Fara í efni

MÓTMÆLUM MANNRÉTTINDABROTUM Í TÍBET


Ekki linnir ofsóknum og mótmælum í Tíbet. Ég hef hvatt íslensk stjórnvöld til að bregðast við og fyrir hönd þingflokks VG hef ég óskað eftir fundi í utanríkismálanefnd Alþingis um málið. Til þess fundar hefur ekki enn verið boðað. Oft læðist að mér sá grunur að íslensk stjórnvöld geri einvörðungu það sem þau telja borga sig hverju sinni. Það á vissulega við um fleiri. Þannig þegja iðnríki heimsins nú þunnu hljóði þótt öllum séu ljósar aðfarirnar í Tíbet enda hugsa fjármálamenn gott til glóðarinnar; ekki enn séð fyrir endann á þeirri gósentíð kapitalista sem óspart hafa nýtt sér þá risavöxnu þrælakistu sem þeim hefur staðið opin og til afnota í Kína á undanförnum árum. Til mín hafa skrifað einstaklingar sem minnt hafa á söguna, misskiptingu í Tíbet, afskipti bandarísku leyniþjónustunnar á sínum tíma þar sem hagsmunir alþýðu manna hafi ekki verið hafðir að leiðarljósi. Allt kann þetta að vera rétt. Hitt er líka rétt að unnið hefur verið að því leynt og ljóst að kyrkja menningu og sjálfstæði Tíbeta. Að mínum dómi er útilokað að verja ógnarstjórn og ofbeldi sem kínversk yfirvöld eru nú uppvís að - og hafa lengi verið - gagnvart landsmönnum.
Meðfylgjandi er fréttatilkynning um mótmælafund við kínverska sendiráðið laugardaginn 22. mars klukkan 13. Því miður verð ég fjarverandi en vil leggja mitt af mörkum með því að vekja athygli á  fundinum.

Fréttatilkynning:
Mótmælum mannréttindabrotum í Tíbet.

Tíbet hefur verið lokað af, fjölmiðlafólki og ferðamönnum hefur verið vísað frá landinu. Símasamband og netsamband verið rofið. Herlögum hefur verið komið á og fólk handtekið fyrir þá einu sök að eiga mynd af trúarleiðtoga sínum, Dalai Lama í fórum sínum.

Undanfarið hafa mikil mótmæli brotist út í Tíbet, þau mestu í sögu landsins. Í það minnsta 1000 manneskjur hafa verið handteknar í Lhasa. Þeir sem þekkja til mannréttindabrota kínverskra yfirvalda vita að þetta fólk mun sæta miklu ofbeldi í fangelsunum. Dæmi eru um það að munkar hafa fremur skorið sig á púls en að þurfa að sitja undir þeim pyntingum sem bíða þeirra í kínverskum fangelsum.

Á laugardaginn 22. mars klukkan 13, boðum við til mótmæla fyrir utan kínverska sendiráðið. Tilgangur mótmælana er tvíþættur: Að þrýsta á kínversk yfirvöld að virða mannréttindi Tíbeta og hleypa alþjóðlegum mannréttindasamtökum inn í landið og sýna Tíbetum stuðning í þeirra baráttu fyrir frelsi í sínu eigin landi."