Fara í efni

VIÐ VILJUM ENDURHEIMTA HEIMINN

Þetta er heitið á ráðstefnu í Hamborg um komandi helgi, We want our world back er enska heitið.

Þarna á að ræða valkosti við kapítalismann sem er á góðri leið að tortíma samfélagi og umhverfi um víða veröld.
Mér hafði verið boðið á þessa ráðstefnu en gat ekki komið því við að þiggja boðið en mun reyna að fylgjast með eftir föngum í beinu streymi.

Þótt ráðstefnan hefjist á morgun, föstudag, er enn ekki ljóst hvar hún verður haldin en síðutu helgi var aðstandendum hennar, sem á meðal annarra eru baráttusamtök Kúrda í Evrópu, sagt að háskólayfirvöld hefðu gert hana útlæga úr sínum húsum því þýska leyniþjónustan teldi hana ýta undir öfgar! Þannig var þetta orðað af hálfu forráðamanna háskólans.
Það eru með öðrum orðum taldar vera öfgar að ræða valkosti við kapítalisma.

Ég sé þessu hins vegar hvergi hreyft í fjölmiðlum sem segir okkur sitthvað um þjóðfélag sem telur sig vera öfgalaust en segist eiga í stöðugri baráttu við öfgar annarra. Dæmi svo hver fyrir sig hvar öfgarnar liggi. Sjálfur geri ég það hiklaust.

Þessi tilraun til ritskoðunar kemur sér að sjálfsögðu afar illa fyrir þau hundruð manna sem höfðu skráð sig til þátttöku.

Stúdentahreyfingunni við Hamborgarháskóla, en hún á aðild að ráðstefnunni, mun ekki vera skemmt og kraumar undir. Hvenær skyldi suðan koma upp spyr sá sem ekki veit. Hitt veit ég að fyrir fimmtíu árum hefði þegar soðið upp úr. Gæti það verið sá heimur sem við viljum endurheimta: Baráttuna fyrir lýðræðislegu og réttlátu þjóðfélagi. Það er viðfangsefni ráðstefnunnar sem þýska leyniþjónustan telur svo varhugavert.

Slóðin til að fylgjast með ráðstefnunni og framvindu mála er hér: https://networkaq.net/

Ég mun greina nánar frá framvindunni hér á síðunni.