Fara í efni

HEIMILDIR OG LÖGSAGA BANDARÍSKU ALRÍKIS-LÖGREGLUNNAR Á ERLENDRI GRUNDU

Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum komu bandarískir alríkislögreglumenn til Íslands, árið 2011, og settu sig í samband við íslensk lögregluyfirvöld, í þeim tilgangi að afla gagna og rannsaka mál. Eftir að innanríkisráðherra bárust upplýsingar um þetta var endir bundinn á heimsókn alríkislögreglumannanna sem hurfu af landi brott í kjölfarið.
Málið beinir sjónum að starfsemi bandarísku alríkislögreglunnar (hér eftir nefnd FBI) og þeim valdheimildum sem hún hefur á erlendri grundu, samkvæmt bandarískum lögum.

Lögsaga

Hugtakið lögsaga (jurisdiction) vísar til valds á ákveðnu svæði eða valds yfir tilgreindum hópi einstaklinga. Lögsaga felur í sér lagaheimildir til þess að beita valdi eða leiða ágreining til lykta fyrir dómstólum. Lögsaga getur verið á sviði opinbers réttar (sakamál) eða einkamálaréttar s.s. á sviði viðskipta. 
Í alþjóðarétti má reisa lögsögu á mismunandi forsendum. Ríki þar sem afbrot er framið hefur að jafnaði landfræðilega lögsögu (territorial jurisdiction) í því máli. Lögsaga getur þó einnig byggst á þjóðerni afbrotamanns (active personality principle) og þjóðerni fórnarlambs (passive personality principle). En þessar reglur eru almennt viðurkenndar sem grundvöllur lögsögu í alþjóðarétti (sbr. customary international law). Enn fremur þekkist að lögsaga sé byggð á framlengingu" lögsögu ákveðins ríkis til annars ríkis (extraterritorial jurisdiction). En í samkeppnisrétti hefur stundum verið við það miðað hvar áhrif af lögbroti koma fram (sbr. effect doctrine of jurisdiction). Samkvæmt þessari reglu getur ríki, þar sem afleiðingar afbrotsins koma fram, krafist lögsögu yfir aðila (aðilum) sem framið hafa afbrot, enda þótt meintir brotamenn séu staðsettir annars staðar eða séu ríkisborgarar annars ríkis.
Þessu til viðbótar má nefna lögsögu yfir glæpum, s.s. stríðsglæpum, sem taldir eru svo alvarlegir að þeir varði allt mannkyn. Þar er um að ræða svo kallaða „allsherjar lögsögu" (universal jurisdiction). Slík lögsaga felur í sér að hvaða ríki sem er getur krafist lögsögu í viðkomandi máli. En ljóst má vera að nefndar reglur um lögsögu byggja á því að til staðar sé ákveðin tenging á milli afbrots annars vegar og viðkomandi ríkis hins vegar sem gerir kröfu um lögsögu vegna málsins (afbrotsins) sem um ræðir.

Alþjóðaréttur og valdheimildir FBI

FBI getur fyrir atbeina forseta Bandaríkjanna, eða að frumkvæði dómsmálaráðherra, beitt lagalegu valdi sínu til þess að rannsaka og handtaka einstaklinga fyrir meint brot gegn bandarískum lögum. Á það við jafnvel þótt slíkt brjóti gegn alþjóðarétti. Þá hefur forsetinn, í gegnum dómsmálaráðherrann, stjórnskipunarlegt vald til þess að beita FBI til þess að rannsaka og handtaka einstaklinga fyrir brot gegn bandarískum lögum. Beiting bandarískra laga gagnvart öðrum ríkum (extraterritorial law enforcement) sem heimiluð er samkvæmt landslögum er ekki útilokuð jafnvel þótt hún kunni að brjóta gegn alþjóðasáttmálum, eða einstökum greinum þeirra, s.s. 4. mgr. 2. gr. Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna.[i] En handtaka sem ekki samræmist alþjóðarétti eða lögum annara ríkja brýtur ekki gegn fjórðu breytingu (Amendment IV) stjórnarskrár Bandaríkjanna. Það er hins vegar ljóst að árekstrar kunna að verða þegar ríki neita að viðurkenna lögsögu FBI, eða bandarískra yfirvalda, á erlendri grundu eða yfir erlendum ríkisborgurum. FBI sækir rannsóknarheimildir sínar til 28. lagabálks, 1. mgr. 533. gr. alríkislaga [„United States Code" U.S.C. §533(1)]. Þar segir svo: „Dómsmálaráðherra getur skipað embættismenn til þess að afhjúpa og lögsækja glæpi gegn Bandaríkjunum."[ii]
Handtökuheimildir
sínar sækir FBI hins vegar til 18. lagabálks, 3052. gr. sömu laga [„United States Code" U.S.C. §3052] sem kveður m.a. á um að yfirmenn og lögreglumenn FBI megi bera skotvopn, fylgja handtökuskipunum og handtaka aðila án handtökuskipunar þegar brot gegn Bandaríkjunum eru framin í návist þeirra.[iii]

Réttarbeiðnir

Með réttarbeiðni (commission rogatoire) er átt við beiðni til erlendra yfirvalda um réttaraðstoð, þegar ekki er til staðar milliríkjasamningur eða sérstakur samningur á milli ríkja (executive agreement). Sé ráðist í rannsókn máls á erlendri grundu án réttarbeiðni kann það að brjóta gegn fullveldi þess ríkis sem rannsóknin nær til.
Hugtakið réttarbeiðni er skilgreint í 22. bálki, gr. 92.54, reglugerðar bandaríska alríkisins (Code of Federal Regulations) sem fjallar um erlend samskipti. En þar segir svo: „Í víðari skilningi þess samkvæmt alþjóðavenju, merkir hugtakið réttarbeiðni formlega beiðni frá dómstóli þar sem mál er í bið, til erlends dómstóls til að fá úrlausn. Sem dæmi eru beiðnir um öflun sönnunargagna, birting á stefnum, vitnastefnum eða öðrum lagalegum gögnum, eða fullnustu á einkaréttarlegum dómi. Í Bandaríkjunum hafa réttarbeiðnir almennt verið notaðar einvörðungu í þeim tilgangi að afla sönnunargagna. Beiðnir hvíla algjörlega á „góðvild dómstóla" [comity] gagnvart hvor öðrum og fela venjulega í sér gagnkvæmt loforð. Lagaleg merking skjala sem gefin eru út erlendis, til notkunar í dómsmálum í Bandaríkjunum, og gildi útgáfunnar, eru ákveðin af dómsmálayfirvöldum þeirrar bandarísku lögsögu þar sem mál er rekið, samkvæmt gildandi lögum í sömu lögsögu."[iv] Þetta felur í sér að réttarbeiðni byggist á samkomulagi yfirvalda í þeim ríkjum sem um ræðir. Enn fremur að bandarískur dómstóll, sem mál hefur til meðferðar, ákveður hvort erlend málsgögn eru tekin gild vegna málaferlanna.

Nokkrar slóðir

http://www.kentlaw.edu/cyberlaw/docs/rfc/euview.html

http://www.humanrightsinitiative.org/index.php?option=com_content&view=article&id=99&Itemid=112

http://www.newsmax.com/Newsfront/Benghazi-Tunisia suspectaccess/2012/11/02/id/462632

https://www.eff.org/deeplinks/2011/10/fbi-ramps-its-next-generation-identification-roll-out-winter-will-your-image-end

http://www.infosecisland.com/blogview/21907-FBI-More-Arrests-in-International-Cyber-Crime-Takedown.html

http://www.justice.gov/oig/reports/FBI/a0418/chap1.htm

http://www.rainn.org/public-policy/sexual-assault-issues/cruise-ship-safety

http://www.judiciaryreport.com/the_fbi_is_unlawfully_operating_in_foreign_countries.htm

http://www.althingi.is/lagas/140b/2007072.html


[i]     http://www.un.org/en/documents/charter/chapter1.shtml

[ii]    http://www.gpo.gov/fdsys/pkg/USCODE-2011-title28/html/USCODE-2011-title28.htm

[iii]   http://www.gpo.gov/fdsys/pkg/USCODE-2011-title18/html/USCODE-2011-title18.htm

[iv]   http://www.gpo.gov/fdsys/pkg/CFR-2006-title22-vol1/xml/CFR-2006-title22-vol1-sec92-54.xml