Fara í efni

VIÐ VILJUM HAFA LJÓSIN LOGANDI!


Undirritaður við hlið Carolu Fischbach-Pyttel, framkvæmdastjóra EPSU, í göngunni.

Launafólk víðs vegar að úr Evrópu tók þátt í mótmælagöngu og útifundi í Brussel á fimmtudag þegar orkumálaráðherrar Evrópusambandsins komu þar saman til fundar. Frá því hafist var handa um að markaðsvæða raforkukerfin í Evrópu hafa 300 þúsund manns misst atvinnu sína, verðlag hefur hækkað og dregið hefur úr öryggi við afhendingu á rafmagni. Þess vegna hljómaði krafan um að við viljum hafa ljósin logandi!

 

Þess var krafist að horfið verði frá kröfum um markaðsvæðingu og að virtur verði vilji einstakra ríkja innan Evrópusambandsins til að skipa málum eins og lýðræðislegur vilji standi til og hætt verði að þrýsta á um að einkavæða í orkugeiranum. Þá var þess krafist að orkufyrirtæki verði skuldbundin til að fjárfesta innan geirans en með einkavæðingu hefur fjármagni verið beint út úr raforkugeiranum bæði í arðgreiðslur til nýrra eigenda og í aðra starfsemi þar sem þeir hafa hagsmuna að gæta. Fyrir vikið drabbist raforkugeirinn niður, starfsmenn fá ekki notið símenntunar sem þeim ber og er nauðsynleg vilji menn tryggja uppbyggingu og vönduð vinnubrögð. Staðreyndin sé einfaldlega sú að í stað samkeppni sem margir töldu að myndi færa samfélaginu lægra verð og markvissari vinnubrögð hafi ekki orðið að veruleika. Þvert á móti stefni í fákeppni, markaðnum verði skipt upp milli nokkurra fjölþjóðarisa sem starfi með gróðahyggju eigenda sinna eina að leiðarljósi. Menn verði nú að meta málin af yfirvegun, læra af mistökunum og gefa einkavæðingaráformin upp á bátinn. Undir þessa kröfu hljótum við að fylkja okkur og beina því einnig til íslenskra stjórnvalda að hlusta á rödd almennings!

 
Undirritaður með Carolu Fischbach-Pyttel, framkvæmdastjóra EPSU, og tveimur forsvarsmönnum evrópskra verkalýðsfélga.