Fara í efni

VINIR ÍSLANDS?

 
Einhver áhrifaríkasta frétt sem birst hefur í langan tíma er frásögn konu sem hneppt var í varðhald við komu sína til Bandaríkjanna fyrir nokkrum dögum, fangelsuð og beitt  þvingunum,  líkamlegum og andlegum, að því er best verður séð, fullkomlega saklaus. Frásögn hennar er HÉR.
Umfjöllun fjölmiðla var til fyrirmyndar og vil sérstaklega nefna Morgunblaðið sem birti frásögn konunnar og þá ekki síður umfjöllun í leiðara. Hvers vegna nefni ég Morgunblaðið sérstaklega, umfram aðra fjölmiðla sem gerðu einnig málinu góð skil. Ástæðan er sú að óvenju harður leiðari var skrifaður í Morgunblaðið um Bandaríkin sem voru vænd um að vera að þróast í átt til lögregluríkis, sjá hér neðanmáls.  Í ljósi sögunnar þótti mér þessi leiðari á þessum stað umhugsunarverður.
En hve langt er Morgunblaðið reiðubúið að ganga? Blaðið hefur áður gagnrýnt harðlega pyntingarbúðir Bandaríkjamanna í Guantanamo og Abu Graib.  Sú spurning sem vaknar í mínum huga er hve mikilu ofbeldi við þurfum að verða vitni að til þess að Morgunblaðið verði reiðubúið að rjúfa „varnarsamstarfið" við Bandaríkjamenn og NATÓ?  Vill Morgunblaðið vera í vináttubandalagi með mannréttindabrjótum? Og í framhaldinu: Hve lengi er ríkisstjórn Ísands með Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu innanborðs, reiðubúin að hvíla í vinarklóm árásargjarnasta ofbeldisríkis okkar samtíðar? Samfylkingin segist vilja ræða varnarmálin án þess þó að nokkur alvara virðist búa það að baki. Þvert á móti er utanríkisráðherra Samfylkingarinnar að þróast í eins konar íslenskan hermálaráðherra NATÓ. En gegn hverjum skyldu NATÓ vinir hins nýja hermálaráðherra eiga að verja okkur? Hvernig væri að byrja hina miklu umræðu Samfylkingarinnar um varnarmál á þessum punkti?
Og til Morgunblaðsins:  Sú var tíðin að blaðið taldi réttilega Kreml-verja engar málsbætur eiga sér eftir að uppljóst varð um öll þeirra voðaverk, þar á meðal nauðungarflutninga  heilla þjóða og þjóðarbrota landshorna á milli og fangaflutninga til Síberíu. En hvað með pyntingarflugin til Guantanamo? Ég læt liggja á milli hluta að þessu sinni, Íraksinnrásina, Afganistan, Palestínu, Mið-Ameríku, ofbeldið gegn fátækum þjóðum um víða veröld. Ég staðnæmist að þessu sinni aðeins við frumstæða grimmd sem Bandaríkjastjórn hefur sýnt gagnvart einstaklingum í Guantanamó og Abu Graib. Myndin hér að ofan birtist á sínum tíma í breska tímaritinu Economist og sýnir flutninga á föngum á  leið í fangabúðir Bandaríkjahers þar sem þeir voru pyntaðir - að sjálfsögðu án dóms og laga.
Í mínum huga átti að segja upp öllu hernaðar- og varnarsamtarfi við Bandaríkjastjórn um leið og vitað var um þau grófu og grimmilegu mannréttindabrot sem skipulögð hafa verið að hennar undirlagi.


Leiðari Morgunblaðsins 13. desember sl.:
Lögregluríki?

Meðferð bandarískra yfirvalda á íslenzkri konu, Erlu Ósk Arnardóttur Lilliendahl, sem lýst er í Morgunblaðinu í dag, er hneyksli. Ríki sem leyfir sér að koma fram við almenna ferðamenn á þann veg sem Erla Ósk lýsir er á hraðri leið að verða að lögregluríki, sem svífst einskis í samskiptum við fólk. Hér skal dregið í efa að íslenzkur þegn hafi nokkru sinni fengið aðra eins meðferð og Erla Ósk lýsir, m.a. í Morgunblaðinu í dag, hjá ríkjum kommúnismans eða fasismans eða nokkru einræðis- og kúgunarríki í veröldinni.
Sú var tíðin að Bandaríkin voru brjóstvörn frelsis og lýðræðis í heiminum. Svo er bersýnilega ekki lengur. Saklaus kona frá Íslandi fer í skemmtiferð með vinkonum sínum til Bandaríkjanna og er handtekin vegna þess að tólf árum áður hafði hún verið þremur vikum lengur í landinu en vegabréfsáritun hennar sagði til um. Í millitíðinni hefur hún áður komið til Bandaríkjanna án athugasemda af þessu tilefni.
Þessi saklausa kona er sett í fangelsi, fær ekki að hafa samband við nokkurn mann og er hlekkjuð á höndum og fótum og þannig flutt út í íslenzka flugvél um leið og henni er vísað úr landi.
Það er ekki hægt að hafa nokkur orð um þessa framkomu. Þau stjórnvöld sem svona haga sér gagnvart venjulegu fólki af ekki meira tilefni eru gersamlega sturluð. Þau vita hvorki í þennan heim né annan. Þau hafa misst veruleikaskyn. Framkoma bandarískra yfirvalda við Erlu Ósk er fyrirlitleg.
Íslenzk stjórnvöld hljóta að fylgja fast eftir mótmælum gagnvart bandarískum stjórnvöldum fyrir þessa ótrúlegu framkomu gagnvart íslenzkum ríkisborgara. Utanríkisráðherra Íslands, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hlýtur að setja sig í samband við utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Condoleezzu Rice, og krefjast skýringa.
Það er lágmarkskrafa að bandarísk stjórnvöld biðji Erlu Ósk afsökunar á þeirri framkomu sem henni var sýnd við komu til Bandaríkjanna. Þessi kona hlýtur að eiga kröfu á skaðabótum úr hendi bandarískra stjórnvalda fyrir þá svívirðilegu framkomu sem henni var sýnd.
Gera má ráð fyrir að ferðum íslenzkra ríkisborgara til Bandaríkjanna fækki eftir þennan atburð. Hver vill eiga yfir höfði sér meðferð lögregluríkis við komu til Bandaríkjanna? Hver vill eiga það yfir höfði sér að vera dreginn hlekkjaður á höndum og fótum í gegnum flugstöð og út í flugvél? Auðvitað vill enginn eiga það yfir höfði sér.
Almenningur á Íslandi mun fylgjast náið með því, hvernig íslenzk stjórnvöld bregðast við. Hvað ætli Bandaríkjamenn segðu ef bandarískur þegn væri handtekinn í Keflavík, neitað um að hafa samband við sitt fólk og dreginn hlekkjaður á höndum og fótum um flugstöðina?