Fara í efni

VELFERÐARMÁL ERU ATVINNUMÁL

DV -
DV -

Birtist í DV 04.03.09.
Íslenska velferðarkerfið stendur frammi fyrir miklum niðurskurði. Heilbrigðiskerfið er umfangsmesti hluti velferðarþjónustunnar, þar starfa flestir, þar eru útgjöldin mest. Þar er niðurskurðurinn líka mestur í krónum talið. En einmitt þar er hann líka viðkvæmastur.
Það er meira en að segja það þegar skorið er niður í heilbrigðiskerfinu um sex þúsund og sjöhundruð milljónir. Það er tómt mál um að tala að niðurskurður af slíkri stærðargráðu dragi ekki úr þjónustu. Hins vegar má hann ekki undir neinum kringumstæðum verða til þess að tefla öryggi fólks í tvísýnu. Markalínan þarna á milli er ekki alltaf augljós. Það kostar því gaumgæfilega skoðun að finna hvar hún liggur. Þar bera að hafa í huga að betur sjá augu en auga. Grundvallarforsenda fyrir því að hægt sé að ráðast í niðurskurð í heilbrigðiskerfinu er aðkoma þeirra sem þjónustunnar eiga að njóta og þeirra sem þjónustuna veita að öllu ákvörðunarferli. Það er líka þannig að ef áform um hagræðingu og niðurskurð eiga yfirleitt að ná fram að ganga verða þau að byggja á samþykki sem flestra og breiðri samstöðu. Niðurskurður á grundvelli tilskipana gengur sjaldnast upp.

Síðan er það réttlætið

Þá er hitt ekki minna mál að fólk fái það með réttu á tilfinninguna að niðurskurður byggi á réttlæti. Ef heilbrigðisstofnun á að draga úr útgjöldum verður það að gerast á grundvelli kjarajöfnunar. Ég vorkenni engum manni sem hefur það bærilegt að taka á sig kjaraskerðingu við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu, en hinum sem hafa lítið eða missa atvinnu sína finn ég til mikillar samstöðu með. Atvinnumissir er einstaklingum og fjölskyldum erfiður og við skulum ekki gleyma því að hann er samfélaginu öllu það líka. Atvinnuleysi fylgja margvíslegir kvillar, félagslegir og efnahagslegir. Hinar félagslegu víddir hafa oft verið til umræðu en hinar efnahagslegu eiga eftir að banka á dyrnar heldur betur þegar líður á árið. Margt bendir nefnilega til þess að undir næstu áramót geti svo farið að atvinnuleysistryggingasjóður tæmist. Þá er á það að líta að betra er að hafa einstaklinginn í verðmætaskapandi atvinnu en aðgerðalausan á atvinnuleysisbótum.

Verjum innviðina

Í skýrslu frá OECD, Efnhags- og framfarastofnuninni, sem birt var í gær þriðjudag, er beinlínis hvatt til þess að ríkisstjórnir fari varlega í niðurskurð í velferðarþjónustu á samdráttartímum. Með því að styrkja innviði velferðarsamfélagsins sé dregið úr skaðvænlegum áhrifum kreppunnar og jafnframt búið í haginn fyrir uppbyggingu til framtíðar. Undir þessi sjónarmið skal tekið. Það er harla nöturlegt og í hæsta lagi mótsagnakennt að skera niður í velferðarþjónustunni með þeim afleðingum að störfum þar fækkar á sama tíma og leitað er leiða til atvinnusköpunar.

Umönnunarstörf í húfi

Í þessu samhengi er einnig rétt að hafa í huga að um er að ræða störf kvennastétta því yfirgnæfandi meirhluti starfsfólks í heilbrigðisþjónustunni eru konur.
Allt þetta þarf að hafa í huga þegar sest verður yfir fjárlög næsta árs og ígrundað hvar niðurskurðarsveðjunni skuli beitt, en því miður eru horfurnar fyrir komandi ár ekki beinlínis gæfulegar fyrir ríkisbúskapinn. Það á að sjálfsögðu vera í forgangi hjá stjórnvöldum að reyna að koma af okkur drápsklyfjum erlendra skuldbindinga en síðan glíma við innlendan efnahagsvanda á réttlátan máta. Það verður ekki gert með því að vísa umönnunarstéttunum út á guð og gaddinn.
Ögmundur Jónasson