Fara í efni

Utanríkisráðherra boðið í te

Óðinn Jónsson fréttamaður bauð utanríkisráðherra í spjall í  morgunsárið. Reyndar kom aldrei fram hvort Óðinn bauð upp á kaffi eða te. Kannski var það bara ég sem fékk það á tilfinninguna að um teboð væri að ræða. Komið var víða við en þó fyrst og fremst rætt um tilraun ríkisstjórnar lands vors að fá sæti í Öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sagði að tilgangurinn með því væri fyrst og fremst að hjálpa fátækum ríkjum. Ekki var gengið eftir því hvað hann ætti við með því. Ekki var heldur spurt hvort hann sæi það fyrir sér að fulltrúi Íslands í Öryggisráðinu myndi taka sömu afstöðu og ríkisstjórnin hefur gert undanfarin misseri og ár, til dæmis varðandi árás Bandaríkjanna á Írak. Þar reyndi á fulltrúa í Öryggisráði SÞ. Svo var að skilja á Halldóri Ásgrímssyni að árásin á Írak hefði verið fyllilega réttmæt. Hann sagði að gereyðingarvopn hefðu verið til staðar og svo var á honum að skilja að þau væru þar enn. Í því sambandi heyrðist mér hann nefna til samanburðar að Bretar væru ekki enn búnir að finna vopnabúr IRA á Norður-Írlandi!  Ekki var utanríkisráðherra Íslands spurður nánar út í þetta enda hefði þetta þá hætt að vera huggulegt teboð.
En í fullri alvöru þá er mér spurn hvort hægt sé að bjóða landsmönnum upp á annan eins málflutning. Hans Blix sem stýrði vopnaleitinni í Írak fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna hefur fordæmt árás Bandaríkjamanna og Breta á landið og lýst því yfir að Bandaríkjamenn hefðu ítrekað reynt að bregða fyrir sig fæti. Bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum er nú mikið uppnám eftir að í ljós kom að yfirvöld beittu blekkingum til að réttlæta árásina á Írak. Utanríkisráðherra Íslands sem ásamt forsætisráðherranum skipuðu Íslendingum í hóp svokallaðra staðfastra þjóða en það hugtak var notað um þau ríki sem studdu árásarherina skilyrðislaust heldur hins vegar sömu ræður eins og ekkert hafi í skorist. Við skulum ekki gleyma að á vettvangi Sameinuðu þjóðanna var hart deilt um það hvort árás á Írak væri réttlætanleg án samþykkis Öryggisráðsins. Það hefði verið fróðlegt að heyra utanríkisráðherra Íslands tjá sig um þetta. Það gerði hann ekki. Enda ekki eftir því leitað.