé svo? Telja þeir algerlega loku fyrir það skotið að hernaðar- og olíuhagsmunir skipti þarna máli fyrst og fremst? 

Dauði SÞ 

Þrír helstu haukarnir í ráðgjafaráði George Bush Bandaríkjaforseta, Paul Wolfowitz, Donald Rumsfeld og Richard Perle rituðu Clinton þáverandi Bandaríkjaforseta bréf árið 1998 og hvöttu þá til árásar á Írak vegna olíuhagsmuna á svæðinu.

Richard Perle, sem nú er formaður varnarmálaráðsins í Pentagon, hermálaráðuneytinu bandaríska, ritaði grein í breska stórblaðið Guardian 21.mars þar sem hann fagnar því sérstaklega hve illa er komið fyrir Sameinuðu þjóðunum, Guði sé lof fyrir dauða Sameinuðu þjóðanna heitir grein hans (Thank God for the Death of the UN). Eru þetta þau öfl sem við viljum binda trúss okkar við? Eru íslensk stjórnvöld sammála þessari heimssýn? 

Ekkert “stórmál”? 

Í Kastljósþætti Ríkissjónvarpsins sagði Davíð Oddsson að koma þyrfti Saddam Hussein fyrir kattarnef. Með öðrum orðum það þyrfti að drepa hann. Ekki efast ég um að Saddam Hussein er kúgari og einræðisherra. Ekki mun ég gráta hann. En ber alþjóðasamfélaginu ekki að draga slíka menn fyrir rétt? Er það viturlegt að forsætisráðherra Íslands tali með þessum hætti? Og eru það ekki langtímahagsmunir Íslands og þó fyrst og fremst siðferðilega rétt að stuðla að því að deilumál milli ríkja verði  leyst með lögformlegum hætti en ekki með morðum og ofbeldi? Og eru það ekki hagsmunir Íslendinga að styrkja Sameinuðu þjóðirnar í stað þess að taka þátt í því að grafa undan þeim?

Halldór Ásgrímsson utanríkisráherra hefur lýst því yfir að gagnvart Íslendingum og Alþingi sé "þetta ekki meiriháttar utanríkismál". Þegar er farið að herða allt eftirlit hér innanlands og víða heyrast viðraðar áhyggjur yfir því að ríkisstjórn Íslands skuli hafa látið skilgreina okkur í hópi þeirra 30 ríkja heims sem sýna bandaríska herveldinu mestan stuðning í árásinni á Írak. Hverju svara forsætisráherra og utanríkisráðherra því fólki sem telur að þeir sýni ábyrgðarleysi gagnvart öryggi Íslands og Íslendinga?