Fara í efni

YFIRLÝSING UTANRÍKISRÁÐHERRA UM RÉTTLÆTI Í HEIMSVIÐSKIPTUM

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgunblaðinu 07.08.08.
Þegar fréttir bárust frá Alþjóðaviðskiptastofnuninni í Genf um að slitnað hefði upp úr Doha-viðræðunum svokölluðu varð uppi fótur og fit hjá Samfylkingunni á Íslandi. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður, hafði skýrt það út fyrir okkur í nokkrum fréttatímum að framundan væri mikil gósentíð því nú stefndi í að bönn yrðu sett við niðurgreiðslum á landbúnaðarvörur, allavega umtalsverðar hömlur, og atlaga gerð að verndartollakerfinu í heiminum. Sérstaklega væri þetta gott fyrir okkur Íslendinga því hvergi væri bændum veittur annar eins stuðningur og hér. Þannig skildi ég varaformanninn. Síðan fylgdi - samkvæmt venju - eitthvað um að fráhvarf frá stuðningi við bændur væri sérstaklega gott fyrir þá stétt. Rímuðu þessar yfirlýsingar prýðilega við frjálshyggjukratatóninn í Moggaleiðara sem hafði það eftir ríkum íslenskum bónda að samkeppni við útlönd væri frábærlega eftirsóknarverð. Bara stækka búin og verða „alvöruatvinnugrein".

Harmafregn frá Genf

Nema hvað. Doha-viðræðurnar sigldu í strand. Hvað var til ráða? Ekki þótti minna duga en að formaður Samfylkingarinnar kveddi sér nú hljóðs. Og þar sem Ingibjörg Sólrún er nú einu sinni utanríkisráðherra Íslands var hægt að slá tvær flugur í einu höggi, tala til Íslendinga og senda yfirlýsingu til heimsbyggðarinnar um hvílíkur harmur væri nú að öllu mannkyni kveðinn: „Gullið tækifæri" væri fyrir bí til að koma á „réttlátari heimsviðskiptum til hagsbóta fyrir alþýðu manna bæði í þróunarríkjum og í iðnríkjum". Í yfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar segir ennfremur: „Brýnar aðstæður nú fela í sér að opin heimsviðskipti, ekki síst með landbúnaðarvörur, eru í senn áríðandi mannúðarmál og lykill að því að draga úr áhrifum efnahagskreppu í heiminum. Mikilvægt er að þrátt fyrir allt náðist að margra mati meiri árangur á síðustu níu dögum við samningaborðið en samanlagt á þeim sjö árum sem Doha-viðræðurnar hafa staðið. Nú er nauðsyn að byggja á þeim árangri og halda áfram."

Markaðshyggja í þágu alþýðu manna?

Hvað eru varaformaður og formaður Samfylkingarinnar eiginlega að fara? Þau hræra saman áralangri deilu um skipulag á landbúnaðarframleiðslu á Íslandi og baráttu fátækra landa fyrir að koma útflutningsvörum sínum á heimsmarkað án skilyrða. Látið er líta svo út sem íslenski bóndinn sé helsti dragbítur á tilraunir þriðja heimsins til að hefja sig upp úr fátækt. Hvers kyns stuðningur við landbúnað er eitur í beinum þessara talsmanna Samfylkingarinnar og „áríðandi mannúðarmál" að knýja þar fram breytingar svo „opin heimsviðskipti" geti farið fram. Eftir því sem ég skil málið hefur sú deila innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem snýr að landbúnaði staðið um réttmæti þess að viðhalda styrkjakerfi í landbúnaði og síðan þá kröfu fátækra ríkja að þróuð iðnríki hleypi þeim tollalaust inn fyrir landamæri sín með landbúnaðarvörur, sykur, kaffi, bómull og aðra hefðbundna framleiðsluvöru. Þetta er nokkuð sem Íslendingar hafa gert fyrir löngu gagnstætt því sem t.d. á við um Evrópusambandið. Hér eru nánast engir tollar á þessum varningi.
Núna virtust iðnríkin ætla að gefa eftir hvað varðar innflutningstolla en gegn því skilyrði að þau fengju þá greiðari aðgang að mörkuðum fátækra ríkja með iðnvarning sinn. Þetta kváðust hinir snauðu ekki geta sætt sig við. Þá vildu fátæku löndin einnig halda í heimildir til að verja eigin matvælaframleiðslu „í öryggisskyni" (special safety measures) með tollamúrum. Rökin voru þau að aðstöðu hinna ríku annars vegar og hinna snauðu hins vegar væri ekki saman að jafna og af því yrði að hafa hliðsjón við samningsgerðina.
Þetta eru röksemdir sem peningafrjálshyggjufólk gefur lítið fyrir. Það heimtar að allt verði sett á markað. Ekki síst landbúnaðarvörur. Og burt með alla styrki úr matvælaframleiðslunni. Hvers vegna styrkja mjólkurframleiðslu? Hvers á kók að gjalda? Á markaði eiga allir að sitja við sama borð. Fullyrt er að það væri „til hagsbóta fyrir alþýðu manna". En er það svo?

Höfundur er þingmaður.