Fara í efni

VEGIÐ AÐ STARFSHEIÐRI LÆKNARITARA

Sæll Ögmundur og þakka þér fyrir að tala máli okkar læknaritara, ekki veitir okkur af öllum þeim stuðningi sem býðst á þessum síðustu og verstu tímum fyrir okkur!

Ég var ein af gestum þingpallanna í fyrradag og fannst eiginlega pínlegt að hlusta hvað stjórnarliðarnir töluðu af mikilli vanþekkingu á starfi okkar og því sem að því lýtur.

Þannig skil ég ekki hvað Ásta R. átti við þegar hún talaði um að 70 læknaritarar önnuðu ekki að skrifa skýrslur fyrir slysadeild. Ég treysti mér til að fullyrða að slysadeildin væri í afar góðum málum ef hún hefði 70 læknaritara í dagvinnu en núna eru 11,8 stöðugildi þar fyrir 68 lækna, þar eru ritarar að vísu á dag-, kvöld- og helgarvöktum (veit ekki hvort það séu allir á vöktum en líklega flestir).
Þetta vandamál hefur verið viðvarandi frá sameiningu þegar þungi vegna lyflækningasviðs jókst til muna og veit ég til þess að Edda Þorvarðardóttir skrifstofustjóri þar hefur skrifað margar greinargerðir til stjórnenda og reynt að fá leyfi fyrir fleiri stöðugildum en ævinlega gengið á vegg og því ekki að undra að allt sé komið í hnút.

Til stóð í upphafi útboðs að taka eingöngu þessar gömlu (30.000) skýrslur en á kynningarfundi vegna útboðsins hafði því verið breytt þannig að taka ætti þær nýjustu og þar með væntanlega vera með fólk í vaktavinnu hjá hinu nýja fyrirtæki. Líklega næst þessi 10 milljóna króna ritarasparnaður á slysadeild á árinu með þessu framtaki.
Einhvern tímann hefði þetta kallast að spara aurinn og kasta krónunni en nú eru víst breyttir tímar.

Einnig virtist manni á framsögn Ástu Ragnheiðar að hún teldi að nánast hver sem er gæti „vélritað" þessar skýrslur og með því gjaldfelldi hún okkar fullra þriggja anna nám eftir stúdentspróf og sex mánaða starfsþjálfun. Það er þó engin venjuleg íslenska sem sem er notuð hér á spítalanum!

En aftur að 70 stk. riturum, síðast þegar ég vissi störfuðu í kringum 130 ritarar á LSH, svo ég er virkilega forvitin að vita hvaðan Ásta R. fær þessa tölu um ritarafjöldann.

Hvað heilbrigðisráðherra viðvíkur veit ég eiginlega ekki hvar ég á að byrja, en í Fréttablaðinu er haft eftir honum að gæði og öryggi skráningar muni mögulega aukast með því að hafa þjónustuna annars staðar en á spítalanum. Tel ég að með þeim orðum vegi hann alvarlega að starfsheiðri okkar sem hér störfum. Vil ég þá benda á að ritarar eru ekki eins og farandverkamenn, þ.e. við störfum innan ákveðinnar sérgreinar, og vil ég meina að það sé nokkur sérhæfing hjá okkur. Þar á meðal skráum við sjúkdómsgreiningar og aðgerðarnúmer í þar til gert kerfi (Lega) og því mikilvægt að við séum vel að okkur í starfsemi sérgreinarinnar og getum tryggt að læknar fari rétt með greiningarnúmer sjúkdóma og aðgerða því þeir eru ekki óskeikulir frekar en við hin.

Í Mogganum talar hann um að okkar störf falli ekki að starfsumhverfi sjúkrahússins en nú vill svo til að við vinnum náið með læknum okkar sérgreinar, sjáum um alla skráningu sem snerta sjúkling fyrir þeirra hönd og höldum utan um allar upplýsingar sem tilheyra sjúklingum sem hér dvelja.
Ef staðsetning læknaritara fer illa við starfsumhverfi spítalans þyrfti að flytja skrifstofur lækna úr húsi með riturunum ef vel ætti að vera.

Einnig staglaðist heilbrigðisráðherra töluvert á því að einkarekstur í heilbrigðisgeiranum hefði gengið vel og er það áreiðanlega hárrétt hjá honum.
Hins vegar þykir mér hann bera saman epli og appelsínur þegar hann tínir til dæmi eins og Art Medica og nokkrar heilsugæslustöðvar, það eru heilar rekstrareiningar þar sem læknaritarar vinna jú með læknum á staðnum. Þetta snýst hins vegar um allt annað, eða eins og mínir læknar myndu orða það, klippa vængina af fuglinum, með því að taka einn mikilvægan part út úr húsi og minnka greitt aðgengi lækna að ritara innan sérgreinarinnar.
Verð því að segja að mér finnst honum bregðast bogalistin með því að bera saman ritvinnslu annars vegar og fyrirtæki hins vegar.
En enn og aftur, kærar þakkir fyrir skelegga framgöngu fyrir hönd okkar læknaritara.
Læknaritari á LSH