Fara í efni

Uppstokkun íslenskra stjórnmála, sem sér ekki fyrir endann á

Birtist í Mbl
Spurning nr. 1:
Dómur Hæstaréttar er langt frá því að vera skýr og gefur tilefni til mismunandi túlkana, eins og rækilega hefur komið á daginn. Ríkisstjórnin hefur valið að túlka dóminn þröngt eins og frumvarp hennar fyrir jólin um breytingar á lögum um fiskveiðistjórnun ber ljósan vott um. Þeir sem vilja úthluta veiðileyfum á óheftum uppboðsmarkaði, með öðrum orðum markaðsvæða auðlindanýtinguna algerlega, kjósa að túlka dóminn mjög rúmt, eins og heyra má á málflutningi krata.

Landsráðstefna Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs fagnaði í ályktun 5. desember sl. nýgengnum dómi Hæstaréttar í kvótamálinu og sérstaklega því að niðurstaðan styrkir í sessi ákvæði 1. greinar laga um stjórn fiskveiða og sameign þjóðarinnar á auðlindum sjávar. „Óumflýjanlegt er að gera grundvallarbreytingar á kerfinu og stokka upp spilin,“ segir í ályktun landsráðstefnunnar. „Um leið gefst tækifæri til að móta nýja sjávarútvegsstefnu þar sem sjónarmið umhverfisverndar, byggðajafnvægis og jafnréttis við skiptingu afrakstursins eru höfð í heiðri.“ Fram hafa síðan stigið lögspekingar sem telja sameignarákvæði fiskveiðistjórnunarlaganna markleysu og tala fyrir ómenguðum einkaeignarrétti á fiskveiðiauðlindinni. Í reynd talar ríkisstjórnin fyrir svipuðum sjónarmiðum með túlkun sinni og viðbrögðum við dómnum. Það sést best á því að í frumvarpi hennar er ekkert sólarlagsákvæði, eins og eðlilegt væri ef menn ætluðu fljótlega að leggja inn á nýjar brautir. Þar nægir ekki að okkar mati almenn endurskoðun á lögunum að tveimur árum liðnum. Ástæða er til að rifja hér upp ákvæði 1. greinar gildandi laga svohljóðandi: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameigin íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Réttmætt er að hafa stór orð um þá þróun sem viðgengist hefur í skjóli fiskveiðistjórnunarlaganna. Þrátt fyrir ákvæði 1. greinar laganna hafa ýmsir handhafar kvóta leigt hann og braskað með hann fyrir háar upphæðir. Kvótinn er farinn að ganga í erfðir og andvirði hans hefur verið flutt úr landi. Engan þarf að undra að þjóðinni svíði að horfa upp á aðila sem eru að hætta í sjávarútvegi hirða með sér út úr atvinnugreininni ómældar fjárhæðir í nær skattfrjálsum gróða. Þetta ranglæti og siðleysi hefur gengið fram af almenningi og er löngu tímabært að þessi ósvinna verði stöðvuð og er það eitt helsta forgangsverkefni srtjórnmálanna.

Það er eitt stærsta og brýnasta hagsmunamál okkar að tryggja sjálfbæra og réttláta fiskveiðistjórnun og nú gefst okkur tækifæri til þess að ganga í það verk. Það er pólitískt verkefni sem Alþingi og stjórnmálaflokkarnir mega ekki víkja sér undan. Nýfallinn dómur Hæstaréttar opnar sviðið. Með honum skapast tækifæri til að endurmeta stefnu okkar varðandi alla fiskveiðistjórnun og á þeirri forsendu ber að fagna dómnum. Spurningin sem við blasir er meðal annars sú, hvort menn ætla dómstólum að höggva á hnúta eða hvort löggjafarvaldið sýnir það frumkvæði sem þarf. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar vísa því miður ekki á leið til sátta.

Þingflokkur Óháðra og hin nýja græna vinstrihreyfing vill leggja áherslu á þrjú meginsjónarmið. Í fyrsta lagi á verndun lífrænna auðlinda á Íslandsmiðum gegn rányrkju og mengun, í öðru lagi á umhverfisvænar veiðar og í þriðja lagi á byggðavæna úthlutun veiðiréttinda.

Um fyrsta atriðið ætti að vera víðtæk samstaða svo augljósir þjóðarhagsmunir sem þar eru í húfi. Til þess að ákvarða hámarksafla á traustum grunni þekkingar þarf hins vegar að efla til mikilla muna rannsóknir á vistkerfi sjávar. Hætta á aðborinni mengun vofir stöðugt yfir, bæði af völdum þrávirkra og geislavirkra efna. Til að verjast henni reynir umfram allt á alþjóðasamninga og eftirlit og þá um leið á samkvæmni Íslendinga í umhverfismálum.

Hvað nýtingu sjávarauðlindanna innan ramma úthlutaðs hámarksafla viðvíkur ætti að rýmka möguleika báta og smábáta til veiða frá því sem verið hefur. Slík útgerð ætti að njóta meiri forgangs til grunnmiða næst landi og með henni er unnt að þróa vistvænar veiðiaðferðir og spara orku. Með því að efla smábátaútgerðina hringinn í kringum landið væri jafnframt stuðlað að fjölbreytni í greininni og nýliðun sem tryggja verður í breyttu stjórnkerfi. Það hefur reynst nýjum mönnum erfitt að komast inn í útgerð, þar eð þeir hafa þurft að kaupa sig inn í hana dýrum dómum. Á þessu þarf að verða breyting. Samhliða þessu þarf að stokka algjörlega upp veiðistjórn þessa hluta flotans og koma á einföldum og samræmdum reglum.

Til að treysta tilverurétt sjávarbyggðanna teljum við að byggðatengja eigi réttindi til veiða, að minsta kosti að því er varðar nýtingu grunnmiðanna næst landi. Fátt myndi stuðla betur að jafnvægi í byggð landsins og koma um leið í veg fyrir stórtækan tilflutning á fiskveiðiheimildum landshluta á milli. Þetta kallar á uppstokkun á þeirri aflaskiptingu sem nú er við lýði. Ýmsar leiðir má fara í úthlutun veiðiheimilda en grundvallaratriði er að þær heimildir sem ekki væru nýttar gengju til samfélagsins aftur.

Hættan af óheftu og ótakmörkuðu uppboði veiðiheimilda eru margþætt, meðal annars sú að með því yrði opnað fyrir greiðan aðgang Evrópusambandsins að Íslandsmiðum. Mér býður í grun að slíka Evrópudrauma eigi einhverjir stjórnmálamenn hér á landi. Væri þá síðasti þröskuldurinn fyrir inngöngu í Evrópusambandið horfinn að þeirra dómi. Vandinn er sá að með því hyrfi líka vörnin fyrir dreifðar byggðir Íslands og þar með íslensku þjóðina sem væri komin á sama bekk og ríki Mið-Ameríku sem selja erlendum stórfyrirtækjum aðgang að náttúruauðlindum sínum.

Spurning nr 2:

Hér eru engar niðurstöður gefnar og að sjálfsögðu verður það undir vilja kjósenda komið hver framvindan verður. Hitt er víst að nú stendur fyrir dyrum uppstokkun í íslenskum stjórnmálum sem engan veginn er séð fyrir endann á. Innan Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Kvennalista eru margir sem lengi hafa viljað ná saman og mynda samfylkingu, og sýnist mér stefna í nýkratískan stjórnmálaflokk svipað og við þekkjum frá Bretlandi og víðar þar sem lagt hefur verið upp í siglingu til hægri. Stjórnmál á einmitt að skipuleggja þannig að þeir starfi saman sem hafa svipuð sjónarmið og pólitísk baráttumarkmið og er ekkert nema gott eitt um það að segja þegar samherjar í stjórnmálum finna sér sameiginlegan vettvang. Hins vegar er það einföldun að líta svo á að um sameiningu Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Kvennalista sé að ræða. Þessir flokkar heyra að vísu allir senn sögunni til en eftir stendur nýr flokkur sem þarf að sanna sig á eigin forsendum. Hverjar afleiðingar þetta mun hafa skal ósagt látið. Þó er ljóst að ýmsir snertifletir eru við núverandi forystu Framsóknarflokksins, og þá ekki síst í Evrópumálum þar sem báðir aðilar halda öllu opnu fyrir inngöngu í Evrópusambandið. Augljósustu áhrifin af tilkomu Samfylkingarinnar virðast, alla vega í bili, ætla að verða aukin hægri slagsíða í íslenskum stjórnmálum og aukið fylgi við Sjálfstæðisflokkinn.

Þetta eru þó að mínum dómi ekki áhrif til langframa. Afdrifaríkari afleiðingar af fæðingu hins nýja krataflokks eru þær að umhverfisverndarsinnar og fólk af vinstrivæng stjórnmálanna hefur tekið upp samstarf og býr sig nú undir að lyfta nýju merki. Tel ég það vera merkustu fréttir þessa árs og að hér skuli vera í uppsiglingu nýtt stjórnmálaafl, Vinstrihreyfingin ­ Grænt framboð. Margt bendir til að í þessari nýju hreyfingu finni kröftum sínum farveg eindregið baráttufólk fyrir jafnrétti, félagslegu réttlæti og umhverfisvernd. Þegar er ljóst að fjöldi fólks sem fylgt hefur fyrrnefndum stjórnmálaflokkum og Framsóknarflokknum að málum svo og óflokksbundnir og óháðir einstaklingar ætla að koma til liðs við þetta græna vinstraafl. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá hve mjög þessar áherslur á umhverfisvernd og félagslegt réttlæti virðast höfða til ungs fólks. Ekki er ólíklegt að þessi hreyfing marki ákveðnari spor í íslenska stjórnmálasögu en samfylking þeirra flokka sem áður voru upp taldir og heyra brátt sögunni til.

Hér á landi og víða erlendis er nú að koma fram andsvar við sókn sósíaldemókrata inn á miðju stjórnmálanna og jafnvel inn á hægri vænginn eins og raunin hefur orðið með breska Verkamannaflokkinn. Í andsvari við þessari þróun er á ferðinni fólk sem vill setja manngildið framar auðgildi og skynjar þörfina fyrir náttúru- og umhverfisvernd. Það er engin tilviljun að á sama tíma og Margrét Thatcher lýsir yfir velþóknum á stefnu breska Verkamannaflokksins undir forystu Tonys Blairs þá skuli ókyrrast mjög vinstrimenn innan flokksins og verkalýðshreyfingarinnar bresku. Í nýafstöðnum þingkosningum í Svíþjóð er hið sama uppi á teningnum. Þar unnu vinstri menn mikinn kosningasigur og í Þýskalandi er Græni flokkurinn í fyrsta sinni þátttakandi í ríkisstjórn.

Á vettvangi stjórnmálanna er tekist á um mismunandi markmið og leiðir. Að sjálfsögðu eru skoðanir skiptar um hvað sé samfélagi og einstaklingum fyrir bestu. Svörin fara eftir pólitískri sannfæringu og mismunandi hagsmunum þeirra sem á annað borð taka afstöðu. Forsenda fyrir kröftugu lýðræði og heilbrigðu stjórnmálalífi er að kjósendum bjóðist skýrir kostir ­ allt annað er ávísun á stöðnun og kyrrstöðu, jafnvel spillta valdapólitík. Vinstrihreyfingin ­ Grænt framboð mun ekki sigla undir hentifánum heldur leggja sitt af mörkum til að gera stjórnmálin þróttmeiri og skýrari en þau hafa verið um skeið. Fyrir þeirra tilstilli getur orðið tíðinda að vænta sem margir hafa beðið eftir.

Spurning nr. 3:

Ef takast á að stöðva núverandi straum fólks frá landsbyggðinni og helst snúa honum við þarf einbeittar aðgerðir af opinberri hálfu sem leiði til aukins jöfnuðar óháð búsetu og til hugarfarsbreytingar. Tilflutningur fólks frá jaðarsvæðum til borga er vissulega ekki séríslenskt fyrirbæri, en hérlendis hefur langtum minna verið að gert en víðast hvar annars staðar til að hamla gegn slíkri þróun. Það er mjög mikilvægt að greina orsakir fólksflutninga á raunsæjan hátt og í því ljósi grípa til aðgerða sem augljóslega eru af ýmsum toga en þurfa að vera samþættar.

Ekki leikur nokkur vafi á því að það er landsmönnum öllum til hagsbóta að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Það er auðveldara að nýta gæði lands og sjávar með dreifðri byggð auk þess sem vilji manna stendur til þess að búa víðs vegar um landið. Forsenda þess að slíkt megi verða er hins vegar sú að fjölbreytt atvinnutækifæri bjóðist og möguleikar til lífsgæða séu áþekkir hvar sem er á landinu.

Átakanlegt er að lesa skýrslu ríkisstjórnarinnar um byggðamál og úrræði hennar til að tryggja búsetu í dreifðum byggðum landsins. Þar rekst hvað á annars horn, annars vegar tillögur og hugmyndir til úrbóta og síðan sú byggðafjandsamlega stefna sem fylgt er á nánast öllum sviðum. Á sama tíma og landsbyggðarfólk bendir á nauðsyn þess að jafna orkukostnað er hafist handa um að brjóta niður sameiginleg raforkukerfi landsmanna og markaðsvæða þau. Slíkt mun óhjákvæmilega draga úr möguleikum til jöfnunar á orkukostnaði. Þá er ljóst að einkavæðing almannaþjónustunnar hefur leitt til þess að dregið hefur úr þjónustu í fámennum byggðarlögum. Á það meðal annars við um póst- og símaþjónustu og þjónustu í fjármálakerfinu. Eftir því sem lengra verður gengið í þessum efnum í velferðarþjónustunni, á sviði heilbrigðis- og skólamála mun þrengjast hagur landsbyggðarinnar. Ekki má heldur gleyma sveitarfélögunum, sem nú eru víða rekin með halla vegna yfirtöku kostnaðarsamra verkefna á sama tíma og ríkissjóður skilar afgangi. Þá er ljóst að tilflutningur á kvóta hefur valdið mörgum byggðarlögum ómældum búsifjum á liðnum árum og misserum.

Til að snúa þessari óheillaþróun við þarf allt aðra stjórnarstefnu en hér hefur verið fylgt lengi. Efla þarf þjónustustarfsemi í byggðakjörnum á landsbyggðinni og tryggja að allir þegnar landsins sitji við sama borð í velferðarþjónustu og mennta- og menningarlífi. Jafna þarf kostnað við húshitun og annan orkukostnað. Fiskveiðistjórnunarkerfið þarf að styðja við heilbrigða byggðastefnu eins og áður er að vikið. Stöðva þarf einkavæðingu almannaþjónustunnar og snúa vörn upp í sókn á því sviði. Góð og vönduð velferðar- og almannaþjónusta um land allt er forsenda kröftugs atvinnulífs á landsbyggðinni. Þrátt fyrir erfiða stöðu landsbyggðarinnar eru ýmis jákvæð teikn á lofti. Þannig opnar samgöngubyltingin nýjar víddir í tilverunni. Jarðgöng á Vestfjörðum hafa til dæmis það í för með sér að fólk í smærri byggðum á greiðari leið í margvíslega sérhæfða þjónustu sem ætla má að sé forsenda til að reka með sóma í stærri byggðakjörnum. Færa þarf opinbera stjórnsýslu út til fólksins í landsfjórðungunum að undangenginni vandaðri stefnumörkun. Mikilvægt er að dreifa opinberri þjónustustarfsemi sem víðast. Þetta má gera með því að koma á fót svæðaskrifstofum opinberrar stjórnsýslu en með því móti skapast atvinnumöguleikar víðar en ef öllu er haldið miðstýrðu á einum stað. Einnig má nýta möguleika fjarvinnslu í þessu skyni. Þannig er ekkert því til fyrirstöðu að ýmis verkefni, til dæmis í ráðuneytum, séu unnin með fjarvinnslutækni í fjarlægum landshlutum. Allt kallar þetta á markvissa stefnumótun en ef vilji er fyrir hendi hjá stjórnvöldum þá mun takast að snúa af þeirri braut sem við erum nú á. En það er ekki nóg að gera það í orði kveðnu. Það þarf að vera samræmi á milli orða og athafna.

Spurning nr. 4:

Við erum nú að súpa seyðið af mjög einhliða mati frá liðnum tíma á umfangi orkulinda landsins og á gildi hálendisins og þeirra náttúrufyrirbæra sem óhjákvæmilega yrði raskað með virkjun fallvatnanna. „Virkjunarmenn“ höfðu allt frá því snemma á öldinni tiltölulega rúman fjárhag til að vinna að sínum framkvæmdaáformum. Hin hliðin á teningnum, gildi ósnortinnar náttúru, var tæpast til fyrr en á allra síðustu áratugum. Og það er fyrst á síðustu 2­3 árum að upp rís fjöldahreyfing í landinu sem eitthvað kveður að til varnar þessum gildum. Enn má þó litlu til kosta að draga fram verndarþáttinn. Ríkisstjórnin felldi til dæmis við afgreiðslu fjárlaga fyrir jólin tillögu okkar Óháðra um græna þjóðhagsreikninga.

Ég tel að niðjar okkar myndu telja sig standa í þakkarskuld við núlifandi menn í landinu ef við stæðum fast gegn virkjunaráformum sem nú eru uppi og til er stofnað fyrst og fremst vegna hugmynda um málmbræðslur. Um slíka ráðstöfun orkulinda landsins getur engin sátt orðið eins og þau mál eru nú sett fram af stjórnvöldum. Vinstrihreyfingin ­ Grænt framboð beitir sér ákveðið gegn stórvirkjunum og stóriðju í þágu mengandi iðnaðar.

Í fyrsta lagi vegna þess að óspillt náttúra hefur sjálfstætt gildi og gefur okkur ómælda ánægju. Bæði innlendir menn og erlendir sækja í hin ósnortnu víðerni Íslands og okkur ber siðferðileg skylda til að vera mjög varfærin ef við á annað borð teljum okkur þurfa að hrófla við þeim. Náttúrufegurð Íslands mun án efa gefa komandi kynslóðum lífsfyllingu og verða þeim auðlind einnig í efnalegu tilliti því að ferðamenn framtíðarinnar munu eflaust kunna að meta hana að verðleikum.

Í öðru lagi verðum við að gera okkur grein fyrir því að orkan í fallvötnum og jarðhita er mun takmarkaðri að magni til en látið er í veðri vaka. Fyrir Alþingi liggur tillaga þingflokks Óháðra um sjálfbæra orkustefnu. Í henni bendum við meðal annars á að vegna náttúruverndarsjónarmiða séu fyrri útreikningar um nýtanlega orku ofætlaðir svo miklu munar. Þá sé á það að líta að sú orka sem þjóðin mun þurfa á að halda í stað innfluttrar olíu á komandi áratugum muni margfalda orkuþörfina. Ætla má að bílar, skip og önnur farartæki verði í framtíðinni knúin vistvænu eldsneyti sem framleiða má í krafti eigin orkulinda. Slíkt væri meira en lítill búhnykkur, bæði þjóðhagslega og til að auðvelda okkur að standa við alþjóðlegar skuldbindingar um að draga úr mengun andrúmsloftsins. Í ljósi þessa væri það með fádæmum vanhugsað að hlaupa til nú og virkja í þágu erlendra stóriðjufyrirtækja og binda þannig hendur okkar um langa framtíð. Það mun samt reynast vandaverk að ná sátt um þær virkjanir sem hér þyrfti að reisa smám saman á næstu öld.

Við eigum ekkert sökótt við verkfræðinga eða aðra þá sem rannsaka orkulindirnar og hanna mannvirki. „Virkjunarmennirnir“ eru þeir skammsýnu ráðherrar sem ekki eru tilbúnir að hægja á ferðinni til að tryggja náttúruvernd og framtíðarþarfir Íslendinga fyrir vistvæna orku. Við þá er ekki hægt að ná neinni sátt. Menn munu því einfaldlega takast á um þessi sjónarmið á vettvangi stjórnmálanna. Í komandi kosningum mun gefast tækifæri til þess að safna liði til varnar íslenskri náttúru. Það erum við staðráðin í að gera sem stöndum að hinni nýju grænu vinstrihreyfingu.

Spurning nr. 5:

Að sjálfsögðu eru margir atburðir áhugaverðir af erlendum vettvangi. Áhugaverðust finnst mér sú vakning sem á sér stað í umhverfismálum á heimsvísu. Rúmt ár er liðið frá því undirrituð var Kyótó-bókunin við Rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og framkvæmd hennar var síðan á dagskrá ráðstefnunnar í Buenos Aires í síðasta mánuði. Í sumar hófst vinna að gerð annars alþjóðasamnings um bann við losun þrávirkra efna sem ógna lífríki, ekki síst á norðurslóðum. Hvorutveggja ber vott um að mannkynið er að vakna upp við þann vonda draum að náttúran hefur sín takmörk, hvorki höf né andrúmsloft taka endalaust við úrgangi. Vonandi er þetta byrjunin á því að snúa vörn í sókn fyrir alvöru. ­ Auðvitað er það þungbært hve vesælir Íslendingar eru þegar kemur að loftslagsmálunum, en þar er við skammsýn stjórnvöld að eiga sem hægt er að setja til hliðar fyrr en seinna.

Af gleðilegum tíðindum erlendum má nefna batnandi horfur á því að friður komist á hjá grönnum okkar Írum og væri óskandi að sættir tækjust með stríðandi fylkingum. Það var vel við hæfi að veita talsmönnum kaþólskra og mótmælenda friðarverðlaun Nóbels og er það táknrænt um vilja umheimsins til að styðja friðarátakið á Norður- Írlandi. Óskandi væri að samsvarandi fréttir væri að hafa af öðrum svæðum heimsins sem búið hafa við langvarandi styrjaldir.

Þetta eru hinar jákvæðu fréttir. Ein neikvæð frétt af erlendum vettvangi snertir okkur sjálf og er engan veginn séð fyrir endann á. Þar á ég við mótmæli erlenda vísindasamfélagsins gegn áformum Íslendinga að selja tilteknu fyrirtæki í hendur einkarétt á að ráðstafa á markaði heilsufars- og erfðaupplýsingum íslensku þjóðarinnar. Annað og víðtækara ferli tengist hnattvæðingu fjármagsnins og þeim ótraustu undirstöðum sem efnahagur heimsbyggðar hvílir á. Frammi fyrir fjármálakreppunni í Asíu og Rómönsku Ameríku standa efnahagsráðgjafar og hagfræðingar alþjóðlegra fjármálastofnana ráðþrota ekki síður en hruni þeirra markaðslausna sem bæta áttu fyrir böl miðstýrðrar ríkisforsjár í löndum Austur-Evrópu. Á bak við hrun atvinnulífs og fjármálamarkaða leynist harmsaga mörg hundruð milljóna manna sem neyðst hafa til að herða sultarólina svo um munar.

Nú undir áramótin hefur heimsbyggðin orðið vitni að árásum Bandaríkjamanna og Breta á Írak. Þetta minnir okkur á þá drottnunarstöðu sem Bandaríkjamenn hafa á alþjóðavettvangi. Í þessu sambandi ber að gjalda varhug við hugmyndum um að breyta Nató í hernaðarbandalag á alheimsvísu sem jafnvel geti gripið til einhliða aðgerða an undangengis samþykkis Sameinuðu þjóðanna. Til að stuðla að friði sem byggir á réttlæti ber okkur að fara lýðræðislegri leiðir. Efla öryggisstofnanir sem byggðar eru á lýðræðislegum grunni, ÖSE og Sameinuðu þjóðirnar og beita okkur fyrir því að þær starfi í anda þeirra sáttmála sem þær eru reistar á. Það er kominn tími til að hrista af sér klakabönd kaldastríðsáranna með þeim hernaðarbandalögum sem þá voru ríkjandi og halda inn í réttlátari og betri heim.