Fara í efni

VERSLAÐ MEÐ HEILBRIGÐISÞJÓNUSTU

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgunblaðinu 27.02.01.
Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, Andrés Magnússon, skrifar grein í Morgunblaðið síðastliðinn þriðjudag til stuðnings nýjum einkaspítala á Keflavíkurflugvelli. Hann fagnar því að „sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtæki" hafi nær öll gengið til liðs við samtök atvinnurekenda, „enda líta þessi fyrirtæki á sig sem hluta af íslensku atvinnulífi". Samtök atvinnurekenda í verslun og þjónustu vilji styðja við bakið á þessum fyrirtækjum „með öllum ráðum". Mikilvægt sé að starfsemi þessara fyrirtækja eflist, enda sé það hagur allra að heilbrigðisþjónustan verði rekin á eins hagkvæman hátt og kostur er: „Það gerist ekki með ríkisrekinni heilbrigðisþjónustu eingöngu."

Gamalkunn hvatning

Framkvæmdastjórinn vitnar í álitsgerðir OECD máli sínu til stuðnings. Í því sambandi er vert að geta þess að fulltrúar þeirrar samkundu hafa margoft komið hingað til lands, m.a. að tala fyrir einkavæðingu á sviði heilbrigðismála og reyndar einnig húsnæðismála; ráðleggingar sem Íslendingar prísa sig sæla að hafa ekki tekið of alvarlega.
Grein Andrésar er ekki aðeins stuðningsgrein við fyrirhugaðan nýjan einkaspítala. Hún er jafnframt svar við skrifum mínum um sama efni. Þar hafði ég minnt á að „einkarekstur" hinna „sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækja" væri meira og minna kostaður af skattborgaranum; að sumum þætti of langt hafa verið gengið í einkavæðingu innan heilbrigðisþjónustunnar hér á landi þótt bærileg sátt hefði þó ríkt um samsetninguna. Þá benti ég á það í þessum skrifum mínum að ef fjármagn færi að renna til einkarekins spítala, gæti það bitnað á öðrum einkapraxís í heilbrigðisþjónustunni. Sú hætta er enn meiri á samdráttartímum.

Launþegar hjá nýjum atvinnufjárfestum

Andrés Magnússon staðhæfir: „Stækkandi hópur fólks vill sjálfur fá að ráða ferðinni í þessum efnum." Já, eflaust. En hverjir skyldu þetta vera? Hverjir vilja fara með heilbrigðisþjónustuna inn á vettvang verslunar og viðskipta? Hafa læknar, sem nú reka sinn einkapraxís, áhuga á að verða launamenn á einkareknum sjúkrahúsum, sem rekin eru til að skapa eigendunum arð? Telja sjúkraliðar að hlutskipti sitt verði betra? Líta þeir á Samtök verslunar og þjónustu sem sín félagslegu heimkynni; að þeir séu bisnessfólk fremur en heilbrigðisstarfsmenn? Og hvað um skattborgarann? Er hann áhugasamur? Vill hann halda inn í markaðsvætt heilbrigðiskerfi?
Eða stendur einhver í þeirri trú að skattborgarinn eigi hvergi að koma nærri? Halda menn að fjárfestirinn ætli ekki að hafa neitt upp úr krafsinu? Í umræðu um einkarekna spítala á Alþingi nýlega var ég spurður hvers vegna ég vildi ekki leyfa einkaaðilum að fara sínu fram. Því er til að svara að fyrir mér mega einkaaðilar reisa alla heimsins spítala. En þegar þeir ætlast til þess að ég borgi fyrir reksturinn úr mínum skattborgaravasa þá vil ég vera með í ráðum.
Vissulega eru til spítalar, sem reknir eru fyrir beingreiðslur efnamanna og með fjármunum frá einkatryggingum þeirra. Dæmi um slíkt þekkja menn frá Bandaríkjunum, Suðaustur-Asíu og víðar. En eftir því sem ég best fæ skilið eru forsvarsmenn hugmyndarinnar um einkaspítalann í Keflavík helst að horfa til Evrópusambandsins um viðskiptavini og kveðast þeir vilja nýta sér heimildir innan EES um „viðskipti" með heilbrigðisþjónustu yfir landamæri. Samkvæmt þessu eru það skattgreiðendur í viðkomandi ríkjum sem borga brúsann. Fram hafa komið efasemdir um þetta fyrirkomulag og varnaðarorð um að farið verði varlega í sakirnar svo ekki verði grafið undan almannaþjónustunni. Hér ber Íslendingum að sýna ábyrgð. Einhvern tímann var sagt, það sem þér viljið að aðrir gjöri yður skulið þér og þeim gjöra!

Spurningar sem verður að svara

Spurningar sem verður að svara áður en haldið er út í þetta einkavæðingarferli snúa að íslenskum skattgreiðendum. Munu íslenskir sjúklingar fá bót sinna meina á nýja sjúkrahúsinu? Koma íslenskar sjúkratryggingar til með að borga? Hvaða lög og reglur gilda um EES-sjúklingana? Hvað um réttindi þeirra sjúklinga?
Ég tel þær staðhæfingar ekki standast að það sé þjóðhagslega hagkvæmt og skynsamlegat að fara út í ríkisrekinn „einkarekstur" í heilbrigðisþjónustunni á sama tíma og seglin eru dregin saman í almannaþjónustunni.