Fara í efni

AÐ BORÐA BÚDDA

Það er nokkuð um liðið frá því ég las bók Barböru Demic, Að borða Búdda en kem því nú fyrst í verk að fara um hana nokkrum orðum. Geri það eiginlega fyrst og fremst sjálfs mín vegna, skapa mér tilefni til að hugleiða boðskap höfundarins sem lagði ekki lítið á sig til að koma honum á framfæri.
Áður en lengra er haldið langar mig til að  þakka bókaútgáfunni Angústuru sérstaklega fyrir að færa okkur enn eina bókina sem víkkar sjóndeildarhringinn – vissulega minn sjóndeildarhring og hef ég heyrt að margir séu sama sinnis. Angustúra hefur gefið út á íslensku bækur víða að og oftar en ekki opnað lesendum sýn í heima sem okkur flestum eru fjarlægir og framandi.
Að borða Búdda þolir vel að gerjast í huganum. Gátan um bókarheitið rennur upp fyrir lesandanum þegar á líður bókina, nefnilega að Búddalíkneskin var í alvöru hægt að borða því þau voru bökuð úr lífrænum efnum.
En svo er það hin andlega næring, hvernig Búdda, sem uppi var fyrir tvö þúsund og fimm hundruð árum er enn þann dag í dag sameinandi afl og aflvaki með þjóð eða að minnsta kosti þeim hluta hennar sem vill halda saman eða kannski mikilu fremur vill finna samnefnara til samstöðu gegn kúgunarafli.  

Þvinguð glaðværð

 Höfundur og þýðandi bókarinnar, Uggi Jónsson, áttu marga ágæta spretti saman. Þannig er því lýst fyrir lesandanum þegar kínverska nýlendustjórnin telur of langt gengið að þurrka út það sem tíbeskt er og fyrirskipar að tíbeskt myndefni skuli málað á húsin við aðalgötuna í Nagaba: “Veggmyndir af lótusblómum og kuðungum, gullfiskum og sólhlífum bera með sér þvingaða glaðværð. Rauðir málmgluggahlerar í stíl, með upphleyptum búddískum táknum, fullkomna útlitið.”
Nagaba er miðpunktur sögusviðsins. Þangað ákvað höfundurinn, Barbara Bemick, bandarískur stjörnufréttamaður og rithöfundur, að halda. Hún hefur beint athygli heimsins að átakasvæðum þar sem hún hefur gefið hinum andlitslausu andlit og líf, svo kröftugt að okkur finnst við hafa öðlast skilning á örlögum þessa fólks. Það sem dró hana til Nagaba í austanverðu Tíbet voru tíð sjálfsvíg Búdda munka þar sem brenndu sig til bana til að mótmæla því að aldagömul menning þeirra og trú yrði þurrkuð út.  

Samkennd eða samlíðan?

Uggi Jónsson þýðandi notar oft hugtakið samlíðan þegar ég hefði kosið samkennd. Fannst samlíðanin ekki vera nægilega íslensk. Svo komst ég á aðra skoðun og fannst samlíðan hárrétt hugtak, ná betur því sem lýst var. Með öðrum orðum sammála Ugga nema að það þarf að öllum líkindum betri íslenskumann en mig til að útskýra hvers vegna tilfinningin er þessi. En svo ég reyni þá þykir mé samlíðan í senn vera sameiginleg (erfið) reynlsa og samkennd en samkennd er hins vegar bara samkennd. Kannski er ég hér utan vegar.

Ekki ætla ég að rekja frásögn Barböru Demick í þessari bók hennar. Þá frásögn hvet ég hins vegar fólk til að lesa.

Bókin minnir enn eina ferðina á það hve lítið við í raun vitum um örlög margs fólks í veröldinni sem sætir kúgun og ofbeldi án þess að rata að heitið geti í fréttir þeirra fréttamiðla heimsins sem stýra nánast öllu sem þorri mannkyns fær að heyra.

Í þessari bók er ágætlega rakið hvernig ofbeldi miðstjórnarvaldsins í Peking hefur gengið í bylgjum og þá með tilheyrandi mótmælum. Mótmælin risu einna hæst frá því í mars á árinu 2008 og fram eftir því ári. Ekki var eins mikið um þetta fjallað í heimsmiðlunum eins og tilefni var til en talsvert þó og nóg til að efnt var til mótmæla við kínverska Sendiráðið í Reykjavík á fyrri hluta árs 2008 og einnig síðar á árinu. Ég skrifaði þessum mótmælum til stuðnings og mætti til mótmæla við kínverska sendiráðið sumarið 2008. https://www.ogmundur.is/is/greinar/motmaelum-mannrettindabrotum-i-tibet
https://www.ogmundur.is/is/greinar/i-kvold-er-thad-salurinn-i-kopavogi 
Síðan var efnt til eins konar samstöðusamkomu með Tíbetum í Salnum í Kópavogi í ágúst á þessu sama ári. Ein helsta hvatakonan að þessari samkomu var Birgitta Jónsdóttir skáldkona, síðar þingmaður. Lestur bókarinnar varpaði ljósi á atburði sem áttu sér stað á þessum tíma; atburði sem ég nú átta mig á hve fjarlægir og þokukenndir voru okkur í reynd þrátt fyrir góðan vilja til að skilja. Þess má geta að ég flutti ræðu á samkomunni í Salnum sem má nálgast hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/a-thaki-heimsins   

Arftakar Nelsons Mandela og Frans páfi brugðust

Undir lok bókarinnar rekur höfundur hvernig kínverskum stjórnvöldum hefur tekist að kúga ríki heims til að sniðganga Dalai Lama og þótti mér hrikalegt að sjá að arftakar Nelsons Mandela í Suður-Afríku væru í þessum hópi: “Valdhafarnir í Peking vega og meta diplómatíska hollustu annarra ríkja, refsa þeim sem bjóða Hans heilagleika velkominn, umbuna þeim sem gera það ekki. Árið 2014 neituðu yfirvöld í Suður-Afríku Dalai Lama um vegabréfsáritun sem hann þurfti að fá til að geta tekið þátt í fundi friðarverlaunahafa Nóbels. Fundurinn var þá færður og haldinn í Róm þar sem Frans páfi hafnaði því að veita Dalai Lama áheyrn. Einnig Indverjar voru hræddir við Kínverja. Hátíð undir yfirskriftinni “Þakka þér Indland”,sem haldin var árið 2018 í tilefni af sextíu ára útlegð Tíbeta á Indlandi, varð að fara fram í smækkaðri mynd eftir að indversk stjórnvöld höfðu bannað embættismönnum sínum að mæta.”

Var vel tekið á Íslandi

Betur var Dalai Lama tekið hér á landi en hingað kom hann í júní árið 2009. Hélt hann magnaða samkomu í Laugardalshöll þar sem hann flutti eftirminnilega ræðu sem greyptist í huga minn. Karl Sigurbjörnsson þáverandi biskup efndi til guðsþjónustu með Dalai Lama í Hallgrímskirkju og að minnsta kosti tveir ráðherrar í ríkisstjórninni áttu með honum fund, Katrín Júlíusdóttir auk mín. Björgvin Sigurðsson þáverandi þingmaður hitti einnig Dalai Lama að máli en í ráðherratíð sinni hafði Björgvin tekið upp málstað Tíbeta í heimsókn til Kína.
https://www.ogmundur.is/is/greinar/fridflytjandi-heimsaekir-island

Eftrilit og útskúfun

Eitt af því sem mér þótti umhugsunarvert við þennan lestur var hve þróað eftirlitskerfið er orðið í Kína. Sennilega ekkert síður en það bandaríska sem getur hlerað okkur, hvert eitt og einasta okkar. Ekki aðeins getur heldur gerir það óspart. Barbara Demick segir þá sögu sem við heyrum nú alls staðar að, nefnilega hvernig Kóvid-plágan hafi verið nýtt til að efla eftirlit með almenningi. Þar hafi kínversk stjórnvöld ekki látið sitt eftir liggja:
“Stjórnarhættir valdhafanna eru þegar svo fulllkomnir, eftirlit þeirra með stafrænum samskiptum svo ítarlegt, eftirlitsmyndavélarnar alls staðar, rakning lífkennaupplýsinga um þjóðina svo þróuð að þeir hafa nánast hnökralausa reglu og stjórn á öllu … Gert var ráð fyrir því að árið 2020 yrðu 626 milljónir efirlitsmyndavéla  í notkun í Kína – ein á hverja tvo íbúa … Framfarir í andlitsskönnun hafa þegar gert öryggisfyrirtækjum kleift að bera kennsl á fólk sem tekur þátt í mótmælum, gengur yfir á rauðu ljósi eða stekkur yfir hverfihlið til að koma sér hjá greið slu. Í Ngaba og á öðrum svæðum í Tíbet hafa frá árinu 2015 verið gefin út ný almannatryggingaskírteini sem hafa að geyma ítarlegar lífkennaupplýsingar, svo sem lithimnuskannanir, til að bera kennsl a fólk. Verið er að þróa “samfélagslegt inneignarkerfi”  sem gerir yfirvöldum fært að refsa brotafólki umsvifalaust með því að ógilda réttindi á borð við að geta keypt lestarmiða.”

Kviknar á skilningsperunni – en aðeins örskotsstund

Allt þetta kemur upp í hugann við lestur bókarinnar Að borða Búdda. Upp rennur fyrir mér hve lítið maður hefur vitað annað en það sem ráða má af fréttabrotum sem okkur berast af yfirborði atburðanna. Af og til berast þó fréttir og það logar á skilningsperu heimsins eitt augnablik en ekki meira en svo að þegar skammvinnri fréttahrinunni er lokið er hætt við að allt falli í gleymskunnar dá.
Sumir eiga erfitt með að komast upp úr gömlum hjólförum og minnast þess hvernig bandaríska leyniþjónustan hefur alla tíð, frá því á sjötta áratug síðustu aldar, verið einhvers staðar nærri til að grafa undan kínverskum stjórnvöldum í gegnum baráttu Tíbeta. Þá er á það minnt að tíbeskt þjóðfélag var síður en svo skipulagt í anda jafnréttis og af hálfu kíverskra yfirvalda sé ekki allt illt. Það breytir hins vegar ekki því að stjórnvöld í Kína hafa beitt sér í Tíbet í anda harðsvíraðra nýlenduvelda og troðið á mannréttindum og er sú bók sem við ræðum hér vitnisburður þar um. Þetta er enn einn vitnisburðurinn um að réttlæti verður aldrei komið á með ranglæti. Útkoman getur aldrei orðið annað en ranglát.    

Höfundur bókarinnar Að borða Búdda á lof skilið fyrir þessa bók. Hún birtir ekki allan sannleikann fremur en bækur yfirleitt gera en hún hjálpar okkur að skilja hlutskipti fjarlægrar þjóðar; hlutskipti sem liggur í alltof miklu þagnargildi.