Fara í efni

VG STÓÐ EINN FLOKKA NÁTTÚRUVAKTINA Á ALÞINGI

Kæri Ögmundur. Vinstri hreyfingin grænt framboð greiddi atkvæði gegn Kárahnjúkavirkjun en Framsókn, Samfylking og Íhaldið greiddu atkvæði með Kárahnjúkavirkjun. Ég man ekki betur en að Frjálslyndi flokkurinn hafi líka greitt atkvæði gegn Kárahnjúkavirkjun alla vega var Ólafur F Magnússon sá sem talaði gegn þessari virkjun og VG hafa alveg gleymt að segja hvar Frjálslyndir stóðu á ákvörðunarstiginu.
Bestu kveðjur,
Jón Þórarinsson

Frjálslyndir lögðust ekki gegn Kárahnjúkavirkjun á Alþingi. Eini flokkurinn sem stóð gegn Kárahnjúkavirkjun var Vinstrihreyfingin grænt framboð. Þrír þingmenn, ef ég man rétt, úr öðrum flokkum, stóðu þessa vakt, þ.e. Þórunn Sveinbjarnardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Katrín Fjeldsted. Hitt er rétt að í borgarstjórn Reykjavíkur hefur fulltrúi Frjálslyndra, Ólafur F. Magnússon, barist ötullega gegn virkjuninni.
Ég hef áður minnt á að þegar VG bar fram tillögu um það á Alþingi að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun studdi ENGINN þingmaður utan VG tillöguna við atkvæðagreiðslu!
Með kveðju,
Ögmundur