Fara í efni

Vilt þú þrjú ár eins og Össur?

Sæll Ögmundur Nú þegar þetta fjölmiðlafrumvarp er úr sögunni, langar mig til að fá þína sýn á framhaldið, ertu á sömu skoðun og Össur um að eyða næstu þrem árum í samningu nýs frumvarps um fjölmiðla? Með fyrirfram þökk.
Ægir

Sæll og blessaður og þakka þér fyrir bréfið. Ég hef enga sérstaka tímasetningu í huga en tel að nú beri að skipa nýja fjölmiðlanefnd og vinna síðan frumvarp á þeim þekkingargrunni sem hún skapaði. Þótt fyrri nefnd hafi skilað ágætu starfi bar skýrsla hennar engu að síður þess merki að hún hafði nauman tíma til stefnu. Fyrir bragðið var mörgum spurningum ósvarað í skýrslu hennar. Fyrir mitt leyti skiptir sköpum hverja framtíð menn ætla Ríkisútvarpinu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sem kunnugt er áhuga á að hlutafélagavæða það. Færi RÚV undir samkeppnislög þætti mér allt önnur staða komin upp og  þeim mun mikilvægara að hraða lagasmíð en ella. Að sinni langar mig til að vísa þér í skrif hér á síðunni þar sem ég gerði grein fyrir afstöðu minni við umræðu um fjölmiðlamálið sl. vor. Sjá hér.
Með bestu kveðju,
Ögmundur