Fara í efni

Voru þetta flón, Jón?

Birtist í Mbl
Það er ástæða til þess að bjóða Jón Kristjánsson velkominn í stól heilbrigðisráðherra og óska forvera hans, Ingibjörgu Pálmadóttur, velfarnaðar. Bæði fyrrverandi og núverandi heilbrigðisráðherra eiga það án efa sammerkt með flestu ef ekki öllu öðru fólki að vilja láta gott af sér leiða. En þeim sem öðrum eru mislagðar hendur. Ráðherrar geta ánetjast hugmyndakreddum sem ekki reynast farsælar og ráðherrar geta einnig verið háðir misvitrum ráðgjöfum. Á ráðgjafana reynir sérstaklega í verkefnum sem kosta mikla yfirlegu. Slíkt átti án efa við um samninginn sem gerður var við fyrirtækið Öldung hf. um rekstur dvalarheimils fyrir aldraða í Sóltúni 2 í Reykjavík. Margir hljóta að hafa komið að þeim málatilbúnaði og úr fleiri ráðuneytum en einu. Ekki er mér kunnugt um hverjir þessir ráðgjafar voru en áhugavert væri að fá það fram í dagsljósið ekki síst með hliðsjón af þeirri staðreynd að margir helstu ráðgjafar ríkisstjórnarinnar í einkavæðingu eru sjálfir á kafi í atvinnurekstri og eiga ítök í fyrirtækjum sem hafa hagnast á einkavæðingunni.

Öldrunarstofnunum gróflega mismunað.

Öldungur hf. er sakleysislegt en jafnframt virðulegt samheiti yfir fyrirtæki sem verið hefur í eigu Aðalverktaka hf. og Securitas. Dvalarheimilið í Sóltúni 2, sem Öldungur hf. mun reka samkvæmt samningi sem heilbrigðisráherra gerði á síðasta ári, fær góðan heimanmund frá skattborgurum og er vel í stakk búið til að sinna sínum verkefnum. Samkvæmt heimanmundinum á það að geta skilað eigendum sínum, fjárfestunum, góðum hagnaði gagnstætt öðrum sambærilegum stofnunum. Arðsemiskröfur eru "eðlilegar" sagði Ríkisendurskoðun í rannsóknarskýrslu sinni um samninginn við Öldung hf. Varð mörgum á að spyrja þegar sú skýrsla birtist hvers þær ættu að gjalda sjálfseignarstofnanirnar á borð við DAS, Grund, Sunnuhlíð, Skjól, Eir og fleiri sem ekki fá reiknaðan neinn slíkan hagnað þegar skattfé er veitt til þeirra. Og ekki nóg með það því þessum stofnunum og öðrum sem hér voru taldar upp sé ætlað að bera miklu meiri kostnað en Öldungi hf. sem fær allt sitt greitt, allan húsnæðiskostnað, allan lyfjakostnað, allt launaskrið, allt borgar ríkið og tryggir í bak og fyrir þegar Öldungur hf. er annars vegar. Öðru máli gegnir um hinar stofnanirnar og hlýtur sú spurning að vakna hvers vegna öldrunarstofnunum er mismunað með þessum hætti. Á ef til vill að draga upp þá falsmynd að einkaframkvæmdin skili betri þjónustu þegar staðreyndin er sú að hún fær miklu meiri greiðslur frá skattborgurum? Hvers eiga aldraðir að gjalda á hinum stofnununum? Á þjónusta við annað aldrað fólk en það sem hvílir í einkavinafaðmi ríkisstjórnarinnar að vera lakari?

Undirskrift ríkisstjórnar söluvara.

Enginn deilir um að samningurinn við Öldung hf. er fjárfestum mjög í hag sem arðvænlegur kostur, reyndar svo mjög að hann er orðinn bitbein á markaði. Að vísu fæ ég ekki skilið þær upphæðir sem braskarar ætla að fá fyrir undirskrift heilbrigðisráðherra en samkvæmt fréttum er hún metin á tæpan milljarð. Samkvæmt fréttum vill einn eigandi undirskriftarinnar neyta aflsmunar í stjórn Lyfjaverslunar Íslands, til að þröngva bisnessfélögum sínum þar til að kaupa samning ríkisstjórnarinnar af sér fyrir mörg hundruð milljónir króna. Jafnvel þótt samningurinn sé hagstæður fæ ég ekki betur séð en þetta lykti af spillingu. En látum það liggja á milli hluta að sinni hvernig hluthafar í Lyfjaverslun Íslands leiða deilur sínar til lykta. Okkur kemur það hins vegar öllum við hvernig farið er með skattfé okkar. Þegar öldrunarheimili og samningur um rekstur þess, sem ríkisstjórn Íslands gerir fyrir hönd þegna þessa lands og skattborgara, er orðinn að braskvarningi, hlýtur að þurfa að beina ýmsum spurningum til þeirra sem eiga að axla ábyrgð. Í þessu tilviki er það heilbrigðisráðherrann, Jón Kristjánsson, sem ber hina formlegu ábyrgð.

Hagsmunir eða heimska.

Í fyrsta lagi vil ég spyrja Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra hvort hann hafi íhugað að rifta samningnum við Öldung hf. í ljósi þess að sýnt hefur verið fram á, m.a. af Ríkisendurskoðun, að samningurinn er mjög gagnrýniverður og í hæsta máta óhagstæður fyrir skattborgarana?

Í öðru lagi er rétt að spyrja um mat heilbrigðisráðherra á atburðarás síðustu daga og vikna eftir að einn handhafa samningsins við Öldung hf. er farinn að braska með undirskrift ráðherrans, gera hana að féþúfu til að hagnast á fyrir mörg hundruð milljónir króna.

Í þriðja lagi þyrfti heilbrigðisráðherra að svara því hvort honum finnist það vera eðlilegt að lyfjafyrirtæki á borð við Lyfjaverslun Íslands reki öldrunarstofnun. Í samningnum makalausa, sem ríkið gerði við Öldung hf., mun ríkið greiða fyrir öll þau lyf sem vistmenn að Sóltúni 2 neyta og verður þá ekki spurt hvort lyfin komi frá Lyfjaverslun Íslands eða öðrum lyfjafyrirtækjum.

Í fjórða lagi væri æskilegt að ráðherrann upplýsti okkur um það hvernig í ósköpunum það gat gerst að þessi samningur varð að veruleika. Er einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar um að kenna og ætti samningurinn þannig einvörðungu að skrifast á ábyrgð hennar?

Eitt er víst að þeir sem áttu að semja fyrir hönd skattborgarans stóðu sig ekki í stykkinu. Þess vegna er eðlilegt að einnig sé spurt hvort hagsmunatengdir ráðgjafar hafi komið að málinu. Margt bendir til að svo hafi verið. Eða - og nú hrýs manni hugur og veit varla hvort þess á að óska að svarið sé játandi eða neitandi þegar spurt er um samningamenn ríkisins í þessu máli: Voru þetta ef til vill bara flón, Jón?