Fara í efni

Á ÞAKI HEIMSINS

Ræða á fundi sem Vinir Tíbets stóðu fyrir í Salnum í Kópavogi  24.08.08.

Fyrst man ég eftir fréttum frá Tíbet árið 1959. Þá var ég 11 ára. Einu ári eldri en Kínverska Alþýðulýðveldið. Tíbetar höfðu gert uppreisn gegn  valdhöfunum í  Peking, sem innlimað höfðu land þeirra.  Mér eru minnisstæðar spennuþrungnar fréttir af flótta trúarleiðtogans Dalai Lama úr landi og ofbeldisfullum aðgerðum gegn þeim sem risið höfðu upp.  Enda þótt uppreisnin hafi verið bæld niður bárust fréttir af og til á næstu árum til Vesturlanda af andófi og harkalegum aðgerðum hers og lögreglu.

Málsvarar hins unga Kínverska Alþýðulýðveldis sögðu okkur að hafa allan vara á og ekki trúa sem nýju neti öllu því sem að okkur væri haldið um Tíbet. Varla gæti það verið ásetningur okkar að sjá í gegnum fingur við bandaríska auðvaldið,  sem beitti öllum brögðum til að koma á að nýju samfélagsskipan, sem byggði á misrétti og mismunun og hefði tekið saman við öfl sem ættu meira erindi við fortíð en framtíð; hvort við ætluðum að taka afstöðu með heimskapítalinu og gömlum yfirstéttaraðli  eða þeirri byltingu sem nú væri í dögun um heiminn allan? Kínverska hernum í Tíbet væri ekki stefnt gegn frelsinu - heldur með því; hann væri frelsandi afl gegn misréttissamfélagi fortíðar.  Og við vorum minnt á að horfa til þess að bandarísku heimsvaldasinnarnir styddu hina andfélagslegu útlagastjórn á Formósu, Taiwan, málsvara auðvaldsaflanna í þessum heimshluta, sem vel að merkja gerðu tilkall til yfirráða yfir öllu því svæði sem teldist til Kínverska Alþýðulýðveldisins, þar með talið Tíbets. Okkar væri valið; okkar væri að taka afstöðu. Hvort vildum við kapítalismann eða kommúnismann?  

Þetta reyndist sumum erfitt val.
En svo leið tíminn. Valið sem okkur var sagt að við stæðum frammi fyrir varð með árunum smám saman óskýrara.  Nixon fór til Kína.  Talað var um þíðu milli Peking og Washington.  Kínverjar fóru að drekka Pepsí og þegar aldarlokin nálguðust var Kína orðið eitt afkastamesta vinnupláss heimsins - ekki bara verkstæði  sem sögur fóru af fyrir aga og framleiðni á vildarprís, heldur var Kína að verða neyslumarkaður fyrir heiminn allan.  Og nú fóru menn að leggja saman.  Eitt þúsund og þrjú hundruð milljónir!  Það eru margar vinnandi hendur og  margir munnar að seðja  og margir kroppar að klæða. Ég tala ekki um þegar allir fara í bíó, kaupa útvarp og fá sér ísskáp og bíl. Þarna var framtíðin.  Menn þurftu ekki að kunna mikið í reikningi til að sjá það.  Fram á tíunda áratuginn var enn endrum og eins minnst á mannréttindi í Tíbet á Vesturlöndum. Það gerði Clinton t.d. í kosningabaráttunni 1991. Svo náði hann kjöri og gerðist handhafi  hagsmunanna. Þeirra hagsmuna sem njóta  góðs af ódýru vinnuafli og markaði sem ekki bara kaupir Pepsí  heldur tekur af lífi og sál þátt í lífsgæðakapphlaupi markaðsþjóðfélagsins.  Kína var að koma til, sögðu menn. Nú mætti ekki rugga bátnum. Það borgaði sig ekki. Það væri hreinlega óskynsamlegt. Fyrst þurfa Kínverjar  að rísa undir sjálfum sér. Svo skulum við tala um lýðræði og frelsi. 
Aldrei aftur minntist Clinton á Tíbet. Nú var raunsæi komið á dagskrá. Raunsæi og skynsemi. Menn töluðu um hina skynsömu raunsæismenn í Peking.  Og hjá verslunarráðunum, atvinnurekendasamtökunum,  hvort sem var í London, París, Tokyo eða Washington  fengu þeir lof og prís fyrir að færa Kína yfir í nútímann.  Á ýmsum sviðum hefðu Kínverjar jafnvel gert betur en allir aðrir. Þannig væri aðdáunarvert hvernig þeim tækist að halda vinnumarkaðnum friðsælum - trouble free - ekki samkvæmt skilgreiningum Amnesty International, meira í  ætt við vinnulagið hjá Impregíló, nema bara ennþá betra.

Í aðdáunarkórnum eru margar íslenskar raddir. Og sennilega er leitun á stjórnvaldi í heiminum öllum sem gengið hefur eins langt og íslenska ríkisstjórnin gerði þegar forseti Kína heimsótti Ísland fyrir nokkrum árum. Mótmæli voru bönnuð og farið að ítrustu skipunum Kínaforseta, sem ekki vildi sjá gult né nokkuð sem minnti á stöðu mannréttinda í Kína meðan á heimsókninni stóð. Þegar kínverska sendiráðið varaði við því að félagar í kínverskum útlaga- og andófshreyfingum kynnu að koma til Íslands  til að vekja athygli á mannréttindabrotum í Kína í tengslum við heimsóknina þá var brugðist skjótt við.
Vörður var settur í öllum flughöfnum sem flogið var til Íslands frá. Fyrirmælin voru skýr: Engum skáeygum manni skyldi hleypt í gegnum hlið Flugleiða nema fullljóst væri að hann hefði ekkert við mannréttindi í Kína að athuga. En til vara var gagnfræðaskólanum í Njarðvík breytt í fangabúðir sem allir ferðamenn sem litu út eins og Kínverjar voru umsviflaust fluttir í við komu þeirra til Íslands. Allur þótti varinn góður. Alræðisstjórnin í Kína hreifst mjög af þessum vinnubrögðum og heldur nú hverja tignarmóttökuna á fætur annarri  - væntanlega í þakklætis- og virðingaskyni - fyrir fulltrúa lands vors og þjóðar, forseta og ráðherra, sem lögðu leið sína á Olympíuleikana í Peking í trássi við óskir mannréttindasamtaka.

Ég er ekki mjög fróður um Tíbet. Nokkuð hef ég þó reynt að lesa mig til. Ég hef til dæmis lesið um nauðungarflutninga á fólki,  gamalkunnugt herbragð úr mannkynssögunni þegar valdhafar hafa freistað þess að sundra og veikja þjóðir sem vilja ráða sér sjálfar.  Ég hef líka lesið um það á einhverjum vefnum að í Tíbet séu að staðaldri tvö hundruð þúsund kínverskir hermenn, úr Frelsishernum einsog vefurinn segir að hann heiti.  Eflaust eru hermennirnir fleiri nú því mikið liggur við að halda landinu „trouble free" meðan allir útlendu ráðherrarnir og  forsetarnir eru að spóka sig í Peking baðaðir í kastljósum fjölmiðlanna. 

Tíbet er stórt land, ægifagurt, fjöllótt, risavaxin háslétta, stundum kallað Þak heimsins. Það er ekki heiglum hent að fara um þetta þak. Hvað þá ef fara þarf leynt, ferðast um nætur, jafnvel án búnaðar, með litlar vistir og skjóllítil klæði. Flóttamenn frá Tíbet, sem farið hafa yfir Himalaja hrygginn til Nepal og Indlands hafa lýst því hvernig þeir hafi vart trúað sínum eigin augum þegar þeir  - við sólarupprás  - litu yfir farinn veg og gerðu sér grein fyrir hve hættuleg næturgangan hafði verið um þverhnípt björgin.

Fyrr í sumar átti ég samræður við tíbetskan flóttamann sem flúið hafði heimaland sitt. Ákvörðunin um að flýja hafði reynst honum erfið.  En að því kom að hann gat ekki meira. Var tilbúinn að leggja allt í sölurnar fyrir frelsið.  Frásögn hans  var áhrifarík.  Flóttinn tók marga mánuði, í tvígang var hann handtekinn. Þegar hann var tekinn í seinna skiptið var allur hópurinn hnepptur í varðhald.  Þau voru tuttugu talsins. Þeim var haldið í 10 daga, öll í sömu herbergiskompunni, börn, konur, karlar  og gamalmenni, án aðgangs að salerni og sættu mörg þeirra pyntingum.  Þegar viðmælandi minn losnaði úr haldi, gerði hann, svo fljótt sem hann átti þess kost, þriðju flóttatilraunina.  Hún heppnaðist  en eftir mánaðarlangt erfitt og hættulegt ferðalag. 

Árlega tekst nokkrum þúsundum manna að flýja Tíbet. Þeir eru fleiri sem reyna  en tekst ekki. Sumir eru skotnir til bana á flóttanum, aðrir eru handteknir.  Þá missa margir móðinn. Það er meira en að segja það að leita frelsisins á þaki heimsins.  Hættast er börnunum.  Klæðalítil og svöng kelur þau iðulega á höndum og fótum í frosthörkum háfjallanna. Gamalmenni og börn eru viðkvæmust. Samt flýja þau. Hvers vegna skyldu foreldrar senda börn sín á flótta?

Getur verið að valið standi ekki  á milli Peking og Taiwan og ekki heldur á milli kommúnisma og kapitalisma, Kína og Bandaríkjanna. Kannski stóð valið aldrei þarna á milli. Getur verið að valið sé á milli frelsis og kúgunar; á milli þess annars vegar að þegja og láta ofbeldi óátalið og hins vegar að taka afstöðu gegn ofbeldi, með mannréttindum og með frelsi?

Einu sinni börðust Íslendingar fyrir sjálfstæði. Við vildum vera frjáls. Af hverju eigum við nú að berjast fyrir frelsi annarra? Er það af samúð eða er það vegna þess hve dyggðug við eigum að vera? Auðvitað á það að vera okkur keppikefli að vera dyggðug og réttsýn.  En dyggðirnar eiga sér líka stærri tilgang en virðist við fyrstu sýn. Benjamín Franklín sagði að við ættum að sækjast eftir því að vera dyggðug ekki af því að við vildum vera betri en aðrir heldur vegna þess að það væri okkur öllum í hag. Það væri niðurstaða mannkynsins á milljón ára ferli. Stundum hvarflar að manni að mesta hættan sem stafi að mannkyninu sé ekki mengun loftsins heldur mengun hugarfarsins. Að siðferðileg hnignun geti orðið mannfélögunum að fjörtjóni.  Að barátta gegn kúgun og ofbeldi, að barátta fyrir frelsi, að barátta fyrir sanngirni, heiðarleika, sé í raun baráttan fyrir því að komast lífs af.  Það að láta hjá líða að berjast gegn kúgun og ofbeldi er uppgjöf  og andlegur dauði. Og sú uppgjöf ber í sér dauða, stríð og hörmungar fyrir þjóðirnar og mannfólkið allt. Siðleysinu fylgir óöld og ofbeldi og á sama hátt og sagt er að orð vaxi af orði þá vex ofbeldi af ofbeldi.

Þess vegna er samfélag þeirra sem samþykkja ofbeldi og kúgun, samfélag uppgjafar, samfélag ótta, samfélag svartsýni. Baráttan gegn kúgun og rangindum er hins vegar barátta vonar og sú barátta er bjartsýn. Þegar slík barátta hefst er  fyrsti sigurinn þegar unninn, því sigurinn er í baráttunni sjálfri.

Kæru vinir. Við erum að lýsa lífsviðhorfi. Við erum að lýsa þeirri von að maðurinn geti verið meira en samsafn kúgara og hinna kúguðu. Við erum að segja svartsýninni stríð á hendur. Við trúum ekki á þau rök að tímabundið ranglæti geti verið skynsamlegt, né heldur raunsætt. Við höfum séð að samfélag dyggða, frelsis, jafnréttis og góðs siðferðis hefur ávallt lýst veginn í sögu mannsins.  Þegar kínversk stjórnvöld segja að regla sé grundvöllur réttlætis og fyrst þurfi að tryggja hitt og svo þetta, áður en frelsi og réttlæti geti komist á þá eru það öfugmæli. Það er réttlæti sem er grundvöllur reglu. Lög sérhvers samfélags eiga ekki að vera annað en skjalfest niðurstaða almennrar samstöðu.

Þegar íslensk stjórnvöld fangelsuðu gagnrýnendur kínversku alræðisstjórnarinnar, þá voru þau að fangelsa alla þá sem haldið hafa á loft baráttufánum frelsisins.  Þau voru ekki bara að fangelsa fulltrúa hinna róttæku baráttuafla, fulltrúa þeirra Rósu Luxemburg og Emmu Goldman heldur líka fulltrúa kenningarsmiða hins borgarlega samfélags,  fulltrúa þeirra Johns Stuarts Mill, Johns Locke og annarra baráttumanna fyrir frjálsu og lýðræðislegu þjóðfélagi. En þau skildu ekki eigin gjörðir. Þau komu ekki auga á mótsagnirnar í orðum sínum og athöfnum.  Þau hreykja sér af því að byggja á skoðunum þeirra sem þau síðan fangelsa fyrir að láta þær í ljós; Þau mæra frelsið  en breyta einsog ríkisstjórn í alræðisríki.  Þau telja sig fulltrúa skynsemi, en eru í raun fulltrúar skilningsleysis.

Við erum hér saman komin í anda bjartsýni og vonar. Við vitum að án vonar og bjartsýni er ekkert líf, án réttlætis og frelsis ekkert samfélag. Þess vegna er vonin raunsæ og bjartsýnin skynsöm.
En þrátt fyrir þessi sannindi byggir afstaða okkar ekki á neinum útreiknuðum skynsemisrökum. Þaðan af síður raunsæi eða flókinni heimspeki.
Mitt val byggir á því að taka afstöðu  með viðmælanda mínum frá í sumar, með þeim sem vill hrista af sér hlekki ánauðar til að verða  frjáls maður. Með honum tek ég afstöðu.
Ég tek afstöðu með þeim sem vilja búa börnum sínum framtíð í frelsi.
Ég tek afstöðu með þeim sem hvergi komast og einnig hinum sem lagt hafa land undir fót út í óvissuna.
Ég tek afstöðu með gamla manninum sem setið hefur í fangelsi í tuttugu ár. Og líka hinum sem fangelsaður verður á morgun.
Ég tek afstöðu með unglingsstúlkunni og litla drengnum sem núna eru köld og kalin að leita að frelsinu á Þaki heimsins.
Svo einfalt er það.
Þess vegna  vel ég að ljá rödd mína frelsisbaráttu Tíbets.