Fara í efni

VILLI SANNAR SIG

Mig langar að þakka sjálfstæðismönnum í borgarstjórn, og sérstaklega Vilhjálmi borgarstjóra, það ágæta framtak að gefa námsmönnum frítt í strætó. Þetta er þegar farið að skila sér í aukinni nýtingu strætisvagnaflotans. Vonandi er hér á ferð upphafið að einhverju meira í bættum almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Reyndar skora ég á sveitarfélögin á þessu svæði að hugleiða alvarlega að bjóða öllum upp á ókeypis strætóferðir í þeim tilgangi að kenna íbúunum kosti almenningssamgangna, draga úr bílaumferð, mengun og sliti á gatnakerfinu sem kostar óhemju fjármagn að halda við. Þannig gengur dæmið fyllilega upp að mínum dómi.

Um leið og ég flyt sjálfstæðismönnum þakkir mínar vil ég minna á að því miður fara ekki alltaf saman orð og efndir í pólitíkinni. R-listinn sem sat að völdum samfellt í 12 ár hér í borg var með það stimplað í stefnuskrá sína allan tímann að byggja upp almenningssamgangnakerfið. Árangurinn varð hins vegar minni en enginn. Allt sem laut að þessum málaflokki reyndist ómarkvisst fálm út í loftið. Stundum spyr maður sig hvað ami eiginlega að okkur vinstrimönnum. Erum við allt of oft fastir í einhverjum starfshópum og kjaftaklúbbum, leitandi að fullkomnum lausnum en svo gerist stundum nákvæmlega ekki neitt? Ekki svo að skilja að R-listinn gerði margt gott og þar á meðal var sannkölluðu grettistaki lyft í leikskólamálum í hans tíð. En mér finnst að vinstrimenn megi almennt bretta frekar upp ermarnar og sitja aðeins skemur sínar slímsetur  í allra handa starfshópum, málefnahópum og hvað þetta allt saman kallast nú í seinni tíð.
Ingi Þórðarson