Fara í efni

Vanhugsuð lagabreyting

Birtist í Mbl
Á undanförnum mánuðum og misserum hefur farið fram nokkur umræða um hópuppsagnir sem tæki í kjarabaráttu. Í því sambandi hafa ráðherrar í ríkisstjórn ítrekað talað um nauðsyn þess að banna slíkar uppsagnir með lögum. Undir þetta hafa tekið ýmsir aðilar, þar á meðal fulltrúar Alþýðusambands Íslands og er það miður. Á málflutningi þessara aðila er svo að skilja að hvers kyns mismunun sé af hinu illa, ótækt sé að opinberir starfsmenn búi við önnur og betri kjör en starfsfólk á almennum vinnumarkaði. Þörf sé á að samræma reglur um vinnustöðvanir og banna hópuppsagnir með lögum.

Óréttmætur málflutningur

Þessi málflutningur er hvorki réttmætur né byggður á þekkingu. Í fyrsta lagi hefur það margoft komið fram að forsvarsmenn opinberra starfsmanna eru andvígir því að beita hópuppsögnum í kjarabaráttu og hefur sá sem þetta ritar margoft lýst áhyggjum yfir því að slíkar aðferðir komi í bakið á launafólki þegar fram líða stundir. Jafnframt hefur verið hvatt til þess að gerðar verði breytingar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem rýmka réttindi þeirra þannig að þeir búi eigi við lakara réttindakerfi en gerist á almennum vinnumarkaði. Rök megi færa fyrir því að þunglamalegt kerfi sem opinberir starfsmenn búa við auki líkur á því að fólk grípi til ráða á borð við hópuppsagnir í kjarabaráttu sinni.

Staðreyndin er nefnilega sú að opinberir starfsmenn búa við miklu þrengri kost í þessu efni en gerist á almennum vinnumarkaði. Þannig eru til dæmis allar ákvarðanir um verkfallsboðun flóknari og erfiðari, krafist er hærra þátttökuhlutfalls í atkvæðagreiðslu, ekki er kostur á að fresta verkföllum eða hnika til dagsetningum og þannig mætti áfram telja. Þegar fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar lýsti því yfir að vilji væri til að samræma reglur sem gilda hjá opinberum starfsmönnum þeim sem eru við lýði á almennum vinnumarkaði, og í því samhengi bæri að skilja frumvarp um bann við hópuppsögnum, var hann tekinn á orðinu og óskað eftir heildarendurskoðun laganna. Slíkt kvað ráðherra æskilegt en lagabreyting nú samkvæmt uppskrift ríkisstjórnarinnar gæti hins vegar ekki beðið.

Slegið á útrétta hönd

BSRB, BHM og Kennarsamband Íslands mótmæltu þessum vinnubrögðum harðlega en buðu engu að síður upp á samkomulag um nokkrar breytingar á þeim leikreglum sem gilda um vinnudeilur þar sem farið yrði bil beggja en þó reynt að samræma reglurnar því kerfi sem er á almennum vinnumarkaði. Fyrir þessu reyndist ekki heldur vera hljómgrunnur í Stjórnarráði Íslands. Kom nú í ljós hve holur hljómur hafði verið í fyrri yfirlýsingum um nauðsyn samræmingar. Ekki er nóg með að þessi vinnubrögð séu ámælisverð. Þau samræmast ekki anda þeirra laga sem nú er verið að krukka í en þau voru samþykkt á Alþingi árið 1986 í krafti þess að tryggð hefði verið sátt milli viðsemjenda, samtaka launafólks annars vegar og fjármálaráðuneytis hins vegar.

Á síðari árum hefur virðing stjórnvalda fyrir gagnkvæmu tilliti og samstarfi farið þverrandi. Seint virðist mönnum ætla að skiljast að til þess að reglur verði virtar þarf að ríkja sátt um grundvöllinn. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar kemur að samskiptareglum á vinnumarkaði og skýtur það óneitanlega skökku við þegar slegið er á útrétta hönd um samstarf til breytinga.

Í hverju skyldi liggja meginmunur laganna um kjarasamninga opinberra starfsmanna og laganna um almenna vinnumarkaðinn? Í fyrsta lagi eru stórir hópar opinberra starfsmanna án verkfallsréttar, eins og t.d. lögreglumenn og tollverðir. Í öðru lagi býr verulegur hluti opinberra starfsmanna við takmarkaðan verkfallsrétt eins og t.d. starfsfólk heilbrigðisstofnana þar sem skylt er að tryggja nauðsynlega þjónustu komi til verkfalls. Í þriðja lagi er stjórnvöldum óskylt að verða við lausnarbeiðni ríkisstarfsmanns eða samþykkja uppsögn hans ef svo margir leita lausnar samtímis að til auðnar horfi um starfrækslu viðkomandi stofnunar. Engar sambærilegar reglur takmarka rétt starfsmanna á almennum vinnumarkaði til þess að segja upp störfum sínum eða að boða til verkfalla. Það er því furðulegt að tala um nauðsyn þess að samræma reglur á vinnumarkaði með því einu að teygja reglur um bann við hópuppsögnum yfir á opinbera vinnumarkaðinn. Er þá ætlunin að áfram verði við lýði lagaheimildir um að framlengja ráðningarsamninga opinberra starfsmanna? Eða á að fella þær niður til samræmingar við almenna markaðinn? Þessa heildarsýn skortir og er sjónarhornið takmarkað við einstök atriði.

Er þetta til marks um það sem koma skal, fjármálaráðherra?

Reynslan sýnir okkur að þegar í alvöru er látið reyna á samstarf þá ber það ríkulegan ávöxt. Endanleg niðurstaða í samningum BSRB, BHM og Kennarsambandsins annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar - og síðar sveitarfélaganna, um lífeyrismál var báðum málsaðilum að skapi. Umrætt frumvarp ríkisstjórnarinnar og þá ekki síst hvernig er að því staðið færir okkur heim sanninn um hve mikið ríkisstjórnin á ólært í samskiptum sínum við launafólk. Það má vel vera að hún telji sig ekki þurfa að hafa áhyggjur af framkomu sinni við samtök launafólks í almannaþjónustu eins og sakir standa. Ef takmark hennar með þessum lagabreytingum er hins vegar að tryggja sanngjarnar samskiptareglur eins og látið er í veðri vaka þá gæti það reynst þjóðráð að leggja upp í þá för með sanngirnina að leiðarljósi. Ef þessi vinnubrögð nú eru til marks um það sem koma skal í samskiptum aðila þá mega stjórnvöld gjarnan vita að svo má níðast á góðum samstarfsvilja þeirra samtaka sem í hlut eiga að fólki ofbjóði.