Fara í efni

Vinsamleg árás

Bandarískar og breskar innrásarsveitir í Írak kalla það "vinsamlega árás" þegar þeir ráðast fyrir mistök á eigin menn ("friendly fire incident"). Nokkrar slíkar "vinsamlegar árásir" hafa verið gerðar á undanförnum dögum, nú síðast á breska fréttamenn og sveitir Kúrda um helgina. Formælendur bandaríska innrásarhersins sögðu að engin orð fengju því lýst hve leið þeim þættu þessi mistök. Engar slíkar yfirlýsingar hafa verið gefnar eftir morðárásir á íraska borgara að ekki sé minnst á íraska hermenn sem hafa verið brytjaðir niður. Bush Bandaríkjaforseti sagði hins vegar í ræðu að allt væri þetta stjórnvöldum í Bagdad að kenna enda hefðu þau gerst sek um stríðsglæpi og yrðu látin svara til saka. Ekki veit ég hvort hann hélt um biblíuna þegar hann lýsti þessu yfir, en hitt veit ég að bandarískir og breskir fjölmiðlar hafa upp til hópa fallið á sínu prófi. 

Sérstaklega hef ég fylgst með breska sjónvarpinu BBC. Það hefur verið  dapurlegt að fylgjast með fréttaflutningi þessarar virðulegu stofnunar. Fréttamönnum hefur verið umhugað um að sýna fram á að innrásarherjunum hafi verið vel tekið. Sýndar hafa verið myndir af illa höldnu svöngu fólki taka við matargjöfum sem hermenn hafa deilt út. Að sjálfsögðu er fólk glatt ef það fær vatn að drekka, en sem kunnugt er  hafa vatnsból víða verið eyðilögð með sprengjuregni og vatnsskortur þess vegna farinn að ganga mjög nærri fólki. Innrásarherinn sprengir fyrst og limlestir en kemur síðan færandi hendi – í hergöllum. "Og sjá hve fólkinu finnst við vera góðir." Kannski er það líka við hæfi að sumir fréttamennirnir hafa verið íklæddir eins konar herbúningum. Þannig fer ekki á milli mála hvar þeir standa. Þetta gefur þó rétta mynd. Einn fréttaskýrandi BBC sagði að franskir fjölmiðlar stæðu sig ekki eins vel. Þeir virtust aðallega beina sjónum sínum að hinum mannlegu hörmungum stríðsins. 

Í  hópi þeirra fréttamanna sem varð fyrir "vinsamlegu árásinni" á sunnudag var John Simpson. Hann komst lífs af. Það kemur upp í hugann að þessi fréttamaður flutti fréttir af NATO árásunum á Júgóslavíu vorið 1999. Hann þurfti þá að sæta stöðugri gagnrýni af hálfu bresku ríkisstjórnarinnar og gengu þar harðast fram Alastair Campbell blaðafulltrúi forsætisráðuneytisins og fosætisráðherrann sjálfur: Tony Blair. Sagði Blair í breska þinginu að fréttaflutningur Simpsons hefði þjónað serbneskum yfirvöldum (Simpson´s reports "were compiled under the instruction and guidance of the Serbian authorities"). Simpson sagði síðar að hefði Blair ekki sagt þetta í skjóli þinghelgi hefði hann lögsótt hann fyrir meiðyrði (sjá The Kosovo news and propaganda war, ed. Peter Goff, International Press Institute, Sept.1999, bls. 25 og 57.). Höfuðsynd Simpsons mun hafa verið að staðhæfa að loftárásir NATO hefðu hert harðlínumenn að baki Milosevic Júgóslóvakíuforseta. Þótt BBC falli á prófinu þegar Bretar eiga í stríði, eru engu að síður til undantekningar frá þeirri reglu. Vorið 1999 var John Simpson dæmi um slíkan fréttamann.